Fundargerð - 24. nóvember 2005

Fundur í skipulagsnefnd haldin fimmtudaginn 24. nóvember 2005 kl: 20:00 í Þelamerkurskóla. Mættir voru Hermann Harðarsson, Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, ásamt sveitarstjóra Helgu Erlingsdóttur.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir

 

1.  Umsókn frá nýjum eigendum í Fornhaga, þess hluta sem Ríkisjóður átti áður, og óska þeir eftir að fá að byggja íbúðarhús fyrir neðan minkaskálann.

 

2.  Erindi Guðmundar Hansen og Stefaníu Þorsteinsdóttur, sem frestað var á síðasta fundi, um byggingu íbúðarhúss í landi S-Brennihóls fyrir neðan þjóðveg 1.

 

3.  Grenndarkynningu lokið v/ Skógarhlíðar 12 og 14. Ein mótmæli hafa borist frá íbúum í Skógarhlíð 16 og eru þau eftirfarandi:

 "Skógarhlíð 10. nóvember 2005

Athugasemd við grenndarkynningu á fyrirhuguðum byggingum við Skógarhlíð 12 og 14.

1. Þegar undirrituð keyptu lóð við Skógarhlíð 16 var klárt á deiliskipulagi

2. Skipulagsskilmálar liður 3.9) að á lóðum 12, 14 og 16 yrði byggð einbýlishús á einni og hálfri hæð. Þetta er ein aðalástæðan fyrir því að við keyptum lóðina við Skógarhlíð 16 og byggðum okkur hús þar.  Töldum okkur vera að flytja í rólegt einbýlishúsahverfi í "sveitinni".

3. Með svona fjölbýlishúsum fylgir mikil umferð og fjöldi bíla.  Þetta þýðir að vegkantar verða notaðir sem bílastæði, (þó svo ætlunin sé ekki sú) sem skapar mikla hættu þar sem gatan er þarna í sveig og vont að sjá t.d. lítil börn. Nú þegar er komið gott dæmi um þetta fyrir utan Skógarhlíð 10, þar sem meðal annars sá sem sækir um þessar lóðir leggur alltaf í vegkantinn og skerðir útsýni fyrir bila sem leið eiga um.

4. Húsið með íbúðirnar þrjár við númer 10 var ekki byggt sem þriggja íbúða hús þó því hafi verið breytt eftir á, á það ekki að vera eitthvert fordæmi fyrir þessum byggingum heldur ætti að virka, þess þá heldur sem fordæmi hvernig ekki á að gera.

5. Undirrituð fagna því að byggt verði á lóðum 12 og 14 en telja að þó það sé girnilegt fyrir sveitarfélagið að fá sem flesta útsvarsgreiðendur, sé óþarfi að troða þarna fjölbýlishúsum. Það væri illa farið með góðar lóðir.

6. Ef þetta verður raunin hvað verður þá næst, fjögurra hæða blokk fyrir neðan okkur???

Þess vegna samþykkjum við ekki þessa grenndarkynningu.“

 

Skipulagnefnd hefur fyrir sitt leyti samþykkt að í Skógarhlíð 14 og 16 verði byggð þríbýlishús. Helstu rökin fyrir því að leyfa þennan fjölda íbúða í hvoru húsi fyrir sig eru þau helst að þarna eru sérstaklega djúpir grunnar sem ekki mun vera byggt á nema stór hús af hagkvæmnissjónarmiðum, vegna mikils kostnaðar við grunnanna. Aldrei áður hafði borist umsókn í lóðir nr. 12 og 14 við Skógarhlíð þar sem vitað var að þarna var mesta dýptin niður á fast umfram aðrar lóðir við Skógarhlíð.

Því var það þó nokkuð fagnaðarefni og akkur fyrir sveitarfélagið þegar umsókn barst í nefndar lóðir. Þegar teikningar voru lagðar fram, var farið fram á það við skipulagsnefnd og sveitarstjórn að skipulagi svæðisins væri breytt og að gefið yrði leyfi fyrir bygginu tveggja þríbýlishúsa. Var það auðsótt mál þar sem að lóðaskortur er í sveitarfélaginu og var talið að öllum íbúum ásamt sveitarstjórn væri það mikið hagsmunamál að þarna yrðu byggðar svona margar íbúðir svo hægt væri að mæta eitthvað þeirri eftirspurn sem er eftir landi til íbúðabygginga, því ljóst er að margir vilja flytjast hingað í Hörgárbyggð.  

Á framlögðum teikningum er gert ráð fyrir sex bílastæðum fyrir hús nr. 14  og sjö bílastæðum fyrir hús nr. 12 það þýðir a.m.k. tvö bílastæði fyrir hverja íbúð. Ráðgert er að húsin standi nær útjaðri lóðamarka að austan og vilyrði liggur fyrir því frá hendi sveitarstjórnar að lóðirnar nái upp að götu og skapast því þar aukið rými fyrir bifreiðar sem mætt geta aukinni bílaeign sem hlýst af fleiri íbúðum. 

Hvað varðar mótmæli íbúðareigenda í Skógarhlíð 16, gegn því að þrjár íbúðir verði í hvoru húsi, telur skipulagsnefnd að ekki hafi komið fram nein þau rök eða rökstuðningur máli þeirra til stuðnings, sem breytt geti þeirri ákvörðun skipulagsnefndar að standa við fyrri ákvörðun sína um að á lóðum nr. 12 og 14 við Skógarhlíð verði byggð þríbýlishús.

 

Skipulagsnefnd leggur því til við sveitarstjórn að hún standi við þau áform að byggð verði þríbýlishús á lóðum nr. 12 og 14 við Skógarhlíð og leggur á það áherslu að málinu verði vísað til Skipulagsstofnunar til umsagnar sem fyrst.