Fundargerð - 13. apríl 2011

Miðvikudaginn 13. apríl 2011 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Ársreikningur sveitarsjóðs fyrir árið 2010, fyrri umræða

Lagður fram ársreikningur sveitarsjóðs fyrir árið 2010 ásamt endurskoðunarskýrslu. Skv. ársreikningnum urðu rekstrartekjur sveitarfélagsins alls 384,7 millj. kr. og rekstrargjöld 364,0 millj. kr. á árinu 2010. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 14,8 millj. kr. Heildarrekstrarniðurstaða sveitarfélagsins var því jákvæð um 5,9 millj. kr. Veltufé frá rekstri var 32,6 millj. kr. og handbært fé í árslok var 50,2 millj. kr. og jókst um 7,5 millj. kr. milli ára.

Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi, kom á fundinn, fór yfir ársreikninginn og svaraði fyrirspurnum um hann.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa ársreikningi sveitarsjóðs fyrir árið 2010 til síðari umræðu.

 

2. Fundargerðir stjórnar Hafnasamlags Norðurlands, 14. febrúar, 14. mars og 11. apríl 2011

Allar fundargerðirnar eru í átta liðum.

Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Fundargerðir samvinnunefndar um svæðisskipulag, 28. febrúar og 28. mars 2011

Fyrri fundargerðin er í fjórum liðum og sú síðari er í þremur liðum.

Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Fundargerð heilbrigðisnefndar, 9. mars 2011

Fundargerðin er í sautján liðum. Enginn þeirra varðar Hörgársveit með beinum hætti.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

5. Skútar/Moldhaugar, deiliskipulag

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Skúta og spildu úr landi Moldhauga, sem var auglýst 12. janúar 2011 skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 13. desember 2010 og ákvörðun sveitarstjórnar 15. desember 2010. Athugasemdir bárust frá Sigríði Þ. Mahon o.fl., Jóni Björgvinssyni og Vegagerðinni.

Sveitarstjórn samþykkti, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar frá 6. apríl 2011, fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Skúta og spildu úr land Moldhauga, að gerðum eftirfarandi breytingum á henni:

· Vestari aðkoma að deiliskipulagssvæðinu falli niður

· Í skilmála deiliskipulagsins komi eftirfarandi setning: “Framkvæmdaaðili skal sjá um hönnun og lagfæringar á tengingu aðkomu við Hringveginn í samráði við Vegagerðina. Tengingin skal fela í sér að bifreiðar á leið norður og beygja til vinstri hindri ekki aðra umferð.”

· Áréttað verði í skilmálum deiliskipulagsins að “Samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra” gildi í hvívetna á deiliskipulagssvæðinu

· Í skilmálum deiliskipulagsins verði kvaðir um að hefðbundin slepping búfjár verði heimil frá deiliskipulagssvæðinu og að búfé komist um svæðið frá afrétt að Þórustaðarétt

· Deiliskipulagssvæðið stækki sem samsvarar núverandi svæði undir Þórustaðarétt, sem þannig fái þar skilgreinda lóð

· Tilvísun í fornleifaskrá verði leiðrétt

· Vegur meðfram girðingu á jarðamörkum sunnan og vestan námusvæðis, að undanskildum vegi að fyrirhuguðum byggingarreit á Skútatúni, falli niður af deiliskipulagsuppdrættinum.

Ennfremur samþykkti sveitarstjórn tillögur skipulags- og umhverfisnefndar að afgreiðslu á framkomnum formlegum athugasemdum við deiliskipulagstillöguna.

 

6. Hlíðarfjall, niðurfelling deiliskipulags

Lagt fram bréf, dags. 4. mars 2011, frá Akureyrarbæ þar sem óskað er eftir samþykki sveitarstjórnar á framkominni tillögu um niðurfellingu deiliskipulags svifbrautar í Hlíðarfjalli sem er frá 2001. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 6. apríl 2011 að leggja til við sveitarstjórn að samþykkt verði af hálfu Hörgársveitar að orðið yrði við þessari ósk.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að gildandi deiliskipulag vegna svifbrautar í Hlíðarfjalli falli niður.

 

7. Eyrarvík, grenndarkynning

Lögð fram afstöðumynd, dags. 16. febrúar 2011, vegna byggingar íbúðarhúss á lóð með landnúmer 187948 í Eyrarvík. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 6. apríl 2011 að leggja til við sveitarstjórn að fram fari grenndarkynning vegna byggingarinnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn samþykkti að fram fari grenndarkynning vegna byggingar á íbúðarhúsi á lóð með landnúmer 187948 í Eyrarvík.

