Fundargerð - 17. ágúst 2005

Miðvikudaginn 17. ágúst 2005 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 69. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Ásrún Árnadóttir, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1.  Frárennslismál og umgegni í sveitarfélaginu.

Alfreð Schiöth frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra mætti á fundinn undir þessum lið. Alfreð fór yfir helstu reglur og úrræði, þ.e. með hvaða hætti sveitarstjórnir gætu stuðlað að betri umgengni á bæjum varðandi brotajárn og fl. Einnig upplýsti hann um ástand rotþróarmála í sveitarfélaginu. Einnig kom skýrt fram að algjörlega er óheimilt að brenna úrgang s.s. moð og fl. við opin eld. Rætt var um ýmsa sjónmengun og loftmengun í sveitarfélaginu og hvaða leiðir væru færar til úrbóta.

 

2.  Lóð og frárennslismál vegna Þórs hf.

Ítrekuð er kvörtun frá Þór hf. um efndir á framkvæmdum þeirra loforða sem samkomulag var um að Hörgárbyggð annaðist og snerta lóð og frárennslismál lóðar Þórs hf. við Lónsbakka sbr. fundargerð frá 23.04.2002. Er það krafa Þórs að þessum málum verði kippt í lag án frekari dráttar. Nefnd fundargerð frá 23.04.2002 virðist aldrei hafa komið fyrir sjónir sveitarstjórnarmanna og því er ekki til nein bókun um að sveitarstjórn hafi samþykkt hana. Sveitarstjóra falið að tala við þá aðila sem að umræddri fundargerð komu. Málinu vísað til næsta fundar til afgreiðslu.

 

3.   Tónlistarskólinn, fundargerðir frá 21. og 23. júní 2005, reikningur og áætlun.  Þar kemur fram að ekki hafa öll sveitarfélögin fjallað um kostnaðaráætlunina en  Hörgárbyggð hafi samþykkt kostnaðarskiptingu vegna launa en óski jafnframt eftir að leitað verði allra leiða til að ná kostnaðinum niður. Stjórn Tónlistarskólans leggur til að hvert sveitarfélag tilnefni einn fulltrúa í nefnd til að skoða breytingu á kostnaðarskiptingu sveitarfélaganna. Sveitarstjóra falið að vera fulltrúa Hörgár­byggðar í nefndinni.

 

4.  Fundargerðir:

a)  Fundargerð stjórnar búfjáreftirlitsins frá 23. júní s.l. ásamt samantekt á vinnu.  Kostnaður Hörgárbyggðar vegna búfjáreftirlitsins tímabilið 18. október 2004 – 4. maí 2005 er kr. 387.138. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

b)  Fundargerð fjallskilanefndar frá 5. júlí 2005.

Fjallskilanefnd leggur til að gögnum í Glæsibæjardeild, S-Bægisárdal og neðri hluta Skriðudeildar verði flýtt um viku en annarsstaðar verði gengið í 22. viku sumars. Rætt var um gangnaskyldu þeirra sem halda fé sínu innan girðingar allt sumarið.  Ákvað fjallskilanefnd að herða reglur þar af lútandi. Ætlar nefndin að útfæra reglurnar á næsta fundi.

Enginn fjáreigandi úr Hörgárbyggð nýtir lengur upprekstrarheimild í Lambárdal og Illagilsdal sem eru hliðardalir á Þorvaldsdal og óskar fjallskilanefnd eftir því að sveitarstjórn Hörgárbyggðar fari þess á leit við Arnarneshrepp að þeir sjái um að manna þetta eignarland Arnarnes-hrepps í göngum. Fjallskilanefnd leggur til að greiðsla fyrir gangnadags-verk verði óbreytt þ.e. kr. 9.000.

Fundargerðin var síðan afgreidd án athugasemda og var sveitarstjóra falið að skrifa Arnarneshreppi bréf vegna gangnamála á Þorvaldsdal og óska eftir því að þeir sjái um að manna þetta eignarland Arnarneshrepps í göngum.

c)  Fundargerð kjörstjórnar frá 25. júlí 2005.

Þar kemur fram að fyrirhugað er að kosningar vegna sameiningar sveitarfélaga verða 8. október 2005. Kjörnefnd leggur til að kjörfundur verði haldin í Hlíðarbæ og hefjist kl. 10:00 og standi til kl. 20:00. Kjörseðilsformið sem lagt var fram og var samþykkt samhljóða. Fundargerðin var afgreidd án athugasemda. 

d)   Fundargerð héraðsráðs frá 13. júlí 2005. Þar kemur fram að útboð vegna 5 áfanga b í VMA hefur farið fram og bárust tvö tilboð annað 111% umfram kostnaðaráætlun og hitt 135% umfram kostnaðaráætlun. Héraðsráð samþykkir að gengið verið til samninga við lægstbjóðanda PA byggingaverktaka. Hörgárbyggð gerir ekki athugasemd við ákvörðun héraðsráðs. 

e)   Fundargerðir bygginganefndar frá 21. júní, 5. júlí og 19. júlí.

