Fundargerð - 20. nóvember 2014

Fimmtudaginn 20. nóvember 2014 kl. 15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir og Jón Þór Benediktsson.

 

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fundargerð heilbrigðisnefndar 1. október 2014

Fundargerðin er í fjórum liðum, auk afgreiðslu á þrettán umsóknum um starfsleyfi og umsagnar um skipulagstillögu. Enginn þessar liða varðar Hörgársveit með beinum hætti, nema fjárhagsáætlun heilbrigðiseftirlitsins fyrir árið 2015. Skv. henni er gert ráð fyrir að framlag sveitarfélagsins til eftirlitsins verði 1,4 millj. kr. á árinu 2015.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra fyrir árið 2015. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

2. Fundargerð framkvæmdastjórnar byggingafulltrúaembættis 11. nóvember 2014

Fundargerðin er í tveimur liðum, um drög að samþykktum fyrir byggðasamlag um embætti skipulags- og byggingafulltrúa og um fundarboð stofnfundar byggðasamlagsins.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, umsagnarferli

Lagt fram tölvubréf, dags. 11. nóvember 2014, frá Ásrúnu Árnadóttir þar sem dregin er til baka tillaga, sem lögð var fram að síðasta fundi sveitarstjórnar um breyttan texta í kafla 3.4.8, um raforku, í fyrirliggjandi aðalskipulagstillögu. Einnig var lögð fram hugmynd að breyttum texta sama kafla, sem skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að verði í greinargerð tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins, sjá fundargerð nefndarinnar 12. nóvember 2014. Þar kemur ennfremur fram tillaga nefndarinnar um að Blöndulína 3 verði ekki sýnd á tillögu að aðalskipulagsuppdrætti.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að Blöndulína 3 verði ekki sýnd á tillögu að aðalskipulagsuppdrætti sveitarfélagsins og að kafli 3.4.8, um rafveitu, í fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulaginu verði breytt í samræmi við framlagða hugmynd þar um, með breytingum sem gerðar voru á henni á fundinum. Þá samþykkti sveitarstjórnin að aðalskipulagstillagan þannig breytt verði send lögboðnum umsagnaraðilum að nýju. Ennfremur samþykkti sveitarstjórnin að bréfum Þorsteins Rútssonar, f.h. landeigenda á línuleið Blöndulínu 3 í Hörgársveit, og Brynjólfs Snorrasonar um flutningsleiðir raforku í tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins verði svarað þannig, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að tekið hafi verið tillit til efnis þeirra í meðferð viðkomandi máls hjá skipulags- og umhverfisnefnd og sveitarstjórn.

Helgi Bjarni Steinsson vék af fundi undir þessum dagskrárlið, í stað hans sat María Albína Tryggvadóttir fundinn undir þessum lið. Einnig vék Ásrún Árnadóttir af fundinum undir þessum dagskrárlið, í stað hennar sat Þórður Ragnar Þórðarson fundinn undir þessum lið.

 

4. Lón, deiliskipulag vegna stækkunar sláturhúss

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Lón vegna stækkunar á sláturhúsi. Þær breytingar frá núverandi fyrirkomulagi, sem tillagan gerir ráð fyrir, eru breyting á heimreið og stækkun á byggingarreit sláturhúss.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi fyrir Lón vegna stækkunar á sláturhúsi verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga.

 

5. Hjalteyri, framkvæmdaleyfi fyrir sandfangara

Lagt fram tölvubréf, dags. 9. nóvember 2014, frá Hafnasamlagi Norðurlands þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir verkið „Færsla sandfangara“ á Hjalteyri. Hönnunarteikning verksins var einnig lögð fram.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir færslu sandfangara á Hjalteyri í samræmi við framlögð gögn.

 

6. Skriða, framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku

Lagt fram bréf og afstöðumynd, dags. 12. nóvember 2014, frá Hörgá sf. vegna fyrirhugaðrar efnistöku í landi Skriðu sunnan við Syðri-Tunguá. Um er að ræða samtals 1.000 – 1.500 m3 af efni á tveimur stöðum.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar, að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir allt að 1.500 m3 úr opinni námu sem tilgreind er í framlögðum gögnum. Sveitarstjórnin samþykkti að ekki verði heimilað að efnistaka verði hafin á óröskuðu svæði á meðan umhverfismat fyrir svæðið liggur ekki fyrir.

 

7. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 12. nóvember 2014

Fundargerðin er í sjö liðum. Fyrir utan tillögur nefndarinnar, sem fram koma í 3.-6. lið fundargerðarinnar, er í henni tillaga að reglum um útfærslu ákvæða byggingarreglugerðar um stöðuleyfi fyrir gáma og annað bráðabirgðahúsnæði. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og um stöðu skipulagsfulltrúa.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um reglur um útfærslu ákvæða byggingarreglugerðar um stöðuleyfi fyrir gáma og annað bráðabirgðahúsnæði, með þeim breytingum sem gerðar voru á þeim á fundinum. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

8. Fundargerð atvinnu- og menningarnefndar 17. nóvember 2014

Fundargerðin er í níu liðum. Þar eru átta tillögur til sveitarstjórnar, um gjaldskrár Íþróttamiðstöðvar og Hlíðarbæjar fyrir árið 2015, um breytingu á afgreiðslutíma Íþróttamiðstöðvar, um sundkort á árinu 2015, um verkefnið „Menningarmiðstöð að Möðruvöllum í Hörgárdal“, um beiðni Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) um rekstrarstyrk fyrir árið 2015, um beiðni UMSE um styrk vegna fundar í Þelamerkurskóla, um beiðni frá Hrauni í Öxnadal ehf. um styrktarsamning og um beiðni frá Amtmannssetrinu á Möðruvöllum ses. um styrktarsamning. Þá er í fundargerðinni fjallað um uppkast að fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 vegna þeirra málaflokka sem heyra undir nefndina. 

