Fundargerð - 22. júní 2011

Miðvikudaginn 22. júní 2011 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Kjör oddvita og varaoddvita

Hanna Rósa Sveinsdóttir var kosin oddviti og Axel Grettisson var kosinn varaoddviti til eins árs.

 

2. Fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulag, 4. apríl 2011

Fundargerðin er í þremur liðum.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 7. júní 2011

Fundargerðin er í átta liðum.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Búðagata, Hjalteyri, framkvæmdir

Lögð fram niðurstaða útboðs og drög að samningi vegna framkvæmda við Búðagötu á Hjalteyri, sbr. fundargerð síðasta fundar sveitarstjórnar (10. liður). Tilboð bárust frá Finni ehf. (9.675.000 kr.), GV-Gröfum ehf. (11.854.250 kr.) og G. Hjálmarssyni hf. (18.450.000 kr.)

Sveitarstjórn samþykkti að gerður verði verksamningur um verkið við lægstbjóðanda.

 

5. Stofnun þjónustustöðvar, ráðning starfsmanns

Lagður fram listi yfir umsækjandur um starf starfsmanns þjónustustöðvar, sbr. fundargerð síðasta fundar sveitarstjórnar (12. liður). Alls sóttu 16 manns um starfið.

Sveitarstjórn samþykkti að Jón Þór Brynjarsson verði ráðinn í starfið.

 

6. Berghóll II, ráðstöfun íbúða

Rætt um fyrirkomulag á útleigu tveggja íbúða á Berghóli II.

Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að annast útleigu á íbúðunum í samræmi við umræður á fundinum.

 

7. Tæming rotþróa, verklag

Lögð fram tillaga um verklag við tæmingu rotþróa í sveitarfélaginu. Skv. því er gert ráð fyrir að sveitarfélaginu verði skipt í þrjú “tæmingarsvæði”, sem hér segir: svæði 1: Galmaströnd og Hjalteyri, svæði 2: Þelamörk og Kræklingahlíð og svæði 3: Öxnadalur og Hörgárdalur. Gert er ráð fyrir að á árinu 2011 verði tæmdar rotþrær á svæði 1.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að verklagi við tæmingu rotþróa í sveitarfélaginu.

 

8. Tónlistarskóli Eyjafjarðar, ársskýrsla 2010-2011 og innritun haustannar 2011

Lögð fram ársskýrsla Tónlistarskóla Eyjafjarðar fyrir skólaárið 2010-2011 og yfirlit yfir innritun nemenda úr Hörgársveit á haustönn 2011.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd við fyrirliggjandi innritun nemenda í Hörgársveit í Tónlistarskóla Eyjafjarðar á haustönn 2011.

 

9. Byggingafulltrúaembætti, samstarfssamningur

Lögð fram ný drög að samningi um rekstur byggingarfulltrúaembættisins. Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 16. febrúar 2011 (9. liður) fyrir sitt leyti drög að samningi sem þá lágu fyrir.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti fyrirliggjandi drög að samningi um rekstur byggingafulltrúaembættis fyrir Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhrepp.

 

10. Metan úr héraði ehf., stuðningsyfirlýsing

Lagt fram tölvubréf, dags. 17. maí 2011, frá Metani úr héraði ehf., þar sem óskað er eftir stuðningsyfirlýsingu við verkefnið “Metan úr héraði”.

Sveitarstjórn fagnar nýjum atvinnuskapandi hugmyndum, en telur sér ekki fært að taka efnislega afstöðu til verkefnisins ”Metan úr héraði” þar sem rekstraráætlanir þess liggja ekki fyrir.

 

11. Skútar, framkvæmdaleyfi fyrir veg og geymslusvæði

Lagt fram tölvubréf, dags. 9. júní 2011, frá Margréti A.R. Konráðsdóttur, þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir gerð vegar og geymslusvæðis á jörðinni Skútum.

Sveitarstjórn samþykkti að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir gerð vegar og geymslusvæðis á jörðinni Skútum með þeim skilmálum sem eru í deiliskipulagi svæðisins.

 

12. Skútar, um kvaðir vegna Þórustaðaréttar

Lagt fram tölvubréf, dags. 9. júní 2011, frá Margréti A.R. Konráðsdóttur, þar sem gerð er grein fyrir þeim skilningi landeiganda á Skútum að kvaðir skv. deiliskipulagi um sleppingu og rekstur búfjár að og frá Þórustaðarétt feli ekki í sér að hann beri allan kostnað vegna þeirra.

Sveitarstjórn samþykkti að viðræður fari fram við eigendur landsins, sem Þórustaðarétt stendur á, um fyrirkomulag á rekstri búfjár að réttinni og frá.

 

13. Ós, ósk um viðræður um kaup á landspildu

Lagt fram tölvubréf, dags. 20. júní 2011, frá Sunnu Jóhannesdóttur og Hjörvari Kristjánssyni, þar sem óskað er eftir viðræðum um kaup á 5 hektara landi úr landi Óss.

Sveitarstjórn samþykkti að verða við erindinu og jafnframt að hafinn verði undirbúningur að sölu á öðrum hluta af sveitarfélagshluta jarðarinnar, þó ekki á þeim hluta sem er skilgreint er sem náttúruverndarsvæði á aðalskipulagi.

Sunna Jóhannesdóttir vék af fundinum undir þessum dagskrárlið.

 

14. Hraun í Öxnadal ehf., styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 20. júní 2011, frá Hrauni í Öxnadal ehf., þar sem óskað er eftir að sveitarfélagið sjá til að þess að minningarstofurnar á Hrauni verði opnar um helgar í júlí-mánuði.

Sveitarstjórn samþykkti að stuðla að því að sjálfboðaliðar fáist í verkefnið.

 

15. Bændur græða landið, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 19. maí 2011, frá Landgræðslu ríkisins, þar sem óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 35.000 til verkefnisins “Bændur græða landið”.

Sveitarstjórn samþykkti að veita Landgræðslunni styrk að fjárhæð kr. 25.000 til verkefnisins “Bændur græða landið”.

 

16. Skólahreysti, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. í maí 2011, frá Icefitness ehf., þar sem óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 50.000 til að standa straum að kostnaði við Skólahreysti.

Sveitarstjórn samþykkti að veita Icefitness ehf. styrk að fjárhæð kr. 50.000.

 

17. Greið leið ehf., aðalfundarboð

Lagt fram bréf, dags. 8. júní 2011, frá Greiðri leið ehf., þar sem aðalfundur félagsins er boðaður. Aðalfundurinn verður 30. júní 2011.

Sveitarstjórn samþykkti að Guðmundur Sigvaldason fari með umboð Hörgársveitar á aðalfundi Greiðrar leiðar ehf. 2011.

 

18. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, stuðningur sveitarfélaga við íþróttastarf

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 12. maí 2011, frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, þar sem gerð er grein fyrir ályktun 70. Íþróttaþings ÍSÍ um stuðning sveitarfélaga við íþróttastarf í landinu.

 

19. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 23:20.