Fundargerð - 28. nóvember 2005

Mánudaginn  28. nóvember 2005 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 75. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Ásrún Árnadóttir, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Fjárhagsáætlanir, skóla, íþróttahúss og sveitarfélags, og efni þeim tengt. Teknar voru fyrir endurskoðaðar fjárhagsáætlanir skóla, íþróttahúss og sveitar­félagsins.

Fyrri umræða fór fram á fjárhagsáætlunum skóla, íþróttahúss og sveitarfélags 2006.

 

Rekstur Þelamerkurskóla og framkvæmdir eru 6 millj. umfram áætlun 2005 eins og staðan er í dag. Kemur þar helst til mikill kostnaður vegna skólaeldhúss. Á fundi framkvæmdanefndar frá 6. apríl 2005 var samþykkt að leigutekjur, umfram leigutekjur á fjárhagsáætlun, að fjárhæð kr. 1.150.000, væri heimilt að nýta til endurbóta á húsnæði skólans. Miðað við stöðuna í dag eru leigutekjur umfram áætlun kr. 798.100. Hlutur Hörgárbyggðar í umframkeyrslunni er því kr. 3.479.965. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir fyrir sitt leyti, að hækka fjárhagsáætlun sína vegna Þelamerkurskóla um þessa fjárhæð með þeim fyrirvara að Arnarneshreppur greiði sinn hluta af umframkeyrslunni. Hlutur  Hörgárbyggðar verður tekinn úr sjóði. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar harmar þá framúrkeyrslu sem orðið hefur á viðhaldi Þelamerkurskóla og leggur á það áherslu að framvegins verði gætt ítrasta aðhalds í fjármálum í samræmi við samþykkta  fjárhagsáætlun og vísar málinu til framkvæmdanefndar til formlegrar afgreiðslu. Einnig að Kristinn Kristjánsson hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga verði fengin til að fara yfir stöðu mála.

Fjárhagsáætlun ÍMÞ 2005, virðist einnig ætla að fara framúr áætlun en von er til þess að innkoma komi þar á móti.  Þarna er um að ræða [ófyrirsjánlega] viðhaldsþætti sem varð að bregðast við.

 

Tillaga að breytingum voru lagðar fram á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, bæði hækkun á tekjum og eins aukin útgjöld.  Sveitarstjóra falið að ganga frá endurskoðuðum áætlunum.

 

Samþykkt að leggja fram hlutafé í Greiða leið kr. 216.757 eða á helming þess hlutafé sem Hörgárbyggð á kost á að kaupa.

 

2.  Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Helgu og Helga falið að svara bréfi Jöfnunarsjóðs frá 7. nóv. 2005 vegna álits á vinnureglum um jöfnun milli sveitarfélaga.

 

3.  Kort um göngu- og reiðvegi.  Frestað til næsta fundar.

 

4. Fundargerðir:

a. Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 14. nóv.  Lögð fram til kynningar.

b. Fundargerðir frá stjórn Eyþings, 165. og 166. fundur. Lagðar fram til kynningar.

c.  Fundargerð skipulagsnefndar frá 24. nóv. s.l.  Rædd og samþykkt án athugasemda.

d.  Fundargerðir framkvæmdanefndar ÞMS frá 21. nóv. og 25. nóv.  Frestað til næsta fundar.

e.  Fund­ar­­­gerð stjórnar Íþróttamiðstöðvar á Þelamörk.  Frestað til næsta fundar.

 

5.  Leikskólamál.  Frestað til næsta fundar.

 

6.  Sameiningarmál, í kjölfar kosninga 8.10.  Málinu frestað.

 

7. Styrkbeiðnir.  Erindi frá Bjarna Guðleifssyni vegna útgáfu á ritinu Heimaslóð, þar sem hann sækir um styrk frá Hörgárbyggð vegna útgáfu bókarinnar. Samþykkt að veita kr. 150.000 til verkefnisins. Samþykkt að veita í Gásaverkefnið styrk til skipulagsgerðar kr. 200.000.

 

8.  Ýmis mál.  Frestað.

 

9.  Trúnaðarmál.  Rædd en ekkert bókað.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 00:22