Sveitarstjórn samþykkti tillögur atvinnu- og menningarnefndar um gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar fyrir árið 2015, um gjaldskrá Hlíðarbæjar með breytingum sem gerðar voru á henni, um breytingu á afgreiðslutíma Íþróttamiðstöðvar, um verkefnið „Menningarmiðstöð að Möðruvöllum í Hörgárdal“, um beiðni UMSE um rekstrarstyrk fyrir árið 2015, um beiðni UMSE um styrk vegna fundar í Þelamerkurskóla og um beiðni frá Hrauni í Öxnadal ehf. um styrktarsamning. Sveitarstjórnin samþykkti ekki tilllögu nefndarinnar um sundkort, í stað þess samþykkti hún að á árinu 2015 eigi íbúar sveitarfélagsins kost á sundkorti án greiðslu, með svipuðum hætti og á árinu 2014. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

9. Álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2015

Rætt um álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2015.

Sveitarstjórn samþykkti að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2015 verði 14,52%.

 

10. Álagningarreglur fasteignagjalda 2015

Rætt um álagningarreglur fasteignagjalda fyrir árið 2015 og drög að afsláttarreglum fasteignaskatts vegna elli- og örorkulífeyrisþega.

Sveitarstjórn samþykkti að álagningarhlutfall fasteignagjalda fyrir árið 2015 skv. a-lið verði 0,40%, skv. b-lið 1,32% og skv. c-lið 1,40% af fasteignamati. Þá samþykkti sveitarstjórn að 2. gr. gjaldskrár fráveitna í Hörgársveit verði breytt þannig að holræsagjald Fráveitu Hjalteyrar verði 0,18% og ennfremur að vatnsgjald Vatnsveitu Hjalteyrar verði kr. 10.000 á hverja íbúð og hvert frístundahús, að sorphirðugjald heimila verði kr. 43.000, að sorphirðugjald frístundahúsa verði kr. 10.000, enda sé þjónusta þar ekki veitt á vetrum, og að sorphirðugjald vegna búrekstrar verði 82 kr. fyrir hverja sauðkind, 495 kr. fyrir hvern nautgrip, 352 kr. fyrir hvert hross og 328 kr. fyrir hvert svín. Framlögð drög að reglum um afslátt tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti voru samþykkt af sveitarstjórn. Þær gera ráð fyrir að efstu tekjumörk afsláttar fyrir einstaklinga verði kr. 3.825.000 og fyrir samskattaða kr 5.090.000.

 

11. Fjárhagsáætlun 2014, viðauki 03/2014

Lögð fram tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2014, sem hefur auðkennið 03/2014.

Sveitarstjórn samþykkti viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2014, sem hefur auðkennið 03/2014, og gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði neikvæð sem nemur 25.596 þús.kr.

 

12. Kennarar við Tónlistarskóla Eyjafjarðar, áskorun

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 20. október 2014, frá kennurum við Tónlistarskóla Eyjafjarðar, þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum yfir stöðu kjaraviðræðna félags tónlistarskólakennara og samninganefndar sveitarfélaga. Einnig lagt fram til kynningar minnisblað, dags. 11. nóvember 2014,  frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga um stöðu kjaraviðræðna samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags tónlistarskólakennara.

 

13. Ós, sala landspildu

Gerð var grein fyrir niðurstöðu útboðs á landspildu úr jörðinni Ós, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 20. október 2014. Þrjú tilboð komu í landspilduna.

Sveitarstjórn samþykkti að frestað verði að taka afstöðu til framkominn tilboða í landspildu úr landi Óss.

 

14. Starfsheitalisti

Lögð fram tillaga að lista yfir þau starfsheiti, sem gilda í rekstri sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti framlagðan lista yfir þau starfsheiti, sem gilda í rekstri sveitarfélagsins.

 

15. Kosning í skipulags- og umhverfisnefnd

Lagt fram bréf, dags. 12. nóvember 2014, frá Róbert Fanndal þar sem hann segir sig úr skipulags- og umhverfisnefnd.

Sveitarstjórn samþykkti að fresta til næsta fundar kosningu aðalmanns í skipulags- og umhverfisnefnd í stað Róberts Fanndal.

 

16. Moldhaugaháls, efnistaka

Lagt fram bréf, dags. 15. nóvember 2014, frá Sunnu Hlín Jóhannesdóttur um rusl á Moldhaugahálsi.

Sveitarstjórn samþykkti að Skútabergi ehf. verði gert að fjarlægja lausa hluti við afleggjara að efnistökusvæði á Moldhaugahálsi í síðasta lagi 1. desember 2014, sbr. 2. gr. samþykktar um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra.

 

17. Þorrablót 2015, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 9. nóvember 2014, frá þorrablótsnefnd, þar sem óskað er eftir styrk fyrir þorrablót Hörgársveitar 2015, sem nemur kostnaði við leigu á aðstöðu fyrir þorrablótið.

Sveitarstjórn samþykkti að þorrablót ársins 2015 verði styrkt um kr. 50.000.

 

18. Amtmannssetrið á Möðruvöllum ses.

Lagt fram tölvubréf, dags. 19. nóvember 2014, frá Amtmannssetrinu á Möðruvöllum ses. þar sem boðað er til fyrsta hluta aðalfundar félagsins 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að Jóhanna María Oddsdóttir fari með atkvæði sveitarfélagsins á aðalfundi Amtmannssetursins á Möðruvöllum ses. fyrir árið 2013.

 

19. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:50.