Fundargerð - 16. nóvember 2005

Miðvikudaginn  16. nóvember 2005 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til síns 74. fundar  í Þelamerkurskóla.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt sveitarstjóra Helgu A. Erlingsdóttur.  Engir áheyrnarfulltrúar mættu.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1.  Fulltrúar frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar mæta á fundinn til að kynna vaxtarsamning Eyjafjarðar og ræða næstu skref hvað hann varðar.

Magnús Þór Ásgeirsson og Hjalti Páll Þórarinsson frá AÞE mættu á fundinn og kynntu það helsta sem er að gerast hjá AÞE. Síðan voru þeir félagar með mjög athyglisverða glærusýningu um vaxtasamning Eyjafjarðar og kynningu á hvað felist í honum. Á eftir sýningunni sátu þeir fyrir svörum.

 

2.   Dagur íslenskrar tungu, sem er í dag, 16. nóv. á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar.  Helga sagði frá fundi sem hún fór á 15. nóv.  og þeirri uppbyggingu sem er í farvatninu á Hrauni. Árið 2007 verður 2 alda afmæli skáldsins, náttúrufræðingsins, stjórnmálamannsins, teiknarans og ferðamannsins Jónasar Hallgrímssonar og er farið að undirbúa það afmæli.  

 

3.  Fundargerðir sem borist hafa.

a.  Fundargerð bygginganefndar frá 8. nóv. s.l. Eitt erindi var samþykkt sem er viðkomandi Hörgárbyggð þ.e. frá Fasteignum Akureyrarbæjar sem sækir um leyfi til að innrétta aðstöðu fyrir sérkennslu unglinga í íbúðarhúsinu Miðvík í Skjaldarvík. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

b.  Fundargerð fjallskilanefndar frá 9. nóvember 2005, rædd og afgreidd án athugasemda.         

c.   Fundargerð skólanefndar frá 3. nóvember, rædd og afgreidd með þeim fyrirvara að ekki er tekin afstaða til þess að námshópum verði fjölgað að nýju úr sex í sjö, þar sem ekki er ljóst hvort nemendum fjölgi á næsta starfsári. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar tekur undir þá skoðun skólanefndar að afstaða Vegagerðar ríkisins þurfi að liggja fyrir um hvað þeir ætla að gera vegna nálægðar þjóðvegar 1 við leiksvæðið skólans áður en ákvörðun er tekin um endurbætur á leiksvæðinu.

d.  Fundargerðirframkvæmdanefndar ÞMS frá 29. september 2005 og 14. nóv. s.l. voru ræddar efnislega. Ákveðið að ræða fundargerðirnar nánar á næsta fundi þ.e. eftir fund hjá Framkvæmdanefnd ÞMS.  

e.  Fundargerð búfjáreftirlitsnefndar. Fundargerðin er frá 25. október sl. og var hún afgreidd án athugasemda. Henni fylgdi fjárhagsáætlun vegna búfjareftirlitsins og nefndarstarfa.  Gert er ráð fyrir 4,8% hækkun frá fyrra ári og er hlutur Hörgárbyggðar 410.151 kr.  Það kemur fram í fundargerðinni að Bændasamtökin hafa boðað til fundar með búfjár-eftirlitsmönnum, m.a. til að kynna reglugerð um merkingu búfjár og framkvæmd hennar.

 

4.  Sameiningarmál – staða í kjölfar kosninganna 8. október s.l.   Frestað til næsta fundar.

 

5.  Leikskólamál.  Frestað til næsta fundar.

 

6.  Fjárhagsáætlanir og forsendur.  Útsvarsprósenta, álagning fast.gjalda, sorpgjald, afslættir, holræsagjald o.s.frv.  Framlög verkefna. Laun nefnda og fjöldi.

Lagt er til að útsvarsprósentan verði sú sama og undanfarið eða 13,03%.  Fasteignagjaldaálagning verði einnig sú sama eða í A-gjald 0,4% af fasteignastofni og B-gjald 1.40 % af fasteignastofni.  Holræsagjaldið verði áfram það sama 0,18% og lóðagjald 1% og 3% vegna iðnaðarlóða.  Sorpgjald verði kr. 10.000.  Öðrum liðum frestað til næsta fundar.

 

7.   Fjármálaráðstefnan, afmæli Sambandsins.  Samband íslenskra sveitarfélaga er 60 ára um þessar mundir.  Þess verður minnst með samkomu í Háskólabíói þann 2. desember n.k. og eru sveitarstjórnir og forsvarsmenn sveitarfélaga boðnir velkomnir.

 

8.   Styrkbeiðnir og önnur erindi. Frestað til næsta fundar.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:30.