Fundargerð - 30. júlí 2004

Föstudagskvöldið 30. júlí 2004 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka, mættir Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson og Stefán L Karlsson, einnig sat Helgi Steinsson oddviti hluta fundarins.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1.      Fundargerð síðasta fundar undirrituð.

 

2.      Bréf hefur borist fjallskilanefnd frá sveitarstjórn dagsett 28. júní 2004, þar er fjallskilanefnd falið að annast málefni er varða riðuveiki og varnir gegn henni.

 

3.      Tímasetning gangna haustið 2004 rædd. Ekki hefur náðst í fjallskilastjóra Arnarneshrepps til að fá upplýsingar um göngur þar. Fjallskilastjóri Akrahrepps er búinn að hafa samband og hafði hann ekki uppi óskir um annað en gengið verði á réttum tíma. Fjallskilanefnd stefnir á að göngum í Glæsibæjardeild, Syðri-Bægisárdal og neðri hluta Skriðudeildar verði flýtt um viku, annars staðar verði gengið á réttum tíma í 22. viku sumars.

 

4.      Ákveðið að leggja dagsverk á eftir sama kerfi og í fyrra. Áætlað er að funda með viðkomandi aðilum varðandi breytingu sem gerð var til reynslu í fyrra á mörkum Seldals- og Vatnsdalsgangnasvæða.

 

5.      Ákveðið að viðhald rétta verði með sama sniði og undanfarin ár, þ.e. nauðsynlegt viðhald rétta og réttarhólfa, sem sveitarfélagið á að sjá um.

 

6.      Fjallskilanefnd leggur til við sveitarstjórn að greiðsla fyrir dagsverk verði óbreytt, það er kr. 9.000.

 

7.      Rætt var um tryggingar gangnamanna á vegum sveitarfélagsins. Oddviti las bréf frá VÍS þess efnis að ekki er hægt að fá tryggingu með styttri biðtíma eftir slysabótum en 4 vikur og hámarksbótatíma í 48 vikur. Einnig er bent á í bréfinu að hagstætt gæti verið fyrir sveitarfélagið að ráða gangnamenn í verktöku, hvað tryggingarmál varðar. Í fjallskilasamþykkt er skýrt tekið fram að sveitarfélögum sé skylt að hafa alla gangnamenn á sínum vegum slysatryggða. Oddviti ætlar að kanna þetta mál nánar.

 

8.      Stefán Lárus spurði hvort ekki væri enn í gildi bann við lausagöngu hrossa ofan girðinga í Glæsibæjardeild fram yfir göngur, eins og samþykkt hafi verið fyrir í Glæsibæjarhreppi fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Oddviti taldi svo vera. Honum og Stefáni Lárusi falið að kanna þetta nánar hið fyrsta, þar sem sést hefur til hrossahóps ofan girðingar á Moldhaugnahálsi

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 24:00.