Fundargerð - 18. maí 2005

Miðvikudaginn 18. maí 2005 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 67. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Ásrún Árnadóttir, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

 1.  Reikningar sveitarfélagsins, Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar.  Þar kemur fram að skatttekjur á hvern íbúa voru kr. 306.000, þjónustu- og aðrar tekjur kr. 40.000, eignir kr. 428.000, eigið fé kr. 331.000 og skuld kr. 97.000. Niðurstaða rekstrarársins A og B hluta er eftirfarandi:  Heildartekjur sveitarsjóðs kr. 135.069.000, rekstrargjöld kr. 132.025.000 og fjármuna og fjármagnstekjur kr. – 869.000. Rekstarniðurstaðan var því jákvæð um kr. 2.175.000.

Framlag til rekstrar Þelamerkurskóla frá Hörgárbyggð var kr. 55.453.143 og frá Arnarneshreppi kr. 31.333.974 eða samtals framlag kr. 86.787.117.

Tekjur Íþróttamiðstöðvarinnar voru kr. 15.945.520, gjöld kr. 17.954.888 og fjármuna- og fjármagnsgjöld kr. 75.347. Framlag sveitarfélaganna til Íþróttamiðstöðvarinnar var því kr. 2.084.709. Ársreikningarnir Hörgár-byggðar voru síðan samþykktir samhljóða.  Þá samþykkti sveitarstjórn ársreikninga Þelamerkurskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar einnig fyrir sitt leyti.

 2.   Staðardagskrá.

Sveitarstjórn leggur til að eftirtaldir skipi nefnd um Staðardagskrá 21.  Aðalmenn;Oddur Gunnarsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Lilja Sigurðardóttir, Birna Jóhannesdóttir og Guðmund Sturluson. Til vara verði; Haukur Steindórsson, Davíð Guðmundsson og Gunnhildur Vala Valsdóttir. Ákveðið að boða nefndina saman  í byrjun júní í samráði við Ragnhildi Helgu Jónsdóttur, sem kemur til með að vinna með nefndinni og halda utan um verkefnið í samvinnu við ráðgjafa í aðalskipulagsgerð. Sveitarstjórnarmenn hafa merkt við u.þ.b. átta atriði sem nefndarmenn  Staðardagskrár hafa til hliðsjónar þegar verkefni verða ákvörðuð.

3.  Fundargerðir:

a.  Fundargerð byggingarnefndar frá 10 maí 2005. Í fundargerðinni voru tekin fyrir  erindi frá Kötlu ehf., þar sem sótt er um leyfi fyrir byggingu tveggja húsa á lóðum nr. 5 og 7 við Birkihlíð.  Sveitarstjórnin samþykkir fundargerðina fyrir sitt leyti.

b.  Lagðar voru fram fundargerðir héraðsráðs frá 2. mars, 20. apríl og 4. maí 2005. Einnig var lagður fram ársreikningur héraðsnefndar vegna 2004.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemdir við ársreikninginn.

c.  Lagðar fram fundargerðir Sorpeyðingar Eyjafjarðar frá 9. des. 2004, 16. og 23. febr., 9. og 30. mars og 11. maí 2005.  Sveitarstjórn Hörgárbyggðar gerir ekki athugasemd við fundargerðirnar.

d.   Fundargerðir stjórnar Minjasafnsins frá 17. des. 2003, 4. febr. 2004 og 17. mars 2004 lagðar fram til kynningar.

e.  Fundargerð Framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla frá 12. maí s.l. Frestað, fundargerð ókomin.

f.  Fjárhagsáætlun Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk. Farið var yfir framlagða áætlun. Áætlað framlag til ÍÞM frá Hörgárbyggð rekstrarárið 2005 er kr. 1.646.029 og frá Arnarneshreppi kr. 826.971. Þ.e. samtals framlag kr. 2.473.000. Taka verður tillits til fjárhagsáætlunar ÍÞM við endurskoðun á fjárhagsáætlun hjá sveitarsjóði Hörgárbyggðar, en ekki var gert ráð fyrir neinu framlagi til ÍTM á fjárhagsáætlun Hörgárbyggðar fyrir rekstrarárið 2005. Áætlunin var síðan samþykkt.

g. Skipulagsnefndar frá 12. maí 2005 – samþykkt um gatnagerð.              Afgreidd án athugasemda.

4.  Erindi frá Hjartaheill.  Óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 10.000 vegna útgáfu blaðsins Velferð. Erindinu var hafnað.

5.  Erindi frá foreldrafélaginu Álfavinir.

Borist hefur erindi frá foreldrafélaginu Álfavinum þar sem farið er fram á stuðning sveitarfélagsins vegna 10 ára afmæli leikskólans. Samþykkt að veita kr. 25.000 til foreldrafélagsins Álfavina í tilefnis 10 ára afmælisins Leikskólans á Álfasteini.

6.  Þingsályktunartillaga um samgönguáætlun.   Sveitarstjórn Hörgár-byggðar fagnar tillögunni og lýsir yfir fullum stuðningi við hana.

7.  Umsókn um leyfi fyrir tveim gestahúsum á lóð Pétursborgar. 

Lögð var fram umsókn um byggingu tveggja lítilla gistihúsa, 21 fm hvort hús, á lóðina við íbúðarhúsið í Pétursborg frá Andreu Keel og Kristjáni Stefánssyni í Pétursborg.  Einnig fylgdi yfirlýsing Eiríks Sigfússonar á Sílastöðum f.h. fb. Einarsstaða/ Sílastaða þar sem hann gerir ekki athugasemdir við staðsetningu húsanna og yfirlitsuppdráttur frá BSE, Guðmundi Helga Gunnarssyni. Sveitarstjórn samþykki erindið með fyrirvaraog vísar því til umsagnar skipulagsnefndar.

8.   Ýmis mál.  Stöðuleyfi húss í Mið-Samtúni.   Tekið fyrir bréf frá byggingafulltrúa um stöðuleyfi húss í Mið-Samtúni.  Stöðuleyfið er útrunnið.  Sveitarstjóra falið að vinna að málinu.

9.   Skuldir viðskiptavina.  Frestað til næsta fundar.

10.  Trúnaðarmál.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:43.

____________________________________________________________________