Gásagátan er komin út

Barnabókin "Gásagátan", sem er spennusaga frá 13. öld fyrir börn, er komin út. Hún er eftir hinn vinsæla barnabókarithöfund Brynhildi Þórarinsdóttur. Af því tilefni var Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, afhent eintak af bókinni á degi íslenskrar tungu og fæðingardegi barnabókarithöfundarins Jóns Sveinssonar – Nonna.

Laugardaginn 21. nóvember kl. 14-16 mun Brynhildur lesa uppúr bók sinni fyrir börn á öllum aldri í Eymundsson á Akureyri, auk þess sem unnið verður að smáhandverki frá miðöldum. Sama dag kl. 15 á sama stað verður nemendum í 5. 6. og 7. bekk Þelamerkurskóla afhent eintak af bókinni. 

Á myndinni afhendir Brynhildur Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, fyrsta eintakið af bókinni. 

Gásagátan er í senn spennusaga og söguleg skáldsaga. Sagan gerist árið 1222, í upphafi Sturlungaaldar, þegar hefndin er enn lykilhugtak í íslensku samfélagi þótt landsmenn séu orðnir kaþólskir og kirkjuræknir. Söguhetjur eru bræðurnir Kolsveinn og Kálfur, ungir Grímseyingar sem koma til Gása í mikilvægum erindagjörðum. Strákarnir eiga harma að hefna eftir föður sinn en þeir ætla sér líka að verða ríkir og þar kemur dularfullur kassi við sögu. Á Gásum kynnast bræðurnir krökkum sem síðar verða þekktir þátttakendur í róstum Sturlungaaldar; Sturlu Þórðarsyni og Þórði kakala. Þeir hitta líka frægt fólk eins og Snorra Sturluson, Guðmund biskup Arason og Sighvat á Grund.

 

Brynhildur Þórarinsdóttir, er rithöfundur og lektor í barnabókmenntum við Háskólann á Akureyri. Gásagátan er áttunda barnabók Brynhildar sem hlotið hefur margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar. Hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2004 fyrir spennusöguna Leyndardóm ljónsins og fyrir endursagnir sínar á Íslendingasögunum Njálu, Eglu og Laxdælu, hlaut hún norrænu barnabókaverðlaunin 2007.

 

Gásagátan var rituð í samstarfi við Gásakaupstað ses. og Minjasafnið á Akureyri með styrk frá Menningarráði Eyþings. Markmiðið með rituninni var tvíþætt, annars vegar að vekja athygli á sögu Gása, mesta verslunarstaðar Norðurlands á miðöldum, og hins vegar að auðvelda börnum að upplifa Íslandssöguna á spennandi og skemmtilegan hátt.