Fundargerð - 15. janúar 2003

Miðvikudaginn 15. janúar 2003 kl. 20:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar í Hlíðarbæ.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson og Helga Erlingsdóttir, sveitarstjóri. Engir áheyrnarfulltrúa voru mættir.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

1.   Fundargerðir

a)   Sveitarstjórnar frá 11. des. 2002 og 9. jan. 2003

      Afgreiddar án athugasemda.

b)   Eyþings frá 4. des. 2002, 137. fundur og bréf frá Eyþingi frá 11. des. 2002. Óskað er þar eftir að sveitarstjórn tilnefni einn aðalfulltrúa og annan til vara til að mæta á fund um samstarf sveitarfélaga og aðkomu þeirra að samningi um menningarmál. Oddvita falið að fara á fundinn og til vara er Ármann Búason.

c)   Heilbrigðiseftirlits. Fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra frá 9. des. 2002, 52. fundur. Lögð fram til kynningar.

d)   Bygginganefndar frá 17. des. 2002, og jólafundur haldinn sama dag. Lagðar fram til kynningar.

e)   Skipulagsnefndar frá 16. des. 2002. Afgreidd án athugasemda.

f)   Leikskólanefndar frá 4. des. 2002 og 8. jan. 2003. Afgreiddar án athugasemda.

 

2.   Leikskólinn

a) Erindisbréf leikskólanefndar lagt fram til afgreiðslu. Erindisbréfið var staðfest samhljóða af sveitarstjórn.

b) Reglur um innheimtu leikskólagjalda í Hörgárbyggð. Samþykktar af sveitarstjórn 15. janúar 2003 og eru eftirfarandi:

1.      Gjöld skulu greidd fyrirfram með gjalddaga 15. hvers mánaðar og er eindagi 1 dag næsta mánaðar. Hafi gjald ekki verið greitt á eindaga leggjast á dráttarvextir frá og með gjalddaga.

2.      Verði vanskil meiri en sem nemur tveimur mánaðargreiðslum, skal sveitarstjóri tilkynna forráðamönnum viðkomandi barns það bréflega og gefa þeim frest í einn mánuð til að gera upp vanskilin. Verði þau ekki gerð upp innan þess tíma, verður viðkomandi barn (börn) að víkja af leikskólanum og nýtt barn verður tekið inn af biðlista.

3.      Séu aðstæður foreldra þess eðlis að leysa þurfi vanskil með sérstökum hætti, þá ber viðkomandi að snúa sér til skrifstofu Hörgárbyggðar með ósk um sérstaka afgreiðslu.

4.      Uppsagnarfrestur á leikskóalplássi og breytingar á vistunartíma er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar.

5.      Við flutning lögheimili úr sveitarfélaginu er leikskólastjóra skylt að segja barninu upp leikskólaplássi með 6 mánaða fyrirvara. Sveitarfélagið sem barnið flytur til greiði sitt framlag frá 1. degi næsta mánaðar eftir flutning lögheimilis. Greiði sveitarfélagið ekki, þá gildir 1 mánaða uppsagnarfrestur á leikskólaplássi.

 

c) Dvalarsamningur barna við leikskólann Álfastein vísað til næsta fundar

d) Inntökureglur barna við leikskólann á Álfasteini vísað til næsta fundar.

 

e) Möguleikar á samstarfi við Arnarneshrepp um leikskóla

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur rætt ítarlega um hvort möguleiki sé að koma að stofnun leikskóla í Þelamerkurskóla í samstarfi við Arnarneshrepp. Þar sem unnið er að endurskipulagningu leikskólans á Álfasteini sér sveitarstjórn Hörgárbyggðar sér ekki fært, að svo stöddu, að koma að stofnun annars leikskóla í sveitarfélaginu. En sveitarstjórn Hörgárbyggðar er að fullu samþykk því að Arnarneshreppur nýti það húsnæði, sem um hefur verið rætt, í Þelamerkurskóla til að setja á stofn leikskóla fyrir Arnarneshrepp.

