Fundargerð - 26. janúar 2013

Íbúafundur um menningar- og tómstundamál í Hörgársveit

haldinn í Hlíðarbæ laugardaginn 26. janúar 2013 kl. 10-14

 

Frummælendur:
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands
Alfa Aradóttir, forstöðumaður æskulýðsmála hjá Rósenborg á Akureyri

Fundarstjórar voru Árni Arnsteinsson, formaður menningar- og tómstundanefndar og Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi. Kvenfélag Hörgdæla bauð upp á matarmikla súpu og nýbakað brauð í hádegishléi.

Um 15 manns mættu á fundinn og heppnaðist hann afar vel. Það voru þó ákveðin vonbrigði að sjá ekki fleiri aðila úr ferðaþjónustu, menningarmálanefnd og sveitarstjórn og engan úr skólanum né fulltrúa frá félögunum í Hörgársveit. Það er nauðsynlegt í framhaldinu að boða þessa aðila til samráðsfundar bréflega.

Arnheiður Jóhannsdóttir hélt fyrirlestur sem nefndist „Getum við markaðssett menningu?“ Menning væri oft skilgreind sem „lífsmynstur heilla samfélaga“. Hún sagði frá Markaðsstofu Norðurlands og hlutverki hennar. Það er áríðandi að íbúar láti Markaðsstofuna vita af því sem í boði fyrir ferðamenn er til þess að Markaðsstofan geti komið því  á framfæri. Hún talaði um mikilvægi markhópagreiningar, þ.e. að átta sig á því hverjir væru hugsanlegir kaupendur þjónustu.

Ein megináherslan í starfi MN er að lengja ferðamannatímabilið, auka ferðamennsku á veturna. Það hefur orðið aukning að undanförnu, bæði meðal íslenskra og erlendra ferðamanna. Mest hefur aukningin verið meðal útlendinga í janúar- og febrúarmánuði. Flestir segjast vera komnir til að upplifa náttúruna og um helmingur vill upplifa menningu og sögu. Það horfir til vandræða hversu lítið er í boði fyrir þessa ferðamenn. Það þarf að hafa söfn og aðra menningarstaði opna að vetri til líka.

Arnheiður benti á að það þyrfti að átta sig á hvar menn vildu fá aukna aðsókn. Það er ekki sjálfgefið að það sé alls staðar æskilegt. Sumir staðir og viðburðir eru viðkvæmir og mega ekki við miklum fólksfjölda. Þar má nefna fjárréttir sem dæmi. Aðrir þættir, s.s. norðurljósaferðir og hvalaskoðun tækju lengi við.

Arnheiður taldi æskilegt að í sveitarfélaginu væri einn aðili sem gæti selt aðra, einhverskonar miðstöð.

Hér eru nokkrir punktar sem komu fram í vinnuhópi  í umræðum um þessi mál:en meginspurningin var hvernig væri hægt að efla menningartengda ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.

Fyrsta skrefið er að  greina þá starfsemi sem er til staðar nú þegar í sveitarfélaginu og efla samvinnu aðila sem nú þegar eru í ferðaþjónustu eða hafa áhuga að koma að ferðaþjónustu.Það er nauðsynlegt að vinna að greiningu og í framhaldi að þróa   söluvöru úr því sem við höfum nú þegar. Þannig er markhópagreining afar mikilvæg, til að átta sig á því hvaða hópar ferðamanna væru líklegastir til að vilja kaupa þá vöru eða þjónustu sem í boði er.

Gera mætti bækling með allri þeirri starfsemi sem tengist ferðaþjónustu í Hörgársveit, t.d. með korti og tillögu að slóð á milli þeirra.

Nú þegar eru árlegir viðburðir í sveitarfélaginu eins og Miðaldadaga á Gásum og Sæludagurinn sem hugsanlega mætti stækka og markaðssetja frekar ef íbúar eru tilbúnir í það. Aðrir staðir eins og  Hjalteyri, Hraun og  Möðruvellir gætu orðið viðkomustaðir í tilteknum ferðum og svo væri spurning hvort göngur og sérstaklega fjárréttir (með leiðsögn) gætu orðið söluvara. Æskilegt að lengja Miðaldadagana á Gásum og tengja við skólastarf.
Hvernig á að þróa Sæludaginn? Sveitarfélagið hefur alið af sér mörg skáld og hægt væri að bjóða t.d. upp á ferðir með leiðsögn á skáldaslóðir með heimsóknum á nokkra staði. Sveitarfélagið er jafnframt ríkt af kirkjubyggingum sem hægt væri að setja saman í skoðunarpakka hugsanlega með náttúruskoðun eða upplifun af sveitalífi.

