Fundargerð - 14. ágúst 2014

Fimmtudaginn 14. ágúst 2014 kl. 16:00 kom atvinnu- og menningarnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Sveitarstjórn kaus á fundi sínum 18. júní 2014 eftirtalda í atvinnu- og menningarnefnd á yfirstandandi kjörtímabili: Jóhanna María Oddsdóttir, formaður, Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir, Bernharð Arnarson, Sigríður Guðmundsdóttir og Þórður Ragnar Þórðarson.

Fundarmenn voru ofantaldir fulltrúar í nefndinni, nema Sigríður Guðmundsdóttir, og auk þess Lárus Orri Sigurðsson, forstöðumaður, og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Erindisbréf atvinnu- og menningarnefndar, drög

Lögð fram drög að erindisbréfi nefndarinnar, þar sem um nýja nefnd er að ræða. Nefndinni er ætlað að taka við þeim verkefnum sem áður voru á hendi menningar- og tómstundanefndar annars vegar og atvinnumálanefndar hins vegar.

Atvinnu- og menningarnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi drög að erindisbréfi nefndarinnar verði samþykkt.

 

2. Íþróttamiðstöðin á Þelamörk, afgreiðslutímar

Rætt um breytingar á afgreiðslutíma Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk miðað við veturinn 2013-2014, til að lækka rekstrarkostnað hennar. Umræðurnar voru á grundvelli þeirra athugana sem ræddar voru á fundi menningar- og tómstundanefndar 9. apríl 2014.

Atvinnu- og menningarnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að afgreiðslutími Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk næsta vetur verði óbreyttur frá síðasta vetri, að því undanskildu að á laugardögum verði opið kl. 11-18 og á sunnudögum kl. 11-22:30.

 

3. Fjárhagsrammi 2014

Lögð fram tilkynning um fjárhagsramma nefndarinnar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 21. maí 2014. Einnig voru lögð fram drög að skiptingu fjárhagsrammans milli málaflokka og deilda.

Atvinnu- og menningarnefnd samþykkti framlögð drög að skiptingu á fjárhagsramma nefndarinnar.

 

4. Menningarmiðstöð Möðruvöllum

Lögð fram tvö bréf, annars vegar bréf dags. 27. maí 2014, frá Menningarráði Eyþings og hins vegar bréf dags. 10. júní 2014, frá Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands (EBÍ), um úthlutun styrkja til verkefnisins „Menningarmiðstöð að Möðruvöllum í Hörgárdal“.

Atvinnu- og menningarnefnd samþykkti að kannað verði með ráðningu aðila til að vinna að undirbúningi menningarmiðstöðvar á Möðruvöllum.

 

5. Staða atvinnumála

Rætt um stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu.

Atvinnu- og menningarnefnd samþykkti að óska eftir því að AFE vinni greinargerð um stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 18:05