 

3.  Skrifstofa  - kennslustofur – leikskóli, kostnaðaráætlun VST. Málinu vísað til næsta fundar.

 

4.  Fjárhagsáætlanir – sveitarfélagið, skólinn

 

a) Fjárhagsáætlun Hörgárbyggðar, lögð fram til fyrri umræðu.

 

b) Fjárhagsáætlun Þelamerkurskóla tekin til umræðu. Sveitarstjórn leggur til að kr. 220.000 verði færðar af viðhaldi skólastjórahúss yfir á viðhald íbúða óskilgreint. Einnig að viðhaldi íbúða verði forgangsraðað eftir þarfagreiningu. Áætluninni vísað til afgreiðslu á næsta fundi.

 

5.   Ýmis bréf og erindi sem borist hafa

a)      Bréf frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar dags. 2.1. 2003 um breytingar á starfsemi AFE. Lagt fram til kynningar. Ákveðið að fá Hólmar Svansson á fund með sveitarstjórn í byrjun febrúar.

b)      Bréf frá formönnum stéttarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu dags. 19. des. 2002 þar sem minnt er á ábyrgð sveitarfélaga að taka þátt í að tryggja lága verðbólgu og stöðugt efnahagslíf. Lagt fram til kynningar.

c)      Bréf frá Hrossaræktarfélaginu Framfara dags. 27. des. 2002 þar sem stjórn félagsins vil kanna hug sveitarstjórnar til þess að styrkja byggingu reiðhallar. Málinu frestað til næsta fundar.

d)      Bréf frá Minjasafninu á Akureyri, dags. 17. des. 02 um uppbyggingu ferðamannastaðar á Gásum. Undir bréfið skrifa Guðrún Kristinsdóttir safnstjóri og Kristín Sóley Björnsdóttir, f.h. Ferðamálaseturs Íslands og er hún kynningarstjóri Gásaverkefnisins. Óskað er eftir því að Hörgárbyggð komi að deiliskipulagi fyrir Gásasvæðið þar sem að það er forsenda þess að hægt sé að beina ferðamönnum að Gásum í meira mæli en hingað til. Hjál. fylgir skýrsla um framkvæmdir á Gásum. Sveitarstjórn mun óska eftir viðræðum við fulltrúa Minjasafnsins sem fyrst.

e)      Bréf frá skólastjóra Tónlistarskóla Eyjafjarðar, dags. 11. des. 02. Áætlun vegna hljóðfærakaupa og er meðfylgjandi tillaga að hljóðfærakaupum og verð. Málinu frestað til næsta fundar og fá fyrir þann fund nánari upplýsingar um hver áætlaður hlutur Hörgárbyggðar er.

f)      Ársskýrsla Náttúruverndarnefndar Eyjafjarðar vegna 2002 og fundargerðir nefndarinnar frá nóvember og desember 2002. Lögð fram til kynningar.

g)      Námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn, bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sveitarstjóra falið að ganga frá skráningu á námskeiðið

h)      Viðmiðunarreglur vegna úthlutun reiðvegafjár lagðar fram til kynningar. Sveitarstjórn tekur jákvætt í það að reiðvegir verði lagðir í Hörgárbyggð.

 

6.   Lögð fram endurskoðuð tillaga að innheimtureglum í Hörgárbyggð og voru þær staðfestar samhljóða í sveitarstjórn. Reglurnar eru eftirfarandi:

 

1.   Fasteignagjöld:

Greiðist ekki fasteignagjöld á tilteknum gjalddögum skal hefja innheimtuaðgerðir í desembermánuði álagningarárs.

2.   Húsaleiga:

Skuldi leigjandi tveggja mánaða húsaleigu skal senda honum skriflega áskorun um greiðslu. Sinni hann áskoruninni ekki innan eins mánaðar skal rifta leigusamningi sbr. ákvæði 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 og gera leigjanda að rýma húsnæðið svo fljótt sem verða má. Jafnframt skulu hafnar innheimtuaðgerðir vegna skuldarinnar.

3.   Almennar viðskiptakröfur

Sé skuldin orðin tveggja mánaða gömul og skuldari hefur ekki samið um greiðslu skal stöðva viðskipti við hann og hefja innheimtuaðgerðir. Ný úttekt er ekki heimil fyrr en gengið hefur verið frá greiðslu skuldarinnar.

