Fundargerð - 29. desember 2004

Miðvikudaginn 29. desember 2004 kl. 20,00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 61. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1.   Fjárhagsáætlun 2005.

Síðari umræða. Tekjur eru áætlaðar kr. 127.550.000 og gjöldin kr. 127.509.000 og er því fjárhagsáætlun lögð fram með kr. 41.000 afgangi. Fjárhagsáætlunin var síðan samþykkt samhljóða.

Ákveðið að halda áfram að setja upp endastaura á lögbýlun hjá þeim aðilum sem eftir eru að fá staura. [Áætlun gerir ráð fyrir] allt að kr. 5.000.000 og er áætlað að framkvæmdum verði lokið fyrir árslok 2006.  Ákveðið að áætla kr. 500.000 til endurbóta á Hlíðarbæ.

 

2.  Fjárhagsáætlun næstu 3ja ára [fyrri umræða].

 

3.  Afskriftir, bókast undir trúnaðarmál.

 

4.  Fundargerðir:

a. Fundargerð félagsmálanefndar frá 30. nóvember 2004.  Sveitarstjórn hefur á fundi sínu 24. nóvember 2004 hafnað því sem fram kemur í lið 6 í fundargerðar félagsmálanefndar og er afstaða sveitarstjórnar óbreytt frá þeirri bókun. Fundargerðin er að öðru leyti afgreidd án athugasemda.

b. Fundargerð byggingarnefndar frá 14. desember 2004.  Tvö erindi voru frá Hörgárbyggð þ.e. frá Eiríki á Sílastöðum sem sækir um leyfi til að byggja sumarhús úr timbri á lóð nr. 11 við Fögruvík og frá Þórði G. Sigurjónssyni vegna breytingu á skúr á lóð nr. 9 á Steðja. Fundargerðirnar voru afgreiddar án athugasemda.

 

5.  Skýrsla: Eyjafjörður í eina sæng?

Eftirfarandi er álit sveitarstjórnar Hörgárbyggðar sent félagsmálaráðu-neyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga,  vegna fyrirhugaðra kosninga um sameiningu sveitarfélaga í apríl n.k.:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar telur að ekki séu fram komin nein haldbær rök sem mæla eindregið með sameiningu sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög við Eyjafjörð, nema þá helst  Arnarneshrepp.  Sú sameining  yrði til hagræðingar sökum samrekstrar um skóla, sem er kostnaðarsamasti málaflokkur þessara sveitarfélaga.

Ekki liggur fyrir samkomulag milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um tekju- og verkaskiptingu, né nokkuð um það að tryggt sé að íbúar Hörgárbyggðar eigi sér málsvara í nýju sveitarfélagi. Sveitarstjórn telur stóra sameiningu í Eyjafirði því  ótímabæra.

Undanfarin ár hafa átt sér stað margar kosningar um sameiningar sem sveitarfélögin hafa komið sér saman um í sátt og samlyndi og skilað árangri.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar telur að áframhaldandi þróun á þann veg sé mikið farsælli og réttlátari gagnvart íbúunum.

Greinargerð.

Hörgárbyggð varð til við sameiningu þriggja sveitarfélaga um áramótin 2000 – 2001, Glæsibæjarhrepps, Skriðuhrepps og Öxnadalshrepps.   Sveitarfélagið hefur undanfarin ár verið að vinna úr þeirri sameiningu.  Til stóð að Arnarneshreppur tæki einnig þátt í þessari sameiningu en af því varð ekki.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur á yfirstandandi kjörtímabili sent ályktun til sveitarstjórnar Arnarneshrepps um þann vilja sinn að sameinast Arnarneshreppi  vegna nágrennis sveitarfélaganna og sameiginlegra verkefna, sem er grunnskólinn og Íþróttamiðstöðin á Þelamörk.  Meirihluti sveitastjórnar er sammála um að sameining við Arnarneshrepp yrði rétt skref í sameiningarmálum eins og málin standa. Það myndi auðvelda sameiginlegan rekstur þessara sveitarfélaga og styrkja stöðu grunnskólans og það að nemendur og foreldrar eigi áfram kost á þeirri góðu þjónustu sem skólinn veitir. 

