Fundargerð - 29. ágúst 2013

Fimmtudaginn 29. ágúst 2013 kl. 20:00 kom menningar- og tómstundanefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru: Árni Arnsteinsson, Bernharð Arnarson, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Gústav G. Bollason. Auk þess voru á fundinum Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi, auk Hjalta Jóhannessonar, sveitarstjóra sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Yfirferð yfir stöðu menningar- og tómstundamála í Hörgársveit

Í ljósi þess að starf menningar- og atvinnumálafulltrúa Hörgársveitar verður lagt niður frá og með mánaðamótunum ágúst-september og að þetta er síðasti fundur hans var farið yfir stöðu menningar- og tómstundamála í sveitarfélaginu og þann farveg sem rétt er að tiltekin mál fari í miðað við breytta stöðu í mannahaldi. Skúli Gautason fór yfir stöðu málefna menningar- og tómstundamálanefndar. Greindi hann frá framtíð Gásakaup­staðar ses. og helstu áformum um þróun svæðisins en þar er nú framkvæmdastjóri í 40% starfi. Hörgársveit þarf m.a. að sinna snyrtingum á svæðinu og sjá til þess að setja vatn á svæðið á vorin og taka af á haustin. Þá greindi hann frá stöðu mála varðandi Hjalteyri ehf. og rekstur þess, sem er kominn í nokkuð fast form og rætt hefur verið um að Skúli sinni framkvæmda­stjórn fyrir félagið. Stjórn félagsins áformar að ræða við Hörgársveit um að taka til endurskoðunar samninga við félagið. Sæludagur í sveitinni hefur gengið ágætlega. Viðburðir núna síðast voru ágætlega sóttir þrátt fyrir að veður hafi verið tæplega í meðallagi gott. Skúli telur að hátíðin sé búin að festa sig í sessi og geti lifað sínu lífi áfram þrátt fyrir að hún ekki njóti lengur aðstoðar sérstaks starfsmanns sveitarfélagsins. Þá telur hann æskilegt að sveitarfélagið styrki hátíðina með því að kosta auglýsingar með svipuðum hætti og undanfarin ár.

Umræður, Skúla falið að ganga frá samantekt um stöðu málefna menningar- og tómstundanefndar.

 

2. Umsókn í styrktarsjóð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands

Skúli lagði fram umsókn sem hann og Hjalti unnu um styrk til að undirbúa stofnun menningarmiðstöðvar að Möðruvöllum.

Menningar- og tómstundanefnd styður umsóknina og leggur til við sveitarstjórn að hún veiti mótframlag allt að 450.000 kr. á móti styrk frá EBÍ.

 

3. Önnur mál

Hanna Rósa þakkaði Skúla fyrir vel unnin störf í þágu menningar- og tómstundanefndar og sveitarfélagsins almennt og tóku aðrir fundarmenn undir orð hennar. Skúli þakkaði sömuleiðis fyrir ánægulegt samstarf gegnum árin.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:30