Fundargerð - 22. september 2010

Miðvikudaginn 22. september 2010 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Sveitarstjórn kaus á fundi sínum 30. júní 2010 eftirtalda í skipulags- og umhverfis-nefnd á yfirstandandi kjörtímabili:

Hanna Rósa Sveinsdóttir, formaður, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal.

 

Fundarmenn voru ofantaldir fulltrúar í nefndinni og auk þess Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Lónsbakki, deiliskipulag

Á fundinn kom Árni Ólafsson, arkitekt, sem undirbúið hefur gerð deiliskipulags fyrir Lónsbakka, til að fara yfir stöðu málsins og næstu skref í því.

 

2. Erindisbréf nefndarinnar, umræða

Lagt fram erindisbréf nefndarinnar, sem sveitarstjórn afgreiddi á fundi sínum 15. september 2010.

 

3. Staðartunga, tillaga að deiliskipulagi

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna nýs íbúðarhúss í Staðartungu. Tillagan var auglýst skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. samþykkt skipulags- og umhverfsnefndar Hörgárbyggðar 11. maí 2010 og staðfestingu sveitarstjórnar Hörgárbyggðar 19. maí 2010, 6. liður. Athugasemdafrestur rann út 7. júlí 2010. Engin athugasemd barst.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.

 

4. Sílastaðir 2, tillaga að deiliskipulagi

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna ferðaþjónustuhúsa að Sílastöðum 2 eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur og Guðmund H. Gunnarsson, sem er dagsett 29. júlí 2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi vegna ferðaþjónustuhúsa að Sílastöðum 2 verði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998.

 

5. Aðalskipulag Hörgárbyggðar, breyting

Gerð grein fyrir tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hörgárbyggðar, sem lýtur að breyttri legu Blöndulínu 3 að hluta, breyttri legu Hörgárdalsvegar að hluta og lítillegri stækkun verslunarsvæðis við Lónsá. Tillagan var auglýst 1. júní 2010 með athugasemdafresti til 16. júlí 2010. Athugasemdir bárust frá nokkrum aðilum um breytta legu Blöndulínu 3. Umsagnir hafa borist frá fjórum umsagnaraðilum af sex.

Samþykkt var að fresta afgreiðslu breytingartillögunnar þar til fleiri umsagnir hafa borist.

 

6. Aðalskipulag Arnarneshrepps, breyting

Gerð grein fyrir tillögu að breytingu á aðalskipulagi Arnarneshrepps, sem lýtur að því að svæði fyrir stóriðnað, sem kennt er við Dysnes, verði minnkað og skilgreiningu þess breytt. Tillagan var auglýst 9. júní 2010 með athugasemdafresti til 22. júlí 2010. Athugasemd barst frá einum aðila. Umsagnir hafa borist frá fimm umsagnaraðilum af sjö.

Samþykkt var að fresta afgreiðslu breytingartillögunnar þar til fleiri umsagnir hafa borist.

 

7. Dysnes, deiliskipulag

Lagt fram tölvubréf, dags. 20. september 2010, frá Hafnasamlagi Norðurlands bs. þar sem gerð er grein fyrir því að samlagið hafi áhuga á að láta vinna deiliskipulagstillögu á hluta svæðis, kennt við Dysnes, sem í gildandi aðalskipulagi er afmarkað sem svæði fyrir stóriðnað, en skv. tillögu að breyttu aðalskipulagi er skilgreint sem athafna-, iðnaðar- og hafnarsvæði.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur fyrir sitt leyti jákvætt undir framkomna fyrirætlun um gerð deiliskipulags á Dysnessvæðinu.

 

8. Hjalteyri, sjóvarnagarður

Lögð fram yfirlitsmynd um fyrirhugaðan sjóvarnargarð, sem Siglingastofnun hyggst gera á Hjalteyri. Um er að ræða 388 m langan garð, frá enda sjóvarnargarðs austan á eyrinni og vestur á móts við Péturshús.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að mæla með því að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir sjóvarnargarði á Hjalteyri um leið og hún bendir á að gera þurfi ráð fyrir góðu aðgengi að fjörunni, m.a til til að koma bátum að og frá.

 

9. Aðalskipulag Akureyrar, breyting

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar, sem fellst í því að afmarkað er 24,5 ha svæði fyrir frístundabyggð, verslun og þjónustu í landi Hlíðarenda, og 1,8 ha athafna- og íbúðarsvæði á Hlíðarenda.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að af hálfu Hörgársveitar verði ekki verði gerð athugasemd við tillöguna.

 

10. Ársfundur Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga

Lagt fram bréf, dags. 15. september 2010, þar sem boðað er til ársfundar Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga í Borgarnesi 29. október 2010.

Nefndin hvetur til þess að tekið verði þátt í fundinum að hálfu sveitarfélagsins.

 

11. Sorphirða, fyrirkomulag

Í gildi eru samningar við þrjá aðila um sorphirðu í sveitarfélaginu. Um Hörgárbyggðarhlutann sér Gámaþjónusta Norðurlands ehf. og í Arnarneshreppshlutanum sjá Þorlákur Aðalsteinsson og Íslenska gámafélagið ehf. um sorphirðuna.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skoðað verði að nýlegur samningur Hörgárbyggðar við Gámaþjónustu Norðurlands um sorphirðu verði útvikkaður þannig að hann gildi í öllu sveitarfélaginu.

 

12. Skógrækt á Ósi

Sveitarstjórn vísaði á fundi sínum 30. júní 2010 til nefndarinnar erindi um að framhaldið verði trjáplöntun á Ósi, sem þar hófst árið 2002.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að vísa erindinu til vinnu við aðalskipulag fyrir sveitarfélagið.

 

13. Rotþróamál, reglur og gjaldskrá

Sveitarstjórn vísaði á fundi sínum 30. júní 2010 til nefndarinnar að móta samræmdar reglur og gjaldskrá um rotþróamál í sveitarfélaginu.

Lagt var fram minnisblað um málið.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.

 

 

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 23:25.