Fundargerð - 31. mars 2005

Fundur í skólanefnd Þelamerkurskóla haldinn í Þelamerkurskóla fimmtudaginn 31. mars 2005 kl. 16:30

 

Fundarmenn:

Sigurbjörg Jóhannesdóttir frá Hörgárbyggð, formaður

Sigrún Jónsdóttir frá Arnarneshreppi, varaformaður

Hanna Rósa Sveinsdóttir frá Hörgárbyggð, ritari

Gylfi Jónsson fulltrúi foreldraráðs

Anna Lilja Sigurðardóttir skólastjóri

Unnar Eiríksson aðstoðarskólastjóri

Jónína Sverrisdóttir fulltrúi kennara

 

Dagskrá:

  1. Starfsmannabreytingar
  2. Frá foreldraráði
  3. Skólaþróunarverkefni-kynning
  4. Samræmd próf- helstu niðurstöður
  5. Önnur mál

 

1. Starfsmannabreytingar

Anna Lilja Sigurðardóttir skólastjóri gerði grein fyrir fyrirsjáanlegum breytingum á starfsmannahaldi skólans. Sigurgeir Bjarnason hefur sagt starfi sínu lausu. Kennslugreinar hans eru upplýsinga- og tæknimennt, tölvukennsla og tónmennt auk þess sem hann hefur haft umsjón með heimasíðu skólans og verið með gítarkennslu á vegum Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Ásdís Birgisdóttir mun hætta störfum við skólann en hennar kennslugreinar eru lífsleikni, enska og námsráðgjöf. Jónína Garðarsdóttir kemur til baka úr barneignarleyfi nk. haust og hefur óskar eftir vera í 60 % starfshlutfalli næsta vetur. Ráðningarsamningur skólastjóra rennur út 1. ágúst nk. Fram kom í máli skólastjóra að hún hefði fullan hug á að starfa áfram við skólann. Vegna ánægju með störf skólastjóra og þar sem vinna er þegar hafin við skipulagningu næsta skólaárs beinir skólanefnd þeim tilmælum til sveitarstjórna að gengið verði frá ráðningu skólastjóra sem allra fyrst. 

 

Anna Lilja gerði grein fyrir að margir kennarar hafi lagt leið sína í skólann undanfarnar vikur til að kynna sér skólastarfið og ræða við skólastjórnendur og nú þegar hafa sjö umsóknir borist um kennarastöður sem lýsir miklum áhuga á að starfa við skólann. Ákveðið var að auglýsa ekki kennarastöður fyrr en skriflegar uppsagnir liggja fyrir. Fyrirsjáanleg er fækkun nemenda næsta vetur og ekki er víst að ráða þurfi í allar lausar stöður. Þegar skipulag næsta vetrar liggur fyrir og skriflegar uppsagnir kennara er skólastjóra heimilt að auglýsa.

 

2. Frá foreldraráði

Gylfi Jónsson fulltrúi foreldraráðs lagði fram til kynningar foreldrasamning sem foreldraráð hefur hug á að fá foreldra og börn Þelamerkurskóla til að staðfesta. Markmiðið væri að fá foreldra og nemendur til að vera samstíga í forvörnum og bættum lífsháttum. Ákveðið að kynna samninginn t.d. í fréttabréfi skólans í vor og aftur í haust í því augnmiði að koma á foreldrasamningi fyrir næsta skólaár.

 

Gylfi Jónsson vék af fundi kl. 18:15

 

3. Skólaþróunarverkefni

Anna Lilja skólastjóri sagði frá tveimur þróunarverkefni sem unnið hefur verið að í vetur, annars vegar verkefni sem ber yfirskriftina: “hreyfing-heilsa-hollusta” og hinsvegar verkefnið “Útiskóli Þelamerkurskóla”. Það kom fram í máli skólastjórnenda að útiskólinn hefur vakið mikla athygli annarra grunnskóla. Auk þessara hópa er þriðji hópur að störfum við endurskoðun skólanámskrár skólans og mun hann taka inn í sína vinnu niðurstöður úr hinum þróunarverkefnunum. Unnar Eiríksson aðstoðarskólastjóri kynnti helstu niðurstöður verkefnisins, Hreyfing-heilsa-hollusta og Anna Lilja kynnti útiskólann. Bæði þessi verkefni verða sett á heimasíðu skólans til kynningar.

 

4. Samræmd próf-helstu niðurstöður

Anna Lilja skólastjóri gerði grein fyrir útkomu úr samræmdu prófum í 4. og 7. bekk. Hjá 4. bekk var meðaleinkun 7,0 í stærðfræði, meðaleinkunn á landinu öllu var 6,9 og meðaleinkunn í Norðausturkjördæmi var 7,0. Í íslensku var meðaleinkunn nemenda 6,7 en 6,9 í Norðausturkjördæmi og 6,8 yfir allt landið.

Í 7. bekk var meðaleinkunn 6,8 í stærðfræði, til samanburðar var meðaleinkunn í Norðausturkjördæmi 6,2 og meðaleinkunn 6,3 yfir allt landið. Í íslensku var meðaleinkunn 7,1 en meðaleinkunn í Norðausturkjördæmi og á landinu öllu var 7,3.

 

Vegna undirbúnings fyrir samræmd próf hjá 10. bekk fékk skólinn fjármagn til að kenna aukatíma. Kennt er á laugardögum ca. 4 tíma í einu og stefnt af því að bjóða upp á þessa aukatíma fram að samræmdu prófunum.

 

5. Önnur mál

Engin önnur mál voru á dagskrá.

 

Fundi slitið kl. 19:20

Fundaritari Hanna Rósa Sveinsdóttir