Fundargerð - 18. ágúst 2010

Miðvikudaginn 18. ágúst 2010 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í Leikhúsinu Möðruvöllum.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar, síðari umræða

Lögð fram ný drög að samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar. Nýju drögin eru samhljóða þeim drögum sem rædd voru á fundi sveitarstjórnar 30. júní 2010 að undanskildum 2. tölulið í 51. gr., um fjallskilanefnd.

Sveitarstjórn samþykkti drögin eins og þau liggja fyrir og fól sveitarstjóra að annast gildistöku þeirra.

 

2. Erindisbréf fræðslunefndar, fyrri umræða

Lögð fram drög að erindisbréfi fræðslunefndar, dags. 12. ágúst 2010.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa drögunum til síðari umræðu.

 

3. Erindisbréf skipulags- og umhverfisnefndar, fyrri umræða

Lögð fram drög að erindisbréfi skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 9. ágúst 2010.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa drögunum til síðari umræðu.

 

4. Erindisbréf félagsmála- og jafnréttisnefndar, fyrri umræða

Lögð fram drög að erindisbréfi félagsmála- og jafnréttisnefndar, dags. 12. ágúst 2010.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa drögunum til síðari umræðu.

 

5. Erindisbréf menningar- og tómstundanefndar, fyrri umræða

Lögð fram drög að erindisbréfi menningar- og tómstundanefndar, dags. 16. ágúst 2010.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa drögunum til síðari umræðu.

 

6. Erindisbréf atvinnumálanefndar, fyrri umræða

Lögð fram drög að erindisbréfi atvinnumálanefndar, dags. 13. ágúst 2010.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa drögunum til síðari umræðu.

 

7. Erindisbréf fjallskilanefndar, fyrri umræða

Lögð fram drög að erindisbréfi fjallskilanefndar, dags. 17. ágúst 2010.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa drögunum til síðari umræðu.

 

8. Fjárhagsáætlun sveitarsjóðs fyrir árið 2010, fyrri umræða

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs fyrir árið 2010. Skv. drögunum er gert ráð fyrir að skatttekjur á árinu verði alls 310,4 millj. kr., rekstrarafgangur ársins verði 9,1 millj. kr. og að veltufé frá rekstri samstæðunnar verði 35,9 millj. kr. á árinu.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa drögunum til síðari umræðu.

 

9. Sameiginlegur fundur sveitarstjórnar og fastanefnda

Lögð fram drög að skipulagi sameiginlegs fundar sveitarstjórnar og fastanefnda sveitarfélagsins til að ræða stjórnsýslu og fjárhagsmál sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti að sameiginlegur fundur sveitarstjórnar og fastanefnda sveitarfélagsins verði haldinn 1. september 2010 í Hlíðarbæ.

 

10. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 28. júní 2010

Fundargerðin er í sextán liðum. Liður 16b varðar Hörgársveit, hann er um gististað í flokki III í Þelamerkurskóla.

Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á lið 16b í fundargerðinni. Aðrir liðir hennar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

11. Fundargerðir stjórnar Hafnasamlags Norðurlands, 2. júlí og 9. ágúst 2010

Fyrri fundargerðin er í þremur liðum og sú síðari í fjórum liðum.

Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar.

 

12. Fundargerðir fjallskilanefndar, 5. júlí og 16. ágúst 2010

Fyrri fundargerðin er í ellefu liðum og síðari fundargerðin er í sex liðum. Lögð voru fram drög að vinnureglum nefndarinnar, en nefndin óskar eftir umsögn sveitarstjórnar um þær áður en til endanlegrar afgreiðslu þeirra kemur. Vinnureglurnar eru gerðar á grunni slíkra reglna sem giltu fyrir fjallskilanefnd Hörgárbyggðar.

Sveitarstjórn samþykkti fundargerðirnar og gerði ekki athugasemdir við framlögð drög að vinnureglum fjallskilanefndar.

