Fundargerð - 15. janúar 2015

Fimmtudaginn 15. janúar 2015 kl. 15:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn:  Axel Grettisson, Ásrún Árnadóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Jóhanna María Oddsdóttir og Jón Þór Benediktsson.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Fundargerð byggingarnefndar 16. desember 2014

Fundargerðin er í sjö liðum. Fimm þeirra varða Hörgársveit, um breytingar á húsnæði í Skjaldarvík, um breytingar á íbúðarhúsi í Grjótgarði, um breytingar á fjósi í Lönguhlíð, um viðbyggingu við hesthús á Syðra-Brekkukoti og um verbúð á Búðagötu 29, Hjalteyri.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

2. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 12. janúar 2015

Fundargerðin er í sjö liðum. Þar er ein tillaga til sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfi fyrir afleggjara, grjótvörn og efnistöku í landi Krossastaða. Aðrir liðir fundargerðarinnar eru um matslýsingu umhverfismats vegna kerfisáætlunar Landsnets ohf., um lýsingu deiliskipulagsverkefnis á Hjalteyri, um framkvæmdaleyfi fyrir vinnubúðir á Skútum/Moldhaugum, um framkvæmdaleyfi fyrir geymslusvæði á Skútum/Moldhaugum, um kynningarfund um landsskipulagsstefnu og um umhverfisverðlaun.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir afleggjara, grjótvörn og efnistöku í landi Krossastaða. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Skipulagsfulltrúi

Rætt um ráðningu skipulagsfulltrúa í ljósi þess að ekki er útlit fyrir að samkomulag verði um að setja á fót embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sameiginlega fyrir Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhrepp.

Sveitarstjórn samþykkti að Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppi og Svalbarðsstrandarhreppi verði tilkynnt að Hörgársveit hyggist skoða annað fyrirkomulag á starfrækslu embættis skipulags- og byggingarfulltrúa en það sem rætt hefur verið um undanfarna mánuði.

 

4. Laugaland, uppsögn leigusamnings

Lagt fram bréf, dags. 16. desember 2014, frá Norðurorku hf. þar sem sagt er upp leigusamningi um Laugaland milli Þelamerkurskóla og Legats Jóns Sigurðssonar frá 10. febrúar 1982.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrirliggjandi uppsögn á leigusamningi um Laugaland verði mótmælt þar sem ekkert uppsagnarákvæði sé í honum og samningurinn því óuppsegjanlegur.

 

5. Berghóll II, sala

Rætt um hugsanlega sölu á Berghóli II til brottflutnings til Skútabergs ehf.

Sveitarstjórn samþykkti að gerður verði samningur við Skútaberg ehf. um sölu og brottflutning á Berghóli II í samræmi við umræður á fundinum.

 

6. Vaskárdalur, stofnun fasteignar

Lagt fram bréf, dags. 17. desember 2014, frá forsætisráðuneytinu, þar sem óskað eftir er eftir að stofnuð verði fasteign (þjóðlenda) í Vaskárdal.

Sveitarstjórn samþykkti að stofnuð verði fasteign (þjóðlenda) í Vaskárdal í samræmi við framlögð gögn, sbr. 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001.

 

7. Stígamót, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 10. desember 2014, frá Stígamótum þar sem óskað er eftir samstarfi um rekstur Stígamóta á árinu 2015.

Sveitarstjórn samþykkti að fyrirliggjandi erindi Stígamóta verði hafnað.

 

8. Landgræðsla ríkisins, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 12. desember 2014, frá Landgræðslu ríkisins þar sem óskað er eftir styrkveitingu vegna verkefnisins „Bændur græða landið“.

Sveitarstjórn samþykkti að verði veittur styrkur að fjárhæð kr. 20.000 til verkefnisins „Bændur græða landið“.

 

9. Greið leið, hlutafjáraukning

Lagt fram bréf, dags. 13. janúar 2015, frá Greiðri leið ehf. um árlega hlutafjáraukningu félagsins skv. lánasamningi Vaðlaheiðarganga hf. og ríkisins. Í bréfinu koma fram viðbótarupplýsingar við þær upplýsingar sem fram koma í bréfi félagsins, dags. 3. desember 2014, um stöðu á þeirri hlutafjáraukningu sem um ræðir. Forkaupsréttur Hörgársveitar á þeim hlutum sem eru óseldir er 159.110 kr.

Sveitarstjórn samþykkti að auka hlutafé sveitarfélagsins í Greiðri leið ehf. um 159.110 kr.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 16:40.