Fundargerð - 18. júní 2010

Föstudaginn 18. júní 2010 kl. 15:00 kom sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar saman til fundar í Hlíðarbæ.

 

Niðurstaða kosninga til sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar þann 29. maí 2010 urðu þau að J-listi Samstöðulistans fékk 170 atkvæði og 2 menn kjörna, L-listi Lýðræðislistans fékk 171 atkvæði og 3 menn kjörna. Skv. því voru eftirtaldir kosnir i sveitarstjórnina: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

 

Fundarmenn voru allir nýkjörnir fulltrúar í sveitarstjórnina.

 

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Helgi Bjarni Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

Þetta gerðist:

 

1. Ávarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristján L. Möller, flutti ávarp í tilefni þess að um er að ræða fyrsta fund sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Arnarneshrepp og Hörgárbyggðar.

 

2. Kosning oddvita

Við kosningu oddvita hlaut Hanna Rósa Sveinsdóttir 5 atkvæði. Var Hanna Rósa Sveinsdóttir lýst réttkjörinn oddviti til eins árs.

 

Nýkjörinn oddviti Hanna Rósa Sveinsdóttir tók nú við fundarstjórn.

 

3. Kosning varaoddvita

Við kosningu varaoddvita hlaut Axel Grettisson 5 atkvæði. Var Axel Grettisson lýstur réttkjörinn varaoddviti til eins árs.

 

4. Kosning ritara

Samþykkt var að sveitarstjóri annist ritun fundargerða sveitarstjórnar.

 

5. Heiti sveitarfélagsins

Lögð var fram svohljóðandi tillaga:

Ég legg til að sameinað sveitarfélags Arnaneshrepps og Hörgárbyggðar fái heitið Hörgársveit.

Greinargerð:

Það er vissulega erfitt að ganga fram hjá vilja meirihluta íbúa sveitarfélagsins í þessu máli, en það er skoðun mín að nýtt sveitarfélag eigi að fá annað heiti en voru á þeim sveitarfélögum sem runnu inn í það. Það er okkar sameingartákn.

Ég vona að sátt geti tekist um heitið Hörgársveit. Í viðhorfskönnuninni sem gerð var samhliða sveitarstjórnarkosningunum kom í ljós að flestir vildu hafa forliðinn Hörgá í heiti sveitarfélagsins.

 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir

 

Ekki komu fram fleiri tillögur um heiti sveitarfélagsins og skoðaðist hún því samþykkt.

 

6. Málefnaskrá sveitarstjórnar

Oddviti upplýsti að ákveðið hafi verið að unnið verði málefnaskrá sveitarstjórnar samhliða skipan í nefndir sveitarfélagins.

Að öðru leyti var efni þessa dagskrárliðar frestað.

 

7. Samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins, fyrri umræða

Lögð fram drög að að samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins, dags. 16. júní 2010.

Að loknum umræðum um drögin var samþykkt að vísa þeim til síðari umræðu.

 

8. Ráðning sveitarstjóra

Samþykkt var að fela oddvita og varaoddvita að eiga viðræður við Guðmund Sigvaldason um ráðningu í starf sveitarstjóra.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 15:15.