Þegar búið er að taka saman þá möguleika sem eru í boði í sveitarfélaginu er nauðsynlegt að koma sveitarfélagnu á framfæri  og kynna fyrir ferðamönnum það sem er í boði  í sveitarfélaginu t.d. í prentbæklingi og á heimasíðum.  Mikilvægt  að framsetning í svona bæklini sé góð t.d.  með korti og tillögu að slóð eða leið á milli staðanna sem í boði eru.

Hluti af vandanum við eflingu menningartengdar ferðaþjónustu í sveitarfélaginu eru að menningartengd  verkefni er nokkuð mörg og  smá í sniðum og hafa átt erfitt að þróast frekar vegna fjárskorts. Nægir þar að nefna Amtsmannssetrið, Gásakaupstað, Hraun ehf og Verksmiðjuna á Hjalteyri. Til þess að hægt sé að markaðsetja staðina þarf að vera til staðar ákveðin festa  t.d. sýningar, viðburðir og fastur opnunartími eða möguleiki á heimsókn og það útheimtir rekstrarfé sem ekki  er raunhæft að komi eingöngu frá gestum/ferðamönnum. 

Skipulagsmálin þurfa einnig að styðja uppbyggingu í ferðaþjónustu t.d. mætti efla  svæðið norðan við Þelamerkurskóla með að koma þar upp tjaldstæði og útiaðstöðu sem er mjög vel sett á nálægð við sundlaug og útivistarmöguleika en ekkert tjaldstæði er nú í sveitarfélaginu.

Fram kom hugmynd um ferðaþjónustumiðstöð að Möðruvöllum. Þar yrði miðstöð til að taka á móti ferðamönnum og veita upplýsingar um áhugaverða staði í sveitarfélaginu, etv. sýningarrými, þar sem saga sveitarinnar og staðarins væri rakin og bent á áhugaverða staði. Á Möðruvöllum er kirkjan sem margir vilja skoða og það væri tiltölulega einfalt að koma upp kaffihúsi í Leikhúsinu og bjóða upp á einhverja afþreyingu t.d. hestaleigu, húsdýragarð eða annað sem er ekki nú þegar til staðar í héraðinu. Möðruvellir eru miðsvæðis í sveitarfélaginu og þar er nú þegar húsakostur til staðar til að koma slíkri miðstöð í gagnið. Hugsanlega mætti færa skrifstofur sveitarstjórnarinnar þangað og þar er mögulegt framtíðarsvæði fyrir skóla í sveitarfélaginu. Þar gæti einnig verið vettvangur fyrir sölu á handverki eða matvöru úr sveitarfélaginu.

Í Hörgársveit er mikil yfirbygging í húsnæði t.d. tvö félagsheimili auk Leikhússins á Möðruvöllum sem sveitafélagið er eignaraðili að. Mætti nýta þau betur? Það vantar hugmyndir að aukinni nýtingu á Hlíðarbæ. Þar mætti koma upp sýningum og fjölga uppákomum? Slagorðið ætti að vera: Minna í hús, meira í fólk.

Skjaldarvík er dæmi um mjög góða uppbyggingu sem hægt að læra af. Þar hefur gömlum húsum verið fengið nýtt hlutverk á afar smekklegan og skemmtilegan hátt.

Á Hjalteyri er að þróast spennandi samstarf listgreina og smáiðnaðar. Þar þyrfti að byggja upp aðstöðu fyrir sjávartengt sport. Það er í bígerð að koma upp heitum pottum á Hjalteyri. Mikilvægt að þar verði rekin kaffihús og/veitingastaður með sérstöðu á svæðisvísu.

Matur úr héraði – samstarf frumframleiðslu og þjónustuaðila í ferðaþjónustu. Mjög vaxandi áhugi.

Hvernig væri hægt að auka afþreyingu í sveitarfélaginu, bæði á veturna og sumrin?

Hvernig er hægt að lengja ferðamannatímann?

Væri ekki ráð að markaðssetja Jónasarlaug betur? „Heitasta sundlaugin á svæðinu“ Hvernig má lengja opnunartíma sundlaugarinnar?

Það þarf að styrkja ímynd sveitarfélagsins út á við og sjálfsmynd sveitarfélagsins inn á við. Við eigum að vera stolt af því sem við höfum og tefla því fram. Efla sveitarbraginn, eyða hræðslu. Áríðandi er að merkja sveitarfélagið með skiltum þegar ekið er inn í það á Öxnadalsheiði, við Fagraskóg og við Lónsbakka. Við þurfum að nota snjó, hríð og sérkennilega birtu í markaðssetningu.

