Fundargerð - 20. janúar 2010

Miðvikudaginn 20. janúar 2010 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 48. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðmundur Víkingsson, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir og Helgi Bjarni Steinsson, ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.             

 

1. Viðræður um sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar

Gerð var grein fyrir starfi samstarfsnefndar um sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar.

 

2. Þriggja ára áætlun 2011-2013, fyrri umræða

Lögð fram drög að þriggja ára áætlun sveitarsjóðs 2011-2013. Í þeim er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur þessi ár verði lítill, en að handbært fé aukist þó nokkuð, þar sem áfallnar afskriftir og verðbætur lána eru gjaldfærðar að fullu á viðkomandi árum en greiðslur vegna þeirra dreifast á lengri tíma.

Samþykkt var að vísa drögunum til síðari umræðu.

 

3. Fundargerð stjórnar búfjáreftirlits á svæði 18, 4. desember 2009

Fundargerðin er í sex liðum. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 var lögð fram og er hlutur Hörgárbyggðar kr. 577.147.

Fundargerðin rædd og afgreidd.

 

4. Fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulag, 14. desember 2009

Fundargerðin er í fjórum liðum. Fundargerðin rædd og afgreidd.

 

5. Fundargerðir byggingarnefndar, 15. desember 2009

Fyrri fundargerðin er í níu liðum, tveir þeirra varðar Hörgárbyggð, þ.e. liður 5 um dæluhús á lóð úr landi Skjaldarvík og liður 6 um tækjageymslu á lóð nr. 4 á Steðja.

Samþykkt var að grenndarkynning fari fram vegna tækjageymslunnar.

Síðari fundargerðin er í einum lið, hún varðar ekki Hörgárbyggð með beinum hætti.

Fundargerðirnar ræddar og afgreiddar.

 

6. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 13. janúar 2010

Fundargerðin er í fjórum liðum. Í fyrsta lið hennar er lagt til að Árni Ólafsson, arkitekt, verði ráðinn til að gera deiliskipulag fyrir þéttbýlið á Lónsbakka, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 18. nóvember 2009 (4. liður). Þar er einnig lagt til að aðalskipulagi svæðisins verði breytt þannig að allt land Lónsár verði skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði.

Lagt fram bréf Ásbjörns Valgeirssonar, sbr. 1. lið fundargerðarinnar, og bréf Náttúrustofu Vesturlands, sbr. 3. lið fundargerðarinnar.

Fundargerðin rædd og afgreidd.

 

7. Vetrarþjónusta á helmingamokstursvegum

Lagðar fram verklagsreglur sem borist hafa frá Vegagerðinni um framkvæmd vetrarþjónustu á helmingamokstursvegum í Hörgárbyggð veturinn 2009-2010. Þær gera ráð fyrir sams konar fyrirkomulagi og verið hefur undanfarin ár, nema að mokað verður allt að þrisvar í viku, í stað fimm sinnum, eins og verið hefur.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti framlagðar verklagsreglur um framkvæmd vetrarþjónustu á helmingamokstursvegum á þessum vetri.

 

8. Sameining almannavarnanefnda í Eyjafirði

Lagt fram bréf, dags. 15. janúar 2010, frá Almannavörnum Eyjafjarðar um sameiningu almannavarnanefnda Eyjafjarðar og Fjallabyggðar.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að almannavarnanefnd Eyjafjarðar og almannavarnanefnd Fjallabyggðar verði sameinaðar.

 

9. Samkeppniseftirlitið, skipulag og lóðaúthlutanir

Lagt fram bréf, dags. 16. desember 2009, frá Samkeppniseftirlitinu, þar sem gerð er ítarleg grein fyrir áliti eftirlitsins um skipulag, lóðaúthlutanir og samkeppni í því sambandi.

Til kynningar.

 

10. Samkeppniseftirlitið, opinber útboð, samkeppni og samkeppnishindranir

Lagt fram bréf, dags. 23. desember 2009, frá Samkeppniseftirlitinu, þar sem greint er frá áliti eftirlitsins um opinber útboð, samkeppni og samkeppnishindranir.

Til kynningar.

 

11. Umboðsmaður barna, niðurskurður á þjónustu við börn

Lagt fram bréf, dags. 12. janúar 2010, frá Umboðsmanni barna, þar sem gerð er grein fyrir því að ekki er heimilt að skerða lögbundna þjónustu við börn.

Til kynningar.

 

12. Klúbburinn Geysir, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 15. desember 2009, frá Klúbbnum Geysi, þar sem óskað er eftir framlagi að fjárhæð kr. 30.000.

Erindinu er hafnað.

 

13. Styrkbeiðni frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga vegna hjálparstarfs á Haíti

Samþykkt að styrkja hjálparstarfið sem svarar til kr. 100 á hvern íbúa sveitarfélagsins.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 21:50