 

13. Fundargerðir bygginganefndar, 6. júlí og 17. ágúst 2010

Fyrri fundargerðin er í ellefu liðum. Liðir 6-11 varða Hörgársveit, sem hér segir:

6.      Stöðuleyfi í 1 ár fyrir 40 feta gám í Pétursborg

7.      Breyting íbúðarhúss á Sílastöðum II

8.      20 m2 hús að Sílastöðum II

9.      77,7 m2 hús að Sílastöðum II

10.    Einbýlishús í Staðartungu

11.    Breyting á fjósi í Arnarnesi

Lagt fram bréf, dags. 16. ágúst 2010, frá Kristjáni Stefánssyni o.fl., þar sem mótmælt er afgreiðslu byggingarnefndar á ofangreindum 6. lið í fundargerð nefndarinnar.

Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á liðum 6-11 í fundargerðinni. Varðandi 6. lið fundargerðarinnar samþykkti sveitarstjórnin að stöðuleyfi gáms, sem þar er fjallað um, miðast eingöngu við notkun hans sem geymslugáms. Liðir 1-5 í fundargerðinni gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

Seinni fundargerðin er í ellefu liðum. Liðir 10 og 11 varða Hörgársveit, sem hér segir:

10.    Birkihlíð 6, geymsluskúr

11.    Moldhaugar, viðbygging við víkingaskála

Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á liðum 10 og 11 í fundargerðinni. Aðrir liðir hennar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

14. Lækjarvellir 4, lóðarúthlutun

Lögð fram umsókn Vatnsklæðningar ehf., dags. 20. júlí 2010, um lóðina Lækjarvelli 4.

Sveitarstjórn samþykkti að úthluta Vatnsklæðningu ehf. lóðina Lækjarvelli 4 og veitti sveitarstjóra umboð til að semja, í samræmi við umræður á fundinum, við umsækjanda um greiðslu gatnagerðargjalds vegna lóðarinnar.

 

15. Hjalteyri, deiliskipulag

Lögð fram deiliskipulagstillaga fyrir hluta af Hjalteyri, sem hefur fengið meðferð skv. skipulagslögum, sbr. fundargerðir hreppsnefndar Arnarneshrepps 11. nóvember 2008 og 26. ágúst 2009.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða deiliskipulagstillögu og fól sveitarstjóra að annast gildistöku hennar.

 

16. Snjómokstur veturinn 2010-2011

Umræður urðu um fyrirkomulag snjómoksturs á Lónsbakka og Hjalteyri veturinn 2010-2011.

Sveitarstjórn samþykkti að samið verði um snjómokstur á Lónsbakka og Hjalteyri veturinn 2010-2011 við sömu aðila og samið var við um snjómokstur á viðkomandi stöðum veturinn 2009-2010.

 

17. Flutningur á úrgangi til Stekkjarvíkur

Lagt fram bréf, dags. 5. ágúst 2010, frá Flokkun Eyjafjörður ehf., þar sem óskað er eftir upplýsingum um ráðstafanir sem gerðar hafa verið um flutning úrgangs úr sveitarfélaginu m.a. til nýs urðunarstaðar í Stekkjarvík í Refasveit.

Sveitarstjórn samþykkti að óskað verði eftir viðræðum við Flokkun Eyjafjörður ehf., eða að öðru kosti við Akureyrarbæ, um samstarf um móttöku og flutning úrgangs úr sveitarfélaginu til förgunar.

 

18. Kjörstjórn, kosning varamanns

Lagt fram bréf, dags. 8. júlí 2010, frá Sturlu Eiðssyni, þar sem hann óskar eftir að verða leystur undan kjöri sem varamaður í kjörstjórn.

Sveitarstjórn samþykkti að verða við ósk Sturlu. Samþykkt var kjósa Jónu Kr. Antonsdóttur sem varamann í kjörstjórn á yfirstandandi kjörtímabili.

 

19. Greið leið ehf., hluthafafundur

Gerð var grein fyrir kynningarfundi um málefni Vaðlaheiðarganga, sem Greið leið ehf. og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið héldu 9. ágúst 2010. Þar kom m.a. fram að á næstunni muni hluthafafundur verða boðaður í Greiðri leið ehf., þar sem lögð verður fram tillaga um hlutafjáraukningu í félaginu upp á um 100 millj. kr. og tillaga um að félagið sjái um gerð og rekstur ganganna eða verði hluthafi í nýju félagi um verkefnið.

Sveitarstjórn samþykkti að veita sveitarstjóra umboð til að fara með atkvæði sveitarfélagsins á hluthafafundinum. Sveitarstjórn samþykkti að Hörgársveit taki þátt í ofangreindri hlutfjáraukningu að því marki sem um kann að semjast milli viðkomandi sveitarfélaga um það efni.