4. Leikskólagjöld

Samanber reglugerð um dvalarsamning við leikskólann.

 

Innheimtuferill

o Upphaf innheimtaðgerða felst í útsendingu á ítrekunarbréfi þegar skuld er orðin tveggja mánaða gömul. Verði skuldi ekki greidd innan 10 daga frá dagsetningu ítrekunarbréfs verður send út aðvörun um lögfræðiinnheimtu eftir 10 daga.

o Dráttarvextir reiknast í skuld eftir eindaga og reiknast frá gjalddaga. Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga, eða næsta virkan dag eftir eindaga.

 

Samningar um gjaldfresti og afskriftir

1. Heimilt er að semja um greiðslu skulda. Verði ekki staðið við þá samninga þá verður öll skuldin gjaldfelld hvort sem vanskil verða á samningi eða áframhaldandi viðskiptum og verður hún send til lögfræðiinnheimtu.

2. Þegar nauðsyn krefur er heimilt að gefa eftir  kröfu eða hluta hennar. Eftirgjöf tekur til kostnaðar, dráttarvaxta og/eða höfuðstólskröfu.

3. Allar fjárhæðir skulu lagðar fyrir sveitarstjórn til samþykktar.

4. Halda skal sérstaka skrá um allar niðurfellingar og afskriftir. Skrá þessi skal bera með sér nafn og kennitölu skuldara, tegund kröfu og fjárhæð eftirgefinnar kröfu, ásamt skýringum fyrir ákvörðuninni.

5. Ávallt skulu tveir hið minnsta staðfesta áritun á nefnda skrá, ákvörðun um eftirgjöf.

 

7.   Þelamerkurskóli. Rekstarstjórnarfundur frá 15. jan. 2003. Þjónustusamningur við HA. Samþykkt að ganga frá þjónustusamningi við Háskólann á Akureyri málinu vísað til skólastjóra Þelamerkurskóla til úrvinnslu.

 

8.   Önnur mál

Eftirfarandi tillaga að launum sveitarstjórnar og nefndarfólks í Hörgárbyggð árið 2003 var samþykkt einróma og er hún eftirfarandi:

Oddviti: 40% af þingfararkaupi + akstur til 1. maí, eftir það 25% af þingfararkaupi auk aksturs.

Sveitarstjórnarfólk: 5% af þingfararkaupi á mánuði + 2% fyrir hvern fund + akstur

Nefndarfólk: 2% af þingfararkaupi + akstur

Nefndarformenn: 3% af þingfararkaupi + akstur, nema fjallskilastjóri 4% + akstur

Endurskoðendur: 4% af þingfararkaupi + akstur

Nefndir fá eingöngu greitt fyrir bókaða fundi.

 

9.   a) Undirbúningur undir fund með stjórn Sorpeyðingar Eyjafjarðar

      Fundurinn verður haldinn í Hlíðarbæ 22. janúar nk. kl. 20:00

      b) Umsókn v.lækkunar á leikskólagjöldum lögð fram. Málinu frestað til næsta fundar.

      c) Umsókn um að fá að reka gistiþjónustu í skólanum frá Ásbirni Á. Valgeirssyni og Hörpu Hrafnsdóttur. Málinu frestað til næsta fundar.

     

Tilboð hefur borist frá Rafeyri hf. um að setja upp ljósastaura í Hörgárbyggð og ef miðað er við að tveir staurar verði á hverri heimreið og að meðaltali sé þörf á 200 m löngum rafkapli, er kostnaður pr. býli u.þ.b. 210.000. Tilboðið var samþykkt en nánar verður unnið að útfærslu hvað varða perustærð og fl. Stefnt skal að því að verkinu ljúki á næstu þremur árum.

 

Þakkarbréf hafa borist vegna styrkveitinga, frá Björk Pétursdóttur fh. Gásaverkefnisins, frá Hlíðarskóla og frá Félagi hjartasjúklinga á Akureyri.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 01:15.