Fundargerð - 27. mars 2006

Mánudagskvöldið 27. mars 2006 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla mættir: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson, Stefán L Karlsson.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

Tilefni fundarins er að ræða um gangnaskil á Illagilsdal og Lambárdal á Þorvaldsdalsafrétti, í framhaldi af breytingum sem þar urðu á síðastliðnu hausti, þegar ákveðið var að skipta gangnaskilum þar jafnt á milli Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps, sú tilhögun var þá ákveðin aðeins fyrir haustið 2005, en nú þarf að ræða þetta betur til framtíðar. Nefndarmenn ræddu þetta nokkuð í sínum hópi, en svo mættu til fundarins fulltrúar Arnarneshrepps þeir Jósavin Gunnarsson fjallskilastjóri og Hannes Gunnlaugsson varaoddviti

Guðmundur sagði að fjallskilanefnd Hörgárbyggðar væri sátt við það samkomulag sem gert var um göngurnar haustið 2005 og að það gilti áfram. Jósavin sagðist sáttur við það samkomulag fyrir sína parta, hann vill þó að fjölgað verði um 1 dagsverk í 1. göngum, en í staðinn verði eftirleitardagsverkið fellt niður, en hann sagði að þetta þurfi að fara fyrir sveitarstjórn til endanlegrar ákvörðunar. Hannes sagðist  vera sáttur við þessa tilhögun, en áskilja sér rétt til  að endurskoða þetta á síðari stigum.  Jósavin vakti athygli á því, að mjög slæmt væri þegar menn væru að sleppa fullorðnum hrútum á afrétt og það yrði að koma þeim eindregnu tilmælum til manna að þeir gerðu það ekki, ella gætu þeir orðið að sækja hrútana sjálfir til afréttar þegar þeir rekast ekki heim með öðru fé í göngum.

Fundarmenn eru sammála um að leggja fyrir sveitarstjórnirnar að gangnadagsverk á Illagils- og Lambárdal verði 5 í fyrstu göngum og skiptist þannig á milli sveitarfélaganna að Arnarneshreppur verði með 3 og Hörgárbyggð 2. Í öðrum göngum verði dagsverkin 3, Hörgárbyggð verði með 2 og Arnarneshreppur 1.

Gangnastjóri komi frá Arnarneshreppi.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið.

Guðmundur Skúlason
Aðalsteinn H. Hreinsson
Stefán Lárus Karlsson
Jósavin Gunnarsson
Hannes Gunnlaugsson