Fundargerð - 20. september 2006

Miðvikudaginn 20. september 2006 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 5. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Gásaverkefnið, stjórnsýsla

Á fundi sveitarstjórnar 5. sept. 2006 var tekið fyrir bréf Héraðsnefndar, dags. 1. sept. 2006, þar sem óskað er eftir því að Hörgárbyggð taki að sér þá stjórnsýslu Gásaverkefnisins sem Héraðsnefndin hefur haft með höndum á undanförnum árum. Á fundinn komu Guðrún M. Kristinsdóttir, safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri, og Kristín Sóley Björnsdóttir, starfsmaður Gásaverkefnisins, kynntu verkefnið og svöruðu fyrirspurnum.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir að taka að sér stjórnsýslu Gásaverkefnisins  á meðan framtíðarfyrirkomulag þess er þróað, að því tilskildu að samstarf takist við Minjasafnið á Akureyri, Fornleifavernd  ríkisins og nágrannasveitarfélögin um framkvæmd og fjármögnun verkefnisins. Sveitarstjóra falið að vinna að framgangi málsins.

 

2. Gistiþjónusta, álagning fasteignaskatts

Ábendingar hafa komið frá rekstraraðilum gistihúsnæðis um að álagningin sé í einhverjum tilvikum hærri en hjá nágrannasveitarfélögunum.  Lagt var fram minnisblað um álagningu fasteignaskatts á gistihúsnæði í sveitarfélaginu.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar telur ekki ástæðu til að breyta álagningarhlutfalli fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í sveitarfélaginu en bendir á að í þremur af fimm nágrannasveitarfélögum sé hlutfallið hærra en í Hörgárbyggð. Komi fram upplýsingar um að þjónusta sveitarfélagsins við rekstraraðila  gistihúsnæðis sé lakari en almennt gerist, verða þær teknar til athugunar.

 

3. Þelamerkurskóli, þjónustusamningur um launavinnslu og bókhald

Lögð voru fram drög að þjónustusamningi við Þelamerkurskóla um launavinnslu og bókhald. Drögin eru nánast samhljóða þeim þjónustusamningi sem Arnarneshreppur sagði upp á síðasta ári og féll úr gildi um síðastliðin áramót.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir fyrirliggjandi drög að þjónustusamningi við Þelamerkurskóla um launavinnslu og bókhald.

 

4. Þelamerkurskóli, samningur vegna bókasafnskerfis

Lögð voru fram drög að samningi við Þelamerkurskóla vegna bókasafnskerfis. Drögin eru gerð skv. samþykkt sveitarstjórn frá 5. sept. sl. (sjá 22. lið) um aðgang að sérfræðiþjónustu vegna bókasafnskerfis, sem heitir Gegnir.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir fyrirliggjandi drög að samningi við Þelamerkurskóla vegna bókasafnskerfis.

 

5. Álfasteinn, föst afleysingaráðning

Leikskólastjóri hefur óskað eftir að ráðin verði fastur afleysingastarfsmaður í hálft starf í leikskólanum. Lagt var fram minnisblað um málinu, þar sem m.a. kemur fram að ekki er gert ráð fyrir að kostnaðarauki verði af slíkri ráðningu, þar sem yfirvinna vegna veikinda, orlofs o.þ.h. mundi minnka verulega í staðinn.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkir að ráðinn verði fastur afleysingastarfsmaður í hálft starf á Álfasteini.

 

6. Menntasmiðjan á Akureyri, þátttaka í kostnaði

Lagt fram bréf frá Menntasmiðjunni á Akureyri, dags. 11. sept. 2006, þar sem óskað er eftir framlagi vegna nemanda úr sveitarfélaginu, sem þar stundar nám á yfirstandandi önn.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir að veita Menntasmiðju á Akureyri framlag að upphæð kr. 50.000 vegna haustannar 2006.

 

7. Byggðarmerki fyrir sveitarfélagið

Í Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð er m.a. gert ráð fyrir að á þessu ári verði sett upp  skilti á hreppamörkum með áletruninni „Velkomin í Hörgárbyggð”.

Sveitarstjóra falið að vinna að málinu í samvinnu við Skipulags og umhverfisnefnd. Einnig var sveitarstjóra falið að láta útbúa götuskilti fyrir Birkihlíð.

 

8. Brim fiskeldi ehf., tillaga að starfsleyfi

Lagt fram bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 13. sept. 2006, ásamt tillögu að starfsleyfi fyrir 1.200 tonna eldi á þorski og ýsu við Baldurshaga á vegum Brims fiskeldis ehf.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við framkomna starfsleyfistillögu fyrir eldi á þorski og ýsu við Baldurshaga í Hörgárbyggð.

 

9. Erindisbréf skipulags- og umhverfisnefndar, drög

Lögð voru fram drög að erindisbréfi fyrir skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar. Það er byggð á erindisbréfi skipulagsnefndar sem sveitarstjórn afgreiddi 19. janúar 2005.

Sveitarstjórn samþykkti framlagt erindisbréf fyrir Skipulags og umhverfisnefnd.

 

10. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 6. sept. 2006

Fundargerðin er í þremur liðum. Fundargerðin var afgreidd án athugasemda.

 

11. Fundargerð byggingarnefndar 12. sept. 2006

Fundargerðin er í tíu liðum. Mál nr. 10 í fundargerðinni varðar Hörgárbyggð. Kristján Hermannsson sækir um leyfi fyrir geymsluskúr í Hallfríðarstaðakoti. Erindið var samþykkt. Fundargerðin var afgreidd án athugasemda.

 

12. Sorpmál

Sveitarstjóri lagði fram hugmyndir að fyrstu ráðstöfunum á framkvæmd svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2005-2020 að því er varðar Hörgárbyggð. Markmiðið með þeim er að sveitarfélagið uppfylli skyldur sínar skv. lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.

 

13. Frumathugun á sameiginlegri lausn á fráveitu

Lögð fram drög að samningi milli Hörgárbyggðar og Akureyrarbæjar um að leitað verði til VST hf. um að finna sameiginlega lausn á fráveitumálum fyrir Skógahlíðarsvæði hjá Hörgárbyggð og Grænhólsvæði hjá Akureyrarbæ.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti framlögð drög á athugun um fráveitumál milli Hörgárbyggðar og Akureyrarbæjar.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:30