Fundargerð - 29. október 2013

Þriðjudaginn 29. október 2013 kl. 20:00 kom menningar- og tómstundanefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru: Árni Arnsteinsson, Bernharð Arnarson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Halldóra Vébjörnsdóttir og Gústav G. Bollason, nefndarmenn. Auk þess voru á fundinum Lárus Orri Sigurðsson, forstöðumaður, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Menningarstefna fyrir Hörgársveit

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, menningarfulltrúi Eyþings, kynnti „Stefnu í menningarmálum á starfssvæði Eyþings 2013-2020“, sem Menningarráð Eyþings hefur gert, sbr. líka bréf, dags. í október 2013, frá Menningarráðinu. Í bréfinu eru sveitarfélög hvött til að kynna sér stefnuna og leggja áherslu á að litið verði til hennar við vinnu í málaflokknum.

Menningar- og tómstundanefnd áréttaði samþykkt sína frá 4. júní 2013 um að unnið verði að gerð menningarstefnu fyrir sveitarfélagið og óskaði eftir samvinnu við menningarfulltrúa Eyþings við gerð hennar.

 

2. Gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar

Lögð fram drög að endurskoðaðri gjaldskrá Íþróttamiðstöðvarinnar.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að endurskoðaðri gjaldskrá fyrir Íþróttamiðstöðina með gildistíma frá og með 1. janúar 2014, verði samþykkt, eins og og hún liggur fyrir. Jafnframt samþykkti nefndin að leggja til við sveitarstjórn að þeim sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu eigi kost á árskorti í sund án endurgjalds.

 

3. Íþróttamiðstöð, eldvarnaskýrsla

Lögð fram til kynningar skýrsla frá Eldvarnaeftirlitinu um eldvarnir í Íþróttamiðstöðinni. Þar eru gerðar tvær minniháttar athugasemdir.

 

4. Fjárhagsáætlun menningarmála og æskulýðs- og íþróttamála fyrir árið 2014

Lögð fram til kynningar drög að þeim af þeim hlutum af drögum að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2014, sem varðar menningarmál og æskulýðs- og íþróttamál.

 

5. Hraun í Öxnadal ehf, styrktarsamningur

Lögð fram drög að styrktarsamningi milli Hrauns í Öxnadal ehf. og sveitarfélagsins.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gerður verði styrktarsamningur við Hraun í Öxnadal ehf. á grundvelli þeirra samningsdraga sem lögð voru fram á fundinum.

 

6. Tómstundaaðstaða í Þelamerkurskóla

Kynntar hugmyndir um möguleika á að kom upp tómstundaaðstöðu í húsnæði Þelamerkurskóla.

Menningar- og tómstundanefnd lýsir ánægju með framkomnar hugmyndir um að komið verði upp tómstundaaðstöðu (opnu húsi) í Þelamerkurskóla fyrir íbúa sveitarfélagsins og óskar eftir því að viðkomandi aðilar styðji verkefnið.

 

 

7. Melar, eignarhald

Rætt um eignarhald sveitarfélagsins á Félagsheimilinu Melum.

Menningar- og tómstundanefnd hvetur til þess að fari fram viðræður milli eigenda Félagsheimilisins Mela um hugsanlegar breytingar á eignarhaldi hússins.

 

8. Um stofnun sögufélags

Rætt um hugmyndir um stofnun sögufélags fyrir sveitarfélagið.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 23:20