Fundargerð - 26. september 2013

Fimmtudaginn 26. september 2013 kl. 16:30 kom fræðslunefnd Hörgársveitar saman til fundar í Álfasteini.

 

Fundarmenn voru: Axel Grettisson, Garðar Lárusson, Líney S. Diðriksdóttir og Sunna H. Jóhannesdóttir, nefndarmenn, og auk þess Hugrún Ósk Hermannsdóttir, leikskólastjóri, Ingileif Ástvaldsdóttir, skólastjóri, Bára B. Björnsdóttir, fulltrúi starfsfólks Álfasteins, Jónína Sverrisdóttir, fulltrúi starfsfólks Þelamerkurskóla, Andrea Keel, fulltrúi foreldra leikskólabarna, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

Málefni Þelamerkurskóla:

 

1. Skólaárið 2013-2014, skipulag

Gerð grein fyrir helstu þáttum í skipulagi skólaársins 2013-2014. Þar kom m.a. fram að skráðir nemendur í skólanum eru 81. Fyrirkomulag skólastarfsins á skólaárinu verður í aðalatriðum sem sama hætti og undanfarin ár. Borist hefur höfðingleg gjöf frá kvenfélaginu Gleym-mér-ei í Glæsibæjarhreppi, sem notuð hefur verið til kaupa á spjaldtölvum fyrir nemendur og kennara.

 

2. Afmæli skólans

Grein grein fyrir þeim undirbúningi, sem fram hefur farið fram vegna 50 ára afmælis Þelamerkurskóla. Haldið verður um upp á afmælið 20. nóvember nk.

 

Sameiginleg málefni:

 

3. Skipulag skólamála, umræða

Lagðir fram til kynningar fundarminnispunktar frá fundi vinnuhóps sveitarstjórnar um húsnæði Þelamerkurskóla og skipulag skólamála í sveitarfélaginu, sem var 19. september 2013. Þar er gerð tillaga um að hafin verði undirbúningur að því að gera útboðsgögn fyrir stækkun anddyris, uppsetningu lyftu og viðhald á A-álmu og að farin verður kynnisferð í skóla þar sem er samrekstur grunnskóla og leikskóli. Umræður urðu um kosti og galla þess að reka saman grunnskóla og leikskóla.

 

4. Fjárhagsáætlun fræðslu- og uppeldismála fyrir árið 2014, umræða

Lagðar fram upplýsingar um stöðu kostnaðar við þau viðfangsefni sem heyra undir málaflokkinn fræðslu- og uppeldismál. Þar kemur fram að í heildina virðist sem lítið frávik verði frá áætlun ársins.

 

Málefni Álfasteins:

 

5. Skólaárið 2013-2014, skipulag

Gerð grein fyrir helstu þáttum í skipulagi skólaársins 2013-2014. Þar kom m.a. fram að nemendur í skólanum eru 24, en um næstkomandi áramót verða þeir væntanlega 27 talsins. Fyrirkomulag skólastarfsins á skólaárinu verður í aðalatriðum sem sama hætti og undanfarin ár.

 

6. Eldvarnaskýrsla

Lögð fram eldvarnaskýrsla fyrir Álfastein, dags. 11. september 2013. Í henni eru engar athugasemdir gerðar við húsnæðið.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 18:25.