Fundargerð - 27. október 2004

Miðvikudaginn 27. október 2004 kl. 20,00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 57. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Sameiningarmál.

Tillögu sameiningarnefndar um breytingar á sveitarfélagsskipan, lagt fram til kynningar.

 

2. Frá Aðalfundi Eyþings, ályktanir.

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar lýsir ánægju sinni með ályktanirnar  og tekur undir það að lögð sé áhersla á eflingu sveitarstjórnarstigsins sem samþykktar voru á aðalfundi Eyþings.

 

3. Fundargerð frá vinnufundi.

Óskað var eftir orðalagsbreytingu á 5. línu í 1. mgr. og að 3. lína í 2. mgr. falli út.

Fundargerðin var síðan samþykkt með áorðnum breytingum.

 

4. Erindi frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri, dags. 14. október.

Þar sem vakin er athygli á gjörbreyttri aðstöðu héraðsskjalasafnsins með tilkomu nýbyggingar Amtsbókasafnsins og skyldu sveitarstjórna á að skila inn skjölum sem hafa náð 30 ára aldri og yngri skjölum við sérstakar ástæður svo sem við sameiningu sveitarfélaga. Héraðsskjalavörður býður jafnframt fram aðstoð sína  við að meta hvað þarf að geyma og hvað ekki.

 

5.  Erindi frá Norðurorku, dags. 20. október.

Þar sem óskað er (þeir óska) eftir stuðningi þeirra sveitarfélaga sem málin varða um að Norðurorka verði ekki þvinguð (þeir veðri ekki þvingaðir) til að kaupa dýrari raforkudreifingu en nauðsynlegt er. En Norðurorka hefur staðið í deilum við RARIK um réttmæti þess að fyrirtækið tengdi Laugaland í Eyjafirði og Hjalteyri við dreifikerfi raforku á Akureyri. Strengurinn að Laugalandi liggur áfram að Djúpadalsvirkjun og flytur raforku virkjunarinnar að Laugalandi til Akureyrar. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar lýsir yfir fullum stuðningi við áform Norðurorku að leita ódýrustu leiða við orkudreifingu.

 

6.  Garnaveikibólusetning og hundahreinsun.

Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar ehf. gerir eftirfarandi tilboð í garnaveikibólusetningu og hundahreinsun.

Garnaveikibólusetning komugjald pr. bæ kr. 1.804, bólusetning og lyf pr. lamb kr. 211. Hundahreinsun, óháð fjölda hunda, um leið og bólusett er við garnaveiki kr. 1.700 og lyf kr. 356 kr. pr.  10 kg. hund. Örmerkin á hunda kosta kr. 1.300. Hundahreinsun þar sem ekki er bólusett við garnaveiki er kr. 2.500 lyf kr. 356 kr. pr.  10 kg. hund. Aksturskostnaður deilist hlutfallslega milli bæja. Samþykkt að taka tilboðinu og greiðir sveitarsjóður eins og áður komugjöld og lyf vegna garnaveikibólusetningar.

 

7.  Samþykktir um hunda- og kattahald.

Sveitarstjóra falið að senda Umhverfisráðuneytinu samþykktirnar til staðfestingar og auglýsa þær í fréttabréfinu.

 

8. Reglur um félagslega heimaþjónustu.

Erindi frá félagsmálaráðuneytinu um að það fái sendar þær reglur sem eru í gildi um heimaþjónustu í Hörgárbyggð. Sveitarstjóra falið að vinna að frekari úrfærslu á reglunum í samráði við félagsmálanefnd.

 

9.  Gásir – beiðni um stuðning við deiliskipulagsgerð, frumskýrsla með ramma að áætlun, fjárhagsáætlun, starfslýsing fyrir verkefnisstjóra. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar lýsir stuðningi við verkefnið en telur eðlilegra að umræðn fari fyrst fram  á vettvangi Héraðsnefndar sbr. t.d. aðkomu Héraðsnefndar að uppbyggingu í Laufási.

 

10. Erindi frá formanni Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar, dags. 8. október.

Þar kemur fram að undirbúningsvinna er hafin við sameiginlega stefnumótun í barnaverndarmálum hér á Eyjafjarðarsvæðinu og er óskað eftir að Bjarni Kristjánsson sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar verði fulltrúi aðildarsveitarfélaganna með fjórum fulltrúum frá Akureyrarbæ. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar lýsir fullum stuðningi við að Bjarni Kristjánsson verði fulltrúi fyrir aðildarsveitarfélögin.