Samþykkt var erindi Byggingarfélags Kötlu ehf. vegna Birkihlíðar 2, frestað var erindi Kristins Björnssonar vegna beiðni um að byggja við gamla íbúðarhúsið í Hraukbæ og erindi Kristþórs Halldórssonar á Moldhaugum um byggingu bílskúrs, þar sem ekki er tekið nægjanlegt tillit til byggingaútlits og gerðar. Fundargerðirnar afgreiddar án athugasemda. 

f)  Fundargerðir Eyþings, frá 26. maí, 162. fundur og frá 22. júlí 163 fundur.  Lagðar fram til kynningar.

 

5.    Greið leið ehf.  Lögð fram greinargerð um Vaðlaheiðargöng, til upplýsinga.

 

6.  Sameining sveitarfélaga – staða mála.

Áætlaður er kynnarfundur fyrir íbúa Hörgárbyggðar um sameiningu allra sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu ásamt Siglufirði þann 27. september, sveitarstjórn leggur til að hann verði í Hlíðarbær sé þess kostur.Íbúar sveitarfélagsins eru eindregið hvattir til að sækja kynningarfundinn og leita allra leiða til að kynna sér sameiningarmálin.

 

7.    Fjármál – innheimtur.

Kynnt var staða fjármála sem virðast standast áætlun.

 

8.  Framkvæmdir.

Heilbrigðiseftirlitið hefur sent inn skýrslu um að siturlagnir  virðast vera fullmettaðar  og rotþrær fullar í Hlíðarbæ og við Skógarhlíð. Gefin er þriggja mánaða frestur til úrbóta þ.e. til loka september 2005. Byrjað er að setja niður ljósastaura í Skriðuhreppi og er búist við að það verkefni klárist á þessu ári. Framkvæmdir við Birkihlíð ganga alveg þokkalega.

 

9.  Leikskóli.  Leikskólinn er fullsetinn og hefur myndast biðlisti. Málinu vísað til leikskólanefndar.

 

10.  Securitas, tilboð.

Tilboð hefur borist í öryggisgæslu frá Securitas, þ.e. vöktun á bruna- og innbrotskerfi fyrir Álfastein og hljóðar það uppá kr. 7.197.76 pr. mán. utan vsk. Erindinu vísað til leikskólanefndar.

 

11.   Hraun í Öxnadal  - skipulag – byggð.

Sækir um heimild til þess að láta skipuleggja byggð fyrir allt að 10 heilsárshús án fastrar búsetu nyrst í landi Hrauns í Öxnadals suður og upp af Valsnesi. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar tekur jákvætt í erindið.

 

12.  Erindi um byggingarframkvæmdir

Auður Eiríksdóttir óskar eftir að setja niður 70 fm. frístundahús á steyptum sökkli með lagnakjallara í landi Pétursborgar landnr. 152519. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkrir erindið fyrir sitt leyti með fyrirvara um samþykki landeiganda, byggingafulltrúa og skipulagsnefndar.

Erindi frá Andrési V Kristinssyni um að taka aftur í notkun gamla húsið í Hraukbæ ásamt nýrri viðbyggingu. Sveitarstjórn samþykkir erindið fyrir sitt leyti með fyrirvara um samþykki bygginganefndar.

Samþykkt var erindi Kristdórs Halldórssonar um að byggja bílskúr við íbúðarhúsið á Moldhaugum, með fyrirvara um leyfi bygginganefndar.

 

13.  Fjarskipti.

Hannes Haraldsson í Engimýri sendir inn erindi um háhraðatengingu í Hörgárdal og Öxnadal og segir hann að kostnaður við verkefnið sé u.þ.b. 850.000. Sveitarstjórn tekur jákvætt í að koma eitthvað að málum og var sveitarstjóra falið að skoða hvernig önnur sveitarfélög hafa leyst þessi mál.

 

14. Ýmis erindi.  Sérstakt svæðis­skipulag fyrir Norðurlandsskóga, til kynningar.  Lögbýli málinu vísað til næsta fundar.

 

15.   Trúnaðarmál.  Bókað í trúnaðarmálabók.

 

Ákveðið að að halda næsta fund miðvikudaginn 31. ágúst nk.

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:40