Að lokum var rætt um nauðsyn þess að hóa saman  fundi um samráð aðila í ferðaþjónustu, jafnvel félag eða fyrirtæki sem er samráðsvettvangur. Ferðamálafélag Hörgársveitar, Markaðsráð Hörgársveitar eða eitthvað slíkt.  Gætum litið til Norðurhjara á NA-horninu, Ferðatrölla á Dalvík. Klasar í ferðaþjónustu eiga auðveldara með að fá styrki en einstaklingar.

 

Alfa Aradóttir flutti erindi um æskulýðs- og forvarnamál og spunnust miklar umræður að máli hennar loknu. Hún talaði um nauðsyn þess að börn og unglingar væru inni í mótun menningarstefnu. Hún minnti á að það væru tilmæli frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti að skipuð yrðu ungmennaráð. Mörg sveitarfélög hafa nú þegar komið slíkum ráðum á laggirnar. Ungmennaráð ætti að hafa svipaða stöðu og aðrar nefndir á vegum sveitarfélagsins. Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur verið mjög framarlega í þessum málum, þar eru allar ályktanir allra nefnda sendar til ungmennaráðs til umsagnar. Ungmennaráð hafa víðar verið virk, s.s. í Fjallabyggð og Hvalfjarðarsveit. 

Alfa minnti á að í mótun menningarstefnu sveitarfélags væri nauðsynlegt að festa forvarnir í sessi.  Hvernig verklag viljum við hafa þegar við vinnum með ungt fólk?  Minnti á réttindi barna til þátttöku í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í forvörnum skiptir það höfuðmáli að börn og unglingar séu virk í einhverju starfi. Það breytir ekki öllu í hvaða tómstundastarfi þau eru virk. Þátttaka í tómstundastarfi undir handleiðslu hæfs leiðbeinanda getur haft mikið forvarnagildi. Hér skiptir öllu máli að sköpuð sé góð og uppbyggileg umgjörð. Þn það að hanga langtímum saman í tölvunni er ávísun á vandræði sem og að skilja ungt fólk eftir án stuðnings í sínum frítíma. Í tómstundastarfi styrkist hinn óformlegi menntunarvettvangur, s.s. jafningjafræðsla, félagsþroski og tengslanet innan samfélagsins.

Þverfagleg samvinna tómstundastarfs og skólastarfs  er afar dýrmæt. Þannig geta kennarar og starfsfólk í félagsstarfinu  tengt sig saman. Dæmi um vel heppnuð verkefni af þessu tagi er Þjóðleikur og stuttmyndahátíðin Stulli.

Það er nauðsynlegt að tengja saman hinn formlega og hinn óformlega menntunarvettvang.

Hér eru nokkrir punktar úr umræðuhópi um þessi mál:

Rætt var um staðsetningu nýs skóla. Einkum þykja tveir staðir koma til greina, annars vegar á svæðinu næst Akureyri (í námunda við Blómsturvelli) og hins vegar Möðruvellir.

Rætt var um að eftirsjá væri að prestatíma í skólanum. Slíkur tími ætti ekki að snúast um trúboð heldur lífsleikni, þar ætti að kenna að bera virðingu fyrir skoðunum annara.

Skólinn ætti að koma betur inn í forvarnarstarfið. Gæti kennari verið í ákveðnu starfshlutfalli sem forvarnafulltrúi?

Þumalputtaregla: Fjölskyldur sem gera mikið saman eru í lagi, þær sem ekki gera það lenda oft í vandræðum.

Skólinn mætti tengjast betur samfélaginu. Skólinn er óþarflega einangraður eða lokaður.

Það er beinn peningalegur sparnaður fólginn í því að sinna æskulýðs- og forvarnarmálum því hver einstaklingur sem lendir á villigötum er samfélaginu svo dýr.

Á Sauðárkróki er félagsmálahús sem er opið öllum, ungum sem öldnum.

Ungmennaráð: Erfitt að fá ungmennin til að skuldbinda sig og erfitt að fá fullorðna fólkið til að taka mark á þeim.
Í Kraganum er þetta ein nefnd sem nær yfir stærra svæði.
Væri möguleiki að skipa sameiginlegt ungmennaráð með Akureyri?

Hvernig menningu vill unga fólkið?
Hvernig menningu vill unga fólkið eftir 20 ár?

Hægt væri að nota valgreinar sem stökkpall í samvinnuverkefni t.d. við Rósenborg