Halldór á Sílastöðum í hópi þeirra bestu

Í Mogganum um helgina var sagt frá afreki Halldórs Helgasonar á Sílastöðum á snjóbrettamóti í Geilo í Noregi, sem var í upphafi páskavikunnar. Snjóbrettamótið er kennt við Andreas Wiig, sjá hér heimasíðu hans. Halldór sigraði á mótinu og hlaut 100.000 norskar krónur í sigurlaun. Það eru tæpar tvær milljónir íslenskra króna.

Eldri bróðir hans, Eiríkur, er mjög þekktur snjóbrettamaður erlendis. Þeir báðir hafa meira og minna verið erlendis síðustu ár og mestur tíminn fer í flakk um heiminn ásamt kvikmyndatökumönnum. Þær upptökur eru fyrir kvikmynd sem væntanlega verður tekin til sýningar í haust. Myndatökur hafa verið í Ástralíu, Austurríki, Sviss, Kanada, Bandaríkjunum, Noregi, Þýskalandi og hér heima á Íslandi.