Gásakaupstaður stofnaður

Í dag var sjálfseignarstofnunin Gásakaupstaður stofnuð. Markmið hennar er að vinna að upp-byggingu þjónustu- og sýningarsvæðis til að miðla upplýsingum um hinn forna Gásakaupstað í Eyjafirði. Þar á að vera hægt að fá heildstæða upplifun á því hvernig lífið var á Gásakaupstað á miðöldum. Þar munu jafnframt skapast ný og áhugaverð atvinnutækifæri og þar verða varðveittar mikilvægar menningarminjar svo að komandi kynslóðir geti notið þeirra.

Stofnendur sjálfseignarstofnunarinnar eru Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Gásafélagið, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð, Laufáshópurinn, Minjasafnið á Akureyri og Svalbarðsstrandarhreppur.

Á myndinni eru fulltrúar flestra stofnaðilanna, ásamt Gásanefnd og verkefnisstjóra Gásaverkefnisins. Myndin er tekin á undirbúningsfundi fyrir stofnunina sem haldinn var fyrir hálfum mánuði.