Skólinn er hornsteinn þess samfélags sem hér er.

 

Varðandi stóra sameiningu (allra) sveitarfélaga við Eyjafjörð þá telur sveitarstjórn að forsendur fyrir henni  séu enn ekki fyrir hendi.   Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir er ekkert enn í hendi sem tryggir fjárhagslegan ávinning sveitarfélanna við stærri sameiningar.   Á meðan ekki liggur fyrir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um tekjuskiptingu og verkefnatilfærslu  er sveitarstjórn Hörgárbyggðar því mótfallin að þurfa að taka afstöðu til stærri sameiningar enda  tæpast réttlætanlegt gagnvart íbúunum.

Í nýútkominni skýrslu  RHA; Eyjafjörður í eina sæng? kemur fram að þrátt fyrir sparnað í yfirstjórn við sameiningu allra sveitarfélaga við Eyjafjörð ásamt Siglufirði,  sem er áætlaður um 80 millj.kr.,  þá skerðast tekjur sveitarfélaganna meira hvað varðar framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða um 154 millj.kr.,  þannig að fjárhagslegur ávinningur yrði minni en enginn.

 

Stór sameining kallar einnig á endurskipulagningu á stjórnsýslunni að öðrum kosti er hætta á að ekki verði tekið tillit til viðhorfa  íbúa hinna dreifðari byggða  t.d. þegar kemur að skipulags-, sorp-, skóla-, og dagvistunarmálum, sem þá snertir.  Lýðræði íbúanna þarf að tryggja.

 

6.  Sögukort.

Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar er að undirbúa útgáfu á sögukortum á íslensku og ensku fyrir alla landshluta Íslands og er óskað eftir að Hörgárbyggð veiti styrk til útgáfunnar. Samþykkt að veita kr. 100.000 í styrk sem greiðist á næstu tveim árum, þ.e. kr. 50.000 hvort ár. Hörgárbyggð fær svo 150 sögukort til að dreifingar.

7. Skipulagsmál.

Gunnar Haukur hefur sagt sig úr skipulagsnefnd vegna annríkis. Ákveðið að Birna taki sæti í skipulagsnefnd í hans stað þar sem hún er fyrsti varamaður. Samþykkt var ný staðsetning á sumarhúsi nr. 12 í Fögruvík til samræmis við innsent kort frá Eiríki á Sílastöðum.

8. Mál óafgreidd frá fyrra fundi.

9. Mál sem tengjast áramótum.  Komið hefur í ljós að þingfarakaup var ekki rétt sett inn í launakerfi Hörgárbyggðar og voru því laun sveitarstjórnar og nefndarmanna eilítið ofgreidd á árinu 2004. Því var samþykkt að laun sveitarstjórnar- og nefndarmanna taka mið af þingfarakaupi sem tók gildi 1. janúar 2004 vegna árið 2005. 

 

Ákveðið að leggja fyrir skólanefnd til skoðunar að einn skólabíll verði á leiðinni um Skógarhlíð, Kræklingahlíð og "Skottið" frá 1. ágúst 2005.

 

Ljóst er að sveitarfélögin verða að leggja fram fjármagn til rekstur Íþróttahússins vegna ársins 2004

 

Sveitarstjóra falið að ganga frá endurnýjun á samningi við Akureyrarbæ varðandi félagsþjónustuna.

 

Afsláttur af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis. 

Ákveðið að viðmiðunarfjárhæðir vegna afslátta til elli og örorkuþega verði eftirfarandi:

Fyrir einstaklinga:

a.   Með tekjur allt að kr. 1.500.000 fullur afsláttur

b.   Með tekjur yfir 2.200.000 enginn afsláttur

 

Fyrir hjón og samskattað sambýlisfólk

a.   Með tekjur allt að kr. 2.000.000 fullur afsláttur

b.   Með tekjur yfir 2.700.000 enginn afsláttur.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 00:00.