Fundargerð - 21. júní 2009

Sunnudagskvöldið 21. júní 2009 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka. Mættir eru: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson, Stefán L Karlsson.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1.      Fjallskilastjóri lagði fram til kynningar og umræðu, tvö tölvubréf frá Hörgárbyggð undirrituð af Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra. Það fyrra er dagsett 12. janúar 2009, þar tilkynnist að við gerð fjárhagsáætlunar Hörgárbyggðar fyrir árið 2009, sé einungis gert ráð fyrir 4 fundum fjallskilanefndar á árinu og mælst er til að nefndin reyni að halda sig innan þess ramma. Síðara bréfið er dagsett 16. apríl 2009, þar er greint frá áliti milliþinganefndar búnaðarþings um fjallskil og fylgdi afrit af álitinu.

 

2.      Umfjöllun um efni bréfanna. Varðandi fyrra bréfið upplýsti fjallskilastjóri, að hann hefði ákveðið að hætta við fyrirhugaðan fund, sem getið var um í fundargerð 5. fundar fjallskilanefndar 2008, 4. lið, til að nefndin geti haldið sig innan fjárhagsáætlunar. Hvað varðar álit milliþinganefndar búnaðarþings finnst fjallskilanefnd þar ýmislegt koma fram sem til bóta gæti horft, enda margt sem þar er lagt til mjög í anda þeirra reglna sem fjallskilanefndin setti sér og hefur unnið eftir undanfarin ár. Nefndin telur því mjög brýnt að hafin verði sem allra fyrst vinna við endurskoðun fjallskilasamþykktar fyrir Eyjafjarðarsvæðið.

 

3.      Tímasetning gangna haustið 2009 rædd. Ákveðið var að höfðu samráði við fjallskilastjóra nágrannasveitarfélaga að flýta göngum í Hörgárbyggð um eina viku, frá þeim tíma sem mælt er fyrir um í fjallskilasamþykkt. Fyrstu göngur verða því í Hörgárbyggð, frá miðvikudeginum 9. september til sunnudagsins 13. september. Aðrar göngur verða svo viku síðar.

 

4.      Rætt um viðhald fjárrétta sveitarfélagsins. Þörf er orðin fyrir að fúaverja Þverárrétt, sem ekki hefur verið fúavarin frá endurbyggingu árið 2000, einnig þarf að eyða gróðri í réttinni. Aðalsteini falið að kanna möguleika á þessu hjá sveitarstjóra. Viðhald annarra rétta fyrir haustið verði þannig að hægt verði að rétta í þeim.

 

Fleira ekki bókað, fundargerð undirrituð og fundi slitið kl. 23:35.