Fundargerð - 21. september 2006

Fimmtudaginn 21. september 2006 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til síns 2. fundar. Fundurinn var haldinn í Þelamerkurskóla.

Á fundinn komu Oddur Gunnarsson, formaður, Aðalheiður Eiríksdóttir og Birna Jóhannesdóttir úr nefndinni, ásamt sveitarstjórnarfulltrúunum Árna Arnsteinssyni, Guðnýju Fjólu Árnmarsdóttur, Helga Bjarna Steinssyni og Jóhönnu Maríu Oddsdóttur. Þá voru á fundinum Yngvi Þór Loftsson, skipulagsráðgjafi aðalskipulags, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

 

1.  Gáseyri, deiliskipulag

Lögð fram breytt deiliskipulagstillaga fyrir minjasvæðið á Gáseyri. Breytingar frá upphaflegri deiliskipulagstillögu eru í samræmi við samþykkt skipulags- og umhverfisnefnd frá 6. september 2006, þ.e. ekki er gert ráð fyrir lokun núverandi vegar frá deiliskipulagsmörkum að tilgátusvæði og að tilgreind er væntanleg lega vegar frá bílastæði við tilgátusvæði að sandnáminu á eyrinni. Breytingarnar eru gerðar skv. innsendum athugasemdum frá landeigendum.

Að loknum umræðum um deiliskipulagstillöguna var hún samþykkt og henni vísað til sveitarstjórnar.

 

2. Aðalskipulag

Yngvi Þór Loftsson, skipulagsráðgjafi aðalskipulags sveitarfélagsins, greindi frá stöðu aðalskipulagsvinnunnar. Fram kom að unnin hefur verið tillaga að svæðisskiptingu sveitarfélagsins með tilliti til núverandi og væntanlegrar landnýtingar. Þá var gerð grein fyrir athugunum á mögulegri þróun þéttbýlis á Skógarhlíðarsvæðinu og annars staðar í sveitarfélaginu. Loks var skýrt frá fundi sem haldinn hefur verið með fulltrúum Akureyrarbæjar um samvinnu í skipulagsmálum á sveitarfélagamörkunum.

Að loknum umræðum um það sem fram kom á fundinum var skipulagsráðgjafanum falið að fullmóta tillögur um valkosti fyrir þróun þéttbýliskjarna og fullgera þemakort sem skýra einstaka þætti aðalskipulagsins. Nefndin samþykkti að stefna að því að heildstæð aðalskipulagstillaga fyrir sveitarfélagið ásamt greinargerð og umhverfismati hennar liggi fyrir til kynningar í byrjun næsta árs.

 

Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 21:45