Fundargerð - 17. janúar 2017

Fundargerð

Þriðjudaginn 17. janúar 2017 kl. 10:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir og Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1.            Deiliskipulag Fögruvík

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi var auglýst frá  29. nóvember 2016 og var athugasemdafrestur til 10. janúar 2017.

Ein athugasemd barst:  Kristján Stefánsson og Andrea Keel, dagsett 10. desember 2016.

Hér að neðan er athugasemd sundurliðuð og svör nefndarinnar:

a.       Þjónustu- og starfsmannahús var byggt í óleyfi og er eins nálægt frístundahúsum í Pétursborg og hægt er. Frá húsinu er truflun vegna umferðar um hús og heitan pott allan sólahringinn, truflun hefur áhrif á starsemi í Pétursborg.

Svar:
Umrætt þjónustu- og starfsmannahús var á sínum tíma sett niður með bráðabirgðarstöðuleyfi sem geymslugámur og var samþykkt sem slíkt í byggingarnefnd Eyjafjarðar þann 7. júlí 2009. Sú afgreiðsla var síðan staðfest af sveitarstjórn 20. ágúst sama ár. Umrætt bráðabirgðarleyfi var síðar endurnýjað en þó með þeirri afgreiðslu sveitarstjórnar þann 18. ágúst 2010, að stöðuleyfi gáms miðist eingöngu við notkun hans sem geymslugáms og erindi þess efnis sent byggingarfulltrúa. Rétt er að taka fram að ítrekað hefur verið við eiganda gámsins/þjonustuhússins að engar heimildir hafa verið til staðar að breyta viðkomandi gámi/þjónustuhúsi í leigurými að Fögruvík. Í framhaldi af því var landeigenda bent á að sækja um byggingarleyfi og/eða gera breytingu á deiliskipulagi, í þá veru sem nú er verið að gera.

Umrætt þjónustu- og stafsmannahús er nú í 12-13 m fjarlægð frá frístundahúsum í Pétursborg. Engin fjarlægðarákvæði eru í gildandi aðalskipulagi en skipulagssvæðið í Fögruvík er í aðalskipulagi skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði. Fjarlægð á milli húsa er í samræmi við ákvæði Byggingarreglugerðar (112/2012) hvað varðar brunavarnir sem skal vera á a.m.k. 6-8 m eftir klæðningu húsa (gr. 9.7.5).

Til að reyna að koma í veg fyrir hávaða og truflun á milli húsa er í breytingu á deiliskipulagi skýrt kveðið á um að umrætt þjónustu- og starfsmannahús verði ekki til útleigu en þess utan er erfitt að taka á slíkum málum í deiliskipulagi. Af hálfu sveitarfélagsins er litið svo á að með svo skýrri afmörkun á notkunarskilmálum á umræddu húsi sé komið í veg fyrir að útleiga á húsinu geti átt sér stað.

Tekið er tillit til að ekki liggja fyrir þinglýst lóðarmörk Pétursborgar og Fögruvíkur.

b.      Bent er á að hús númer 8b er þegar til staðar en í breytingu á deiliskipulagi er gert ráð fyrir að þessu húsi sé bætt inn í deiliskipulag.

Svar:

Sveitarfélagið lítur það alvarlegum augum að byggt sé án leyfa en vill horfa til framtíðarhagsmuna í þessu máli og koma umræddu húsi inn á deiliskipulag og á fasteignaskrá.

c.       Óljóst er hvort leyfi eru fyrir húsum númer 7, 8, 9 og 10 ásamt leyfum fyrir stækkunum húsa númer 7 og 8.

Svar:

Öll tilskilin leyfi eru fyrir umræddum byggingum.

d.      Telja að með byggingu húsa 7, 8 og 8b verði fari gegn forsendum deiliskipulagsins þar sem segir að „leitast skuli við að ná góðu útsýni frá bústöðum, en að hver þeirra verði sem mest út af fyrir sig“

Svar:

Þrátt fyrir að hús númer 8b bætist inn í deiliskipulagið eru a.m.k. 20 m á milli húsa og útsýni frá þeim öllum mjög gott og því er ekki tekið undir þessa athugasemd.

e.      Bent er á að skv. skilmálum gildandi deiliskipulags var gert ráð fyrir að lokað verði sári gamallar malarnámu og trjágróðri plantað á svæðinu en þetta hefur ekki verið gert.

Svar:

Ekki er um að ræða námu með starfsleyfi og mun sveitarfélagið þvi beita sér fyrir því að henni verði lokað og svæðið grætt upp samanber gildandi deiliskipulag á svæðinu.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði samþykkt og skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra falið að annast gildistöku hennar.

 

2.            Umhverfisverðlaun 2016

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti hverjir muni fá umhverfisverðlaun Hörgársveitar 2016.

 

3.            Erindi frá Eyjafjarðarsveit

Lagt fram erindi frá Eyjafjarðarsveit þar sem kynnt er skipulags- og matslýsing vegna vinnu við breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við lýsinguna.

 

4.            Reglur vegna lóða- og byggingaframkvæmda

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að undirbúin verði gerð frekari reglna er varðar leyfisveitingar til lóða- og byggingaframkvæmda í sveitarfélaginu og til hvaða aðgerða verði gripið til verði þeim ekki fylgt.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl 11.10