Fundargerð - 23. október 2012

Þriðjudaginn 23. október 2012 kl. 20:00 kom menningar- og tómstundanefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru: Árni Arnsteinsson, Bernharð Arnarson, Gústav G. Bollason, Hanna Rósa Sveinsdóttir og Jósavin H. Arason. Auk þess voru á fundinum Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi, og Lárus Orri Sigurðsson, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar, auk Guðmundar Sigvaldasonar, sveitarstjóra, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Vatnsskemmdir í íþróttasal

Gerð var grein fyrir skemmdum sem urðu á gólfi íþróttasalar Íþróttamiðstöðvarinnar aðfaranótt 6. október 2012 þegar vatnsrör í áhaldageymslu sprakk og þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til lagfæringar á gólfinu. Rætt um hvenær hægt verði að nota íþróttasalinn og hvernig fullnaðarlagfæringu gólfsins verði háttað.

 

2. Fjárhagsrammi 2013

Gerð grein fyrir þeim fjárhagsramma sem nefndinni ber að vinna með vegna fjarhagsáætlunargerðar fyrir árið 2013, sbr. 9. gr. erindisbréfs nefndarinnar. Fjárhagsramminn er 80 millj. kr. Farið var yfir þau viðfangsefni sem heyra undir nefndina og lögð drög að áætlun um heildarfjárhæð fyrir hvert þeirra.

 

3. Verksmiðjan Hjalteyri, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 1. október 2012, frá Verksmiðjunni á Hjalteyri, þar sem óskað er eftir viðbótarstyrk frá sveitarfélaginu, að fjárhæð kr. 210.000 til að greiða húsaleigu og orku fyrir sýningarhúsnæðið sem félagið sem hefur yfir að ráða. Menningar- og tómstundanefnd lagði til á fundi sínum 13. apríl 2012 að félaginu yrði veittur styrkur að fjárhæð 450.000 kr.

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði orðið við erindinu að svo svo komnu máli. Jafnframt telur nefndin eðlilegt að viðræður fari fram milli sveitarfélagsins og Verksmiðjunnar um gerð styrktarsamnings.

Gústav G. Bollason vék af fundinum undir þessum lið.

 

4. Heimaslóð, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 3. október 2012, frá ritnefnd Heimaslóðar, þar sem óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 320.000 fyrir útgáfu næsta heftis ritsins sem áætlað er að verði í lok ársins 2013. Jafnframt er í bréfinu óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

· Telur sveitarstjórn að rétt að gefa ritið út áfram?

·  Er hún á því að reyna mætti að gefa það út árlega og nefna það „Árbók Hörgársveitar“?

·  Getur sveitarstjórn tekið eldri árganga ritsins í sínu svörslu?

Menningar- og tómstundanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að orðið við erindi Heimaslóðar. Jafnframt telur nefndin eðlilegt að tilgreindum spurningum um ritið verði svarað játandi.

 

5. Íbúafundur um menningar- og tómstundamál

Rætt um fyrirkomulag á íbúafundi um menningar- og tómstundamál sem haldinn verður 3. nóvember 2012, sbr. samþykkt nefndarinnar 3. september 2012.

 

6. Félagsstarf aldraðra

Rætt um hvernig sveitarfélagið getur stutt það félagsstarf aldraðra sem Kvenfélag Hörgdæla hefur haft forgöngu um að koma á fót.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 23:25.