Fundargerð - 17. janúar 2007

Miðvikudaginn 17. janúar 2007 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 10. fundar í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Árni Arnsteinsson, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson og Aðalheiður Eiríksdóttir, ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.

Helgi Steinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Álfasteinn, breytingar á eldra húsnæði og laus búnaður

Leikskólastjóri mætti á fundinn og kynnti yfirlit um þær breytingar sem þarf að gera eldra húsnæði Álfasteins í kjölfarið á viðbyggingarframkvæmdum. Einnig kynnti leikskólastjóri óskalista yfir lausan búnað sem þarf að kaupa vegna stækkunar leikskólans. Sveitarstjóra og oddvita var falið að semja við Kötlu ehf. um að annast þær framkvæmdir sem gera þarf á eldra húsnæði og fá fram kostnaðaráætlun og leggja fyrir næsta fund. Samþykkt var að þær breytingar eigi sér stað strax og viðbyggingunni er lokið.

 

2. Álfasteinn, skólavist barna utan sveitarfélagsins

Biðlisti fyrir leikskóladvöl mun vera að myndast á Akureyri og fyrirspurn er komin um möguleika á dvöl á Álfasteini. Talið er að fleiri fyrirspurnir séu á leiðinni. Farið var yfir stöðuna og málin rædd. Sveitarstjóra falið að vinna úttekt á því hvað sé hagkvæmast í stöðunni, þ.e. hvað mörg börn er best að taka inn með tilliti til nýtingu mannahalds í leikskólanum. Einnig að reikna út hvað Hörgárbyggð þarf að fá greitt með hverju barni úr öðrum sveitarfélögum, svo að Hörgárbyggð sé ekki að greiða niður leikskólavist þeirra barna.

 

3. Vélaver hf., lóðarumsókn

Bréf, dags. 2. janúar 2007, frá Vélaveri hf. í Reykjavík þar sem óskað er eftir úthlutun á lóð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, sbr. 2. tl. fundargerðar skipulags- og umhverfisnefndar 8. nóv. 2006 og 11. tl. fundargerðar sveitarstjórnar 6. des. 2006. Skipulags- og umhverfisnefnd hefur fjallað um bréfið, sjá 2. tl. í fundargerð nefndarinnar 8. jan. 2007. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að strax verði hafi gerð deiliskipulags fyrir verslunar- og þjónustulóðir á því svæði sem tilgreint er á samþykktu svæðisskipulagi sem athafnasvæði að svo miklu leyti sem skriflegt leyfi annarra viðkomandi landeigenda en sveitarfélagsins liggi fyrir áður en skipulagsvinna hefst.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um erindi Vélavers hf. Sveitarstjórn samþykkir að gerður verði samningur við bréfritara um umbeðna lóð þar sem kveðið er á um upphæð og gjalddaga gatnagerðargjalds og um tímasetningu á byggingarhæfi lóðarinnar.

 

4. Gásir, íbúðabyggð

Bréf, dags. 15. jan. 2007, frá Lífsvali ehf. þar sem óskað er eftir viðræðum um  íbúðarhúsabyggð á Gásum, sjá 1. tl. í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 8. jan. 2007. Nefndin mælir með því við sveitarstjórn að rætt verði við fyrirtækið um málið.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að ganga til viðræðna  við Lífsval ehf. um hugsanlega íbúðabyggð að Gásum.

 

5. Hraun, fólkvangur

Lagt fram tölvubréf, dags. 4. jan. 2007, frá Tryggva Gíslasyni þar sem fram kemur lýsing á afmörkun væntanlegs fólkvangs í landi Hrauns í Öxnadal, sbr. 6. tl. í fundargerð sveitarstjórnar 5. sept. 2006, og 3. tl. fundargerðar skipulags- og umhverfisnefndar 6. sept. 2006. Einnig var lagt fram uppkast að samningi milli  landeiganda, sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar um umsjón með væntanlegum fólkvangi, svo og uppkast að auglýsingu um stofnun hans.

Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti þá afmörkun væntanlegs fólksvangs í landi Hrauns í Öxnadal sem fram kemur í framlögðum gögnum. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að haldið verði áfram undirbúningi að stofnun fólkvangsins og stefnt verði að því að hann verði formlega stofnaður um miðjan júní 2007.

 

6. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 8. jan. 2007

Fundargerðin er í fjórum liðum. Sveitarstjórn samþykkir að veita AJ Byggir ehf. umbeðin frest til 1. september 2007 til að hefja framkvæmdir við lóð nr. 14 við Skógarhlíð. Fundargerðin var rædd sbr. framanritað og síðan afgreidd án athugasemda.

 

7. Fundargerð húsnefndar, 20. des. 2006

Fundargerðin er í einum lið. Samþykkt var að veita aukafjárveitingu allt að kr. 650.000 í að kaupa og setja upp hljóðkerfi í Hlíðarbæ. Fundargerðin rædd og afgreidd án athugasemda.

 

8. Fundargerð framkvæmdanefndar Þelamerkurskóla, 11. jan. 2007

Fundargerðin er í þremur liðum. Fundargerðin var rædd og afgreidd án athugasemdar.

 

9. Söfnun pappírs til endurvinnslu

Ákveðið er að komið verði upp stórsekk við ÞMS þar sem íbúum gefst kostur á að setja í mjólkurfernur og aðrar slíkar umbúðir. Afrakstur þess verkefnis verður veittur til stuðnings Ferðasjóði nemenda ÞMS. Einnig er ákveðið að fengin verði dagblaðagámur sem verður staðsettur við ÞMS fyrir íbúa sveitarfélagsins.

 

10.       Málþing um samstarf sveitarfélaga í Eyjafirði

Tölvubréf, dags. 3. jan. 2007, frá Héraðsnefnd Eyjafjarðar þar sem vakin er athygli á fyrirhuguðu málþingi um samstarf sveitarfélaga í Eyjafirði 2. febrúar 2007. Sveitarstjórnarmenn eru hvattir til að sækja málþingið.

 

11. Laun sveitarstjórnarmanna

Samþykkt að laun sveitarstjórnar og nefndarmanna hafi sama viðmið og hingað til af þingfararkaupi, ásamt þeim hækkunum sem gerðar voru 1. janúar 2007.

 

12. Fundargerðir heilbrigðisnefndar, 6. des. 2006 og 10. janúar 2007

Fundargerðin frá 6. des. 2006 er í sex liðum og fundargerðin 10. janúar 2007 er í tólf liðum. Í lið 5 í fundargerð frá 6. desember er samþykkt fyrirliggjandi tillaga að gjaldskrá fyrir sorphirðu í Hörgárbyggð. Lagðar fram til kynningar.

 

13. Fundargerð héraðsráðs, 13. des. 2006

Fundargerðin er í sjö liðum. Fimmti liður er til umfjöllunar og afgreiðslu í lið 10 hér á undan, að öðru leyti er fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

14. Fundargerðir byggingarnefndar, 13. des. 2006

Fyrri fundargerðin er í fimm liðum, enginn þeirra varðar Hörgárbyggð. Síðari fundurinn er svonefndur jólafundur. Fundargerðirnar afgreiddar án athugasemda.

 

15. Fundargerð stjórnar Eyþings, 15. des. 2006

Fundargerðin er í átta liðum. Lögð fram til kynningar.

 

16. Fundargerð félagsmála- og jafnréttisnefndar, 16. jan. 2007

Fundargerðin er í fjórum liðum. Í 1. lið fundargerðarinnar leggur nefndin til við sveitarstjórn að staðfestar verði reglur um félagslega heimaþjónustu fyrir Hörgárbyggð, skv. uppkasti sem lagt var fram á fundinum. Fundargerðin samþykkt en afgreiðslu á reglum um félagslega heimaþjónustu í Hörgárbyggð var frestað til næsta fundar.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl: 23:48