 

20. Byr sparisjóður, greiðsluþrot

Umræður urðu um stöðu stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði í kjölfar greiðsluþrots sparisjóðsins sl. vor.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti að taka undir framkomnar óskir sveitarfélaga og fleiri um að Alþingi taki til skoðunar tilurð laga um breytt starfsumhverfi sparisjóða og hverjir hafi helst hagnast á þeim breytingum. Þá samþykkti sveitarstjórnin að óska eftir að embætti sérstaks saksóknara taki til rannsóknar tildrög þess að Byr sparisjóður yfirtók Sparisjóð Norðlendinga og í því sambandi sérstaklega hvort raunverulegri stöðu lánasafns Byrs hafi að einhverju marki verið haldið leyndri fyrir forsvarsmönnum Sparisjóðs Norðlendinga í aðdraganda yfirtökunnar.

 

21. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 10. júlí 2010, frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, þar sem óskað er eftir styrk til byggingar fyrir stofnunina.

Sveitarstjórn hafnaði erindinu.

 

22. Skólahreysti, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. í júlí 2010, frá Icefitness ehf. (Andrési Guðmundssyni), sem þar óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 50.000 fyrir Skólahreysti á árinu 2010.

Sveitarstjórn samþykkti að verða við erindinu.

 

23. Lausaganga hunda

Lagt fram tölvubréf, dags. 4. ágúst 2010, frá Hilmari Lúterssyni o.fl. þar sem óskað er eftir að skoðað verði að lausaganga hunda í sveitarfélaginu verði bönnuð.

Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að gera drög að samþykkt um hundahald í sveitarfélaginu.

 

24. Fiskvinnsluhús Hjalteyri, afnot

Lagt fram bréf, dags. 5. ágúst 2010, frá Lene Zachariassen þar sem spurst er fyrir um möguleika á að leigja hluta jarðhæðar fiskvinnsluhúss á Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti að leigja bréfritara umbeðið rými í þrjá mánuði frá 1. september 2010 og að hugsanlegt framhald á afnotum verði lagt fyrir atvinnumálanefnd.

 

25. Pálmholtslækur, tilraun til fiskeldis

Lagt fram bréf, dags. 13. ágúst 2010, frá Þórði Þórðarsyni þar sem óskað er eftir afstöðu sveitarstjórnar til hugmyndar um tilraun til fiskeldis í neðsta hluta Pálmholtslækjar.

Sveitarstjórn gerði ekki, fyrir sitt leyti, athugasemd við að tilraun verði gerð til fiskeldis í neðsta hluta Pálmholtslækjar, en leggur áherslu á að að leyfi eiganda aðliggjandi jarðar verði aflað og að leyfi allra eftirlitsstofnana liggi fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

 

26. Skútaberg ehf., leyfi fyrir vinnubúðir

Lagt fram tölvubréf, dags. 17. ágúst 2010, frá Skútabergi ehf. þar sem sótt er um leyfi til að reisa til bráðabirgða vinnubúðir á landspildu nr. 218798 í landi Moldhauga.

Sveitarstjórn hafnaði erindinu, þar sem um verulegt byggingarmagn er að ræða og ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir svæðið.

 

27. Þórustaðarétt, viðhald

Lagt fram tölvubréf, dags. 17. ágúst 2010, frá Brynjólfi Snorrasyni um viðhald Þórustaðaréttar.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa til fundargerðar fjallskilanefndar frá 5. júlí 2010 (8. liður) um viðhald rétta og afgreiðslu sveitarstjórnar Hörgárbyggðar 19. september 2007 um málið, þar sem fram kemur að réttinni muni verða haldið við, en að svo stöddu er framtíð Þórustaðaréttar í óvissu.

 

28. Blómsturvellir, hundasvæði

Lagt fram bréf, dags. 16. ágúst 2010, frá Hilmari Lútherssyni o.fl. þar sem óskað er eftir að hundasvæði í landi Blómsturvalla verði tekið af skipulagi.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu til gerðar aðalskipulags fyrir sveitarfélagið.

 

29. Trúnaðarmál

 

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 01:00.