Gásaverkefnið - frá Kristínu Sóleyju Björnsdóttur

Gásaverkefnið hlýtur styrk frá Norræna menningarsjóðnum.

 

Norræni Menningarsjóðurinn (Nordisk Kulturfond) hefur veitt verkefninu Det gule guld och handel i medeltiden 1,3 milljónir til þróunar á Miðaldadögum á Gásum.  

Verkefnið felur meðal annars í sér heimsókn og þátttöku starfsfólks frá Middelaaldercentret í Nyköbing í Danmörku og Víkingasafninu Borg á Lofoten í Noregi í Miðaldadögum á Gásum 22. og 23. júlí í sumar. Auk þess standa vonir til þess að Gásahópurinn fari til Borgar á Lofoten til að kynna sér hvernig menningararfinum er þar komið á framfæri með lifandi miðlun. Hörgárbyggð og Arnarneshreppur leggja einnig sitt af mörkum í verkefnið. Kristín Sóley Björnsdóttir, verkefnisstjóri Gásaverkefnisins, stýrir hinu samnorræna verkefni.

 

Að undanförnu hefur Minjasafnið á Akureyri hlotið ýmsa styrki til Gásaverkefnisins sem í sumar stendur á merkum tímamótum en þá lýkur fornlefiarannsókninni, sem staðið hefur frá árinu 2001. Á haustmánuðum var ráðinn verkefnisstjóri sem unnið hefur úr tillögum samráðshóps Gásaverkefnisins um hugmyndir að uppbyggingu Gásakaupstaðar til kynningar fyrir innlenda og erlenda ferðamenn sem og heimamenn. Hugmyndir þessar hafa hlotið góðar viðtökur en fengist hafa styrkir frá Átaki til atvinnusköpunar á vegum Viðskipta- og iðnaðarráðuneytisins (1,5 milljónir fyrir hönnun svæðisins), frá Ferðamálastofu (3 milljónir fyrir snyrtiaðstöðu) og frá Menningarsjóði Glitnis (500 þúsund fyrir skilti). Auk þess hefur Gásahópurinn, sem samanstendur af áhugasömu handverksfólki úr Eyjafirði, fengið styrk frá menningarsjóði Akureyrarbæjar.

 

Síðasta uppgraftarlotan að Gásum hefst 3. júlí og stendur fram til 11. ágúst. Boðið verður uppá gönguferðir með leiðsögn um svæðið auk þess sem messað verður í kirkjutóftinni á Gásum þann 2. júlí kl. 11 og farið í sögugöngu að Möðruvöllum þar á eftir.

 

Allar nánari upplýsingar má fá hjá verkefnisstjóra, Kristínu Sóleyju Björnsdóttur,

í síma 462-4162, 846-5338 og ksb@akmus.is