 

8. Neðri-Rauðilækur, efnistaka

Lagt fram tölvubréf, dags. 1. apríl 2011, frá landeigendum á Neðri-Rauðalæk með ósk um framlengingu á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku, sem gefið var út 20. febrúar 2008 og rann út 19. febrúar 2011, þar aðeins hafi verið tekið um helmingur þess efnismagns sem leyfið gerði ráð fyrir. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 6. apríl 2011 að leggja til við sveitarstjórn að orðið verði við erindinu, jafnframt að ekki verði um frekari framlengingu að ræða á framkvæmdaleyfinu.

Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Neðri-Rauðalækjar, sem gefið var út 20. febrúar 2008, gildi til 19. febrúar 2012, önnur ákvæði þess verði óbreytt og að ekki verði um frekari framlengingu að ræða á því.

 

9. Laugaland, gerð deiliskipulags

Lögð fram drög að lýsingu á fyrirhuguðu deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í landi Laugalands, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 6. apríl 2011 að leggja til við sveitarstjórn að lýsingin verði samþykkt.

Sveitarstjórn samþykkti fyrirliggjandi lýsingu á deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í landi Laugalands og að hún verði kynnt, sbr. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar.

 

10. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 6. apríl 2011

Fundargerðin er í átta liðum. Fimm þeirra voru til afgreiðslu í dagskrárliðum 5-9 í þessari fundargerð. Aðrir liðir fundargerðarinnar varða tvær umsagnir, um drög að matsáætlun umhverfismats á efnistöku í landi Skúta/Moldhauga og um tillögu að deiliskipulagi Hlíðarfjalls og tilkynningu um fyrirhugaða lýsingu á deiliskipulagsverkefni á Dysnesi.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur skipulags- og umhverfisnefndar um afgreiðslur á umbeðnum umsögnum um drög að matsáætlun umhverfismats á efnistöku í landi Skúta/Moldhauga og um tillögu að deiliskipulagi Hlíðarfjalls, svo og um afgreiðslu á tilkynningu um fyrirhugaða lýsingu á deiliskipulagsverkefni á Dysnesi.

 

11. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 11. apríl 2011

Fundargerðin er í þremur liðum, um gjaldskrá félagsheimila, um viðhald félagsheimila og um verkefni menningar- og atvinnumálafulltrúa. Lögð fram drög að nýrri gjaldskrá félagsheimila, sbr. samþykkt menningar- og tómstundanefndar þar um.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu menningar- og tómstundanefndar um gjaldskrá félagsheimila og tillögu nefndarinnar um viðhaldsmál félagsheimila.

 

12. Þelamerkurskóli, útboð skólaaksturs

Lagðar fram niðurstöður útboðs á skólaakstri í Þelamerkurskóla fyrir skólaárin 2011-2012 og 2012-2013. Þá var lagt fram bréf frá Klængi Stefánssyni, þar sem hann dregur til baka tilboð sín í skólaakstur á leiðum 2 og 3.

Sveitarstjórn samþykkti að gengið verði til samninga við FAB Travel ehf. um skólaakstur á leiðum 1 og 3, við SBA-Norðurleið hf. um skólaakstur á leið 2,  við Sigurð B. Gíslason á skólaakstur á leið 4 og Hópferðabíla Akureyrar ehf. á leið 5, á grundvelli fyrirliggjandi tilboða frá viðkomandi aðilum.

 

13. Syðri-Bakki, verðmat

Tekið fyrir að nýju tölvubréf, dags. 21. febrúar 2011, frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þar sem brugðist er við samþykkt sveitarstjórnar frá 17. nóvember 2010 um verðmat Syðri-Bakka. Afgreiðslu málsins var frestað að síðasta fundi sveitarstjórnar, sjá 6. lið fundargerðar 9. mars 2011.

Sveitarstjórn samþykkti að á grundvelli fyrirliggjandi verðmats fram fari viðræður við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið um kaup á svonefndri Dysnes-spildu úr landi Syðri-Bakka og veitti hún sveitarstjóra umboð til að undirrita kaupsamning og önnur nauðsynleg skjöl vegna málsins, leiði viðræðurnar til niðurstöðu.

 

14. Berghóll II, kauptilboð

Lagt fram bréf, dags. 29. mars 2011, frá Stellu Sverrisdóttur þar sem hún býður sveitarfélaginu íbúðir hennar í Berghóli II til kaups. Fram kom á fundinum að gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir að húsið verði flutt til að koma fyrir nýju vegstæði.

