Fundargerð - 15. apríl 2013

Mánudaginn 15. apríl 2013 kl. 13:00 kom atvinnumálanefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn voru: Guðmundur Sturluson, Helgi Þór Helgason, Jón Þór Brynjarsson og Þórður R. Þórðarson nefndarmenn, svo og Skúli Gautason, menningar- og atvinnumálafulltrúi, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1.  Skýrsla um mögulega atvinnuuppbyggingu á Dysnessvæðinu

Á fundinn kom Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE), og gaf skýrslu um stöðu mála á mögulegri atvinnuuppbyggingu á Dysnessvæðinu.

 

2. Styrkveitingar

Auglýst var eftir umsóknum um styrki til eflingar atvinnulífs í sveitarfélaginu, sbr. samþykkt atvinnumálanefndar 14. nóvember 2012 í fréttabréfi sveitarfélagsins og á heimasíðu þess. Umsóknarfrestur var til og með 4. apríl 2013. Tvær umsóknir bárust, annars vegar frá Rúnari Gústafssyni vegna hákarlaverkunar á Hjalteyri og hins vegar frá Hjalteyri ehf. vegna vatnslagna í verksmiðjubyggingunum á Hjalteyri.

Atvinnumálanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að Hjalteyri ehf. og Rúnari Gústafssyni verði veittir styrkir til eflingar atvinnulífs í sveitarfélaginu að fjárhæð kr. 350.000 til hvors aðila.

Skúli Gautason vék af fundi við afgreiðslu málsins.

 

3. Útgáfa upplýsingabæklings fyrir ferðamenn

Gerð var grein fyrir undirbúningi sem hefur átt sér stað fyrir útgáfu upplýsingabæklings um þá þjónustu sem eru í boði í sveitarfélaginu fyrir ferðamenn.

Atvinnumálanefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að 400.000 kr. verði varið til að gefa út upplýsingabækling um þá þjónustu sem eru í boði í sveitarfélaginu fyrir ferðamenn.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 14:40.