Fundargerð - 12. nóvember 2007

Mánudaginn 12. nóvember 2007 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

Á fundinum voru: Oddur Gunnarsson, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

 

1. Lækjarvellir, breyting á deiliskipulagi

Lögð fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi fyrir athafna-, verslunar- og þjónustusvæði við Lækjarvelli. Tillagan er til komin vegna þess að koma þarf  framræsluskurði á milli lóða og því þarf að breyta stærðum þriggja lóða, þ.e. Lækjarvalla 3, 5, og 7. Grenndarkynning hefur farið fram á tillögunni, þ.e. hún hefur verið kynnt þeim sem hafa fengið úthlutun á lóð við Lækjarvelli. Á fundinum var lögð fram yfirlýsing um að þeir hafi kynnt sér breytingartillöguna og geri ekki athugasemd við hana.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að vísa fyrirliggjandi tillögunni til sveitarstjórnar með það fyrir augum að hún fái afgreiðslu í samræmi við grein 7.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 m.s.br.

 

2. Skógarhlíð 14, teikni- og framkvæmdafrestur

Lagt fram bréf frá Þresti Sigurðssyni, fyrir hönd AJ Byggis ehf., dags. 9. nóv. 2007 þar sem óskað er eftir teikni- og framkvæmdafresti til 1. maí 2008 vegna Skógarhlíðar 14.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að veita umbeðinn frest.

Nefndin tók ekki önnur atriði bréfsins til efnislegrar afgreiðslu, þ.e. um húsgerð og staðsetningu hússins á lóðinni.

 

3. Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð

Farið yfir verkefnalista Staðardagskrár 21 fyrir Hörgárbyggð. Nokkur verkefni eru í vinnslu og öðrum lokið.

Nefndin leggur til að á næsta ári verði efnt til hreinsunarátaks í sveitarfélaginu, sem m.a. miðast við að fjarlægja ónýta bíla og búvélar af jörðum og víðar. Í framhaldi af því verði stofnuð hvatningarverðlaun fyrir góða umgengni.

Nefndin mælir með því að hugað verði að skráningu sagna úr sveitarfélaginu og endurskoðun örnefnaskrár þess.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 21:30.