Sveitarstjórn samþykkti að á grundvelli bréfs Stellu Sverrisdóttur fram fari viðræður um kaup á eignarhlut hennar í Berghóli II og veitti hún sveitarstjóra umboð til að undirrita kaupsamning og önnur nauðsynleg skjöl vegna málsins, leiði viðræðurnar til niðurstöðu. Jafnframt samþykkti sveitarstjórn að viðræður fari fram við Vegagerðina um aðild hennar að málinu.

 

15. Framkvæmdir sumarið 2011

Lagt fram til kynningar minnisblað um um helstu fyrirhugaðar framkvæmdir sumarsins 2011 hjá sveitarfélaginu.

 

16. Vinnuskóli sumarið 2011

Lagt fram til kynningar minnisblað um rekstur vinnuskóla sumarið 2011.

 

17. Húsafriðunarnefnd, styrkveiting

Lagt fram bréf, dags. 15. mars 2011, frá Húsafriðunarnefnd þar sem greint er frá styrk að fjárhæð kr. 350.000 til byggða- og húsakönnunar á Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti að unnin verði forkönnun vegna byggða- og húsakönnunar á Hjalteyri.

 

18. Kornþurrkun Eyjafjarðar ehf., niðurrif turns

Lagt fram bréf, dags. 31. mars 2011, frá Kornþurrkun Eyjafjarðar ehf. þar sem óskað er eftir leyfi sveitarfélagsins til að fella turn sem er við húsnæði félagsins á Hjalteyri og að sveitarfélagið standi straum af kostnaði við verkið.

Sveitarstjórn samþykkti að heimila fyrir sitt leyti að turn sem er áfastur húsnæði Kornþurrkunar Eyjafjarðar ehf. verði brotinn niður, en hafnaði því að taka þátt í kostnaði við verkið.

 

19. Minjasafnið á Akureyri, þjónustusamningur

Lögð fram drög að þjónustusamningi Hörgársveitar og Minjasafnsins á Akureyri fyrir árið 2011, sem felur í sér endurnýjun slíkra samninga sem gerðir voru fyrir árin 2009 og 2010.

Sveitarstjórn samþykkti fyrirliggjandi drög að þjónustusamningi Hörgársveitar og Minjasafnsins á Akureyri fyrir árið 2011.

 

20. Hafnasamlag Norðurlands, aðalfundarboð

Lagt fram aðalfundarboð Hafnasamlags Norðurlands bs. Aðalfundurinn verður haldinn 18. maí 2011.

Sveitarstjórn samþykkti að Hanna Rósa Sveinsdóttir fari með umboð Hörgársveitar á aðalfundi Hafnasamlags Norðurlands bs. 18. maí 2011, Axel Grettisson til vara.

 

21. Menntaskólinn á Tröllaskaga, kostnaðarskipting

Lagt fram til kynningar afrit af bréfi, dags. 30. mars 2011, frá Fjallabyggð til Akureyrarbæjar um skiptingu stofnkostnaðar við Menntaskólann á Tröllaskaga.

 

22. Samstarf um úrgangsmál á Norðurlandi

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 11. mars 2011, frá Flokkun Eyjafjörður ehf. þar sem gerð er grein fyrir óformlegum viðræðum um mögulegt samstarf sveitarfélaga á Norðurlandi um úrgangsmál.

 

23. Lónsá, umsögn um umsókn um rekstrarleyfi

Lagt fram bréf, dags. 9. mars 2011, frá Sýslumanninum á Akureyri þar sem óskað er eftir umsögn um umsókn um rekstrarleyfi skv. gististaðaflokki II fyrir Lónsá ehf.

Sveitarstjórn samþykkti að hennar hálfu verði ekki gerð athugasemd við útgáfu rekstrarleyfis II fyrir Lónsá.

 

24. Specialisterne á Íslandi, stofnfjárkaup

Lagt fram bréf, dags. í mars 2011, frá Specialisterne á Íslandi þar sem sveitarfélaginu býst að gerast stofnfjáraðili að samtökunum með fjárframlagi sem nemur 50 krónum á íbúa.

Sveitarstjórn samþykkti að sveitarfélagið gerist ekki stofnfjáraðili að Specialisterne á Íslandi að svo stöddu.

 

25. Þórustaðarétt, rekstur

Lagt fram tölvubréf, dags. 11. apríl 2011, frá Jóni Björgvinssyni um Þórustaðarétt. Þar er lögð áhersla á að réttin verði áfram aðalskilarétt Glæsibæjardeildar, sveitarfélagið taki alfarið að sér viðhald réttarinnar, að tryggt að greið leið sé að henni á réttardögum og upprekstur upp af réttinni geti farið fram.

Sveitarstjórn fól sveitarstjóra að svara bréfritara í samræmi við umræður á fundinum.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 00:30.