 

11. Erindi frá félagsmálaráðuneytinu um hækkun hámarkslána hjá Íbúðalánasjóð.

Þar kemur fram að félagsmálaráðherra hefur gefið út reglugerð um hækkun hámarkslána frá Íbúðalánasjóði og getur lánið orðið allt að kr. 13.000.000 með viðbótaláni. Óskað er eftir að sveitarfélög breyti reglum sínum í samræmi við reglugerðina. Sveitarstjóra falið að uppfæra  upphæðir viðbótarlána.

 

12. Umsögn vegna umsóknar á endurnýjun á leyfi til reksturs gistiskála.

Sýslumaður óskar umsagnar um umsókn Soffíu Alfreðsdóttur um endurnýjun á rekstrarleyfi vegna 12 gistiskála í Fögruvík. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir rekstrarleyfi fyrir 10 sumarhús og tvö til viðbótar þegar byggingu þeirra er lokið og tilskilin leyfi eru til staðar. Sveitarstjóra falið að afgreiða erindið.

 

13. Frá félagsmálaráðuneytinu um framlög.

Þar kemur fram að heildarúthlutun framlaga vegna jöfnunar á tekjutapi sveitarfélaga í kjölfar breytinga á álagningastofni fasteignaskatts næmi alls kr. 1.588.128.000 á árinu 2004. Hlutur Hörgárbyggðar í framlaginu er því kr. 8.915.682.

Í bréfi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga kemur fram að hlutur Hörgárbyggðar í tekjujöfnunarframlaginu á árinu 2004 er kr. 3.163.989.

 

14. Frá Heilbr.eftirliti Norðurlands eystra:

a) Bréf dags. 30. september

b) Skýrsla flutt á aðalfundi Eyþings

c) Fundargerð 72. fundar ásamt fjárhagsáætlun 2005

d) Fundargerð 73. fundar, þar kemur fram að í Hörgárbyggð hafa tveir bæir fengið starfsleyfi fyrir vatnsveitur þe. Á Öxnhóli og Búðarnesi.        

Í bréfi frá Heilbrigðiseftirlitinu er fjallað um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og er rekstraraðilum leiksvæða gert að setja fram tímasetta áætlun um endurgerð leiksvæða og senda heilbrigðisnefnd til umsagnar fyrir 1. janúar 2005. En eftir 1. janúar 2005 mega þeir einir framkvæma aðalskoðun sem hlotið hafa til þess faggildingu að gera heildarúttekt á öryggi leikvallatækja og yfirborðsefna. Lagt fram til kynningar.

 

15.  Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga:

a) Fundargerð launanefndar sveitarfélaga frá 13. okt. 2004.

b) Fundargerð stjórnar frá 15. október 2004.

c) Landsþing ísl. sveitarfélaga, bréf frá 21. september. Lagt fram til kynningar.

 

16. Kynning á erindum varðandi skipulagsmál og umhverfismál.

Bréf frá Skipulagsstofnun vegna byggingu tveggja frístundahúsa í landi Skipalóns og kemur þar fram að Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir við byggingu umræddra húsa á þessum stað.

 

Ákveðið að fela skipulagsnefnd ásamt sveitarstjóra að vinna að gerð aðalskipulags í Hörgárbyggð og reyna að byrja á verkefninu á næsta ári og vinna það á næstu þrem árum þaðan í frá.  Hugmyndin er að fara í forval og velja u.þ.b. fjóra aðila til að gera tilboð í gerð aðalskipulags. 

 

Erindi Eiríks á Sílastöðum um byggingu tveggja sumarhúsa í landi Pétursborgar, kom til umræðu og hefur Skipulagsstofnun samþykkt óformlega að nægjanlegt sé að setja byggingaframkvæmdir í grenndarkynningu.  Ákveðið að vísa erindinu til skipulagsnefndar til afgreiðslu og fela þeim að undirbúa grenndarkynningu.  

Jafnframt að Eiríki sett það skilyrði að hann komi með heilstætt deiliskipulag af svæðinu svo hægt sé að ganga frá því áður en farið er í aðalskipulag.

 

17.    Styrkbeiðnir.

Erindum hafnað.

 

18. Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2004 – fjárhagsáætlanir 2005.

Framlögð endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir 2004 var samþykkt og (verður) undirrituð því til staðfestingar. Ræddar forsendur fjárhagsáætlunar 2005.  

 

19.  Erindisbréf, samþykktir og reglugerðir, fyrir skipulags- og félagsmálanefnd. Einnig drög að samþykktum um gatnagerðargjöld í þéttbýli í Hörgárbyggð.

Lagðar fram og verða teknar til afgreiðslu á næsta fundi.

 

Ákveðið að fundir sveitarstjórnar í nóvember verði 10. og 24. nóvember.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:56.