Fundargerð - 21. ágúst 2009

Föstudagskvöldið 21. ágúst 2009 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka. Mættir eru: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson, Stefán L Karlsson og Helgi Steinsson oddviti.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1. Borist hafa beiðnir frá eigendum sauðfjár á jörðunum: Árhvammi, Bitru og Bitrugerði, um að vera undanþegnir fjallskilum í haust, þar sem þeir hafi haft allt sitt sauðfé í fjárheldum girðingum sumarlangt. Fjallskilanefnd samþykkir beiðnirnar.

 

2. Borist hefur erindi frá Jósavin Gunnarssyni fjallskilastjóra í Arnarneshreppi, með bréfi dagsettu 10. ágúst 2009 þar sem farið er fram á að gangnamönnum úr Hörgárbyggð verði fjölgað úr 2 í 4 í fyrstu göngum á Illagils- og Lambárdal, sem eru þverdalir Þorvaldsdals. Fjallskilanefnd Hörgárbyggðar sér ekki rök fyrir fjölgun gangnamanna á umrædda dali og telur að samkomulag milli Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps um mönnun gangnasvæðisins frá 2006 skuli standa óbreytt áfram.

 

3. Farið var yfir niðurröðun gangnadagsverka sem fjallskilastjóri var búinn að forvinna og gerðar smávægilegar breytingar. Heildarfjöldi gangnadagsverka í Hörgárbyggð er 392. Fjárfjöldi sem dagsverkum er jafnað niður á í sveitarfélaginu eru 5.261 kind og hefur þeim fjölgað um 114 kindur frá 2008. 74 kindur koma ekki til útreiknings fjallskila þar sem þær voru innan girðingar, samanber 1. lið fundargerðarinnar. Að jafnaði eru flestar kindur í dagsverki í Glæsibæjardeild 23,7 í Öxnadalsdeild eru þær 15,6 og fæstar eru þær í Skriðudeild 13,5 kindur. Á einstökum gangnasvæðum eru flestar kindur í dagsverki í Laugalandsheiði og Hlíðarfjalli 26,7 en fæstar á Myrkárdal 11,1 kind. Af sömu ástæðu og haustið 2008 eru nú engin fjallskil lögð á landverð jarða. Gengið frá fjallskilaboðum fyrir hverja fjallskiladeild Hörgárbyggðar. Fjallskilaboð verða send sauðfjáreigendum og þau munu líka verða aðgengileg á heimasíðu Hörgárbyggðar.

 

4. Rætt var um flutning úrtínings á komandi hausti. Ákveðið að hafa hann með sama sniði og haustið 2008 það er að dregið skuli upp á hverri auka- og heimarétt í sveitarfélaginu og ber réttarstjórum að tilkynna um aðkomufé til eiganda innan Hörgárbyggðar, sem ber þá að sækja sitt fé. Sé um utansveitarfé að ræða skal tilkynna það til eiganda eða fjallskilastjóra viðkomandi fjallskiladeildar í Hörgárbyggð. Sami háttur verður hafður á er varðar fé úr Hörgárbyggð, sem kemur fyrir í skilaréttum í nágrannasveitarfélögum og undanfarin ár, kostnaður við það verður greiddur úr sveitarsjóði.

 

5. Ákveðið að senda út með fjallskilaboði líkt og undanfarin ár aðvörun er varðar búfjársjúkdóma, sem hljóði svo: Fjallskilanefnd minnir á, að enn er full þörf fyrir að vera á varðbergi gagnvart riðusmiti svo og öðrum sauðfjársjúkdómum og hafa beri fulla aðgæslu með alla flutninga á búfé, heyi, landbúnaðartækjum og öðru því, sem smit gæti borist með. Leita ætti álits og samþykkis Héraðsdýralæknis, ef menn hafa hug á að kaupa sauðfé úr öðrum sveitarfélögum.

 

Fleira ekki bókað, fundargerð undirrituð og fundi slitið kl. 23:10.