Góður árangur Smárans á Meistaramóti Íslands 15-22 ára

Um síðustu helgi var haldið Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum. Arna Baldvinsdóttir keppti í flokki 15-16 ára meyja og bætti sig í 80 m grindahlaupi og langstökki. Í langstökkinu varð hún í 6. sæti með 4,77 m sem er mjög gott þar sem hún er á yngra ári. Arna varð einnig í boðhlaupssveit 17-18 ára stúlkna sem urðu í 4. sæti og hljóp Arna fyrsta sprett. Otti Freyr Steinsson stórbætti sig í kúluvarpi og kastaði 11,71 m. Hann varð í 6. sæti í flokki 15-16 ára sveina. Otti var svo í bronssveit 15-16 ára sveina í 4x100 m boðhlaupi. Friðrik Árni Pedersen varð 6. í spjótkasti. Tómas Vilberg Valdimarsson varð 7. í spjótkasti í flokki 19-22 ára ungkarla. Hildur Þóra Haraldsdóttir varð 5. í sleggjukasti, 6. í kringlukasti og 4. í kúluvarpi þar sem hún bætti sig. Hildur var öflug í stigasöfnun þar sem 6 efstu sætin gefa stig.

Hópurinn sem UMSE sendi á mótið hefur ekki lengi verið eins stór og núna. Í honum voru alls 12 krakkar. UMSE varð í 9. sæti af 14 liðum með 53 stig sem er besti árangur sambandsins á þessu móti í þó nokkurn tíma. Þennan hóp þarf að styrkja og bæta við hann. Þjálfari hans er Ari H. Jósavinsson.