Fundargerð - 12. ágúst 2011

Föstudaginn 12. ágúst 2011 kl. 20:00 kom fjallskilanefnd Hörgársveitar saman til fundar á Staðarbakka. Mættir eru til fundarins: Aðalsteinn H Hreinsson, Jósavin Gunnarsson, Stefán L Karlsson, Helgi Steinsson og Guðmundur Skúlason.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1.    Að höfðu samráði við fjallskilastjóra nágrannasveitarfélaga ákveður fjallskilanefnd að fresta göngum í Glæsibæjar-, Öxnadals- og Skriðudeild niður að Syðri-Tunguá um viku frá fyrri ákvörðun nefndarinnar, sem tekin var á fundi þann 22. júní sl. 1. göngur verða því þar frá miðvikudeginum 14. september til sunnudagsins 18. september og seinni göngur viku síðar. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þess að heyskapur er mun seinni en verið hefur undanfarin ár og einnig verða yfirborganir sláturleyfishafa þær sömu í vikum 37 og 38, en gert var ráð fyrir verulegum mun milli þessara vikna í fyrri ákvörðun nefndarinnar. Í Arnarnesdeild og Skriðudeild fram að Syðri-Tunguá gildir ákvörðun nefndarinnar frá 22. júní sl. að því undanskildu að seinni göngur á Tungudölum fylgja fremri svæðunum, þar verður því hálfur mánuður milli gangna.

 

2.    Borist hafa beiðnir frá eigendum sauðfjár á jörðunum: Árhvammi, Bitru og Bitrugerði um að vera undanþegnir fjallskilum í haust, þar sem þeir hafi haft allt sitt sauðfé í fjárheldum girðingum sumarlangt. Fjallskilanefnd samþykkir beiðnirnar. Alls eru þetta 79 kindur, sem ekki koma til álagningar fjallskila á þessum þremur jörðum.

 

3.    Álagning fjallskila í sveitarfélaginu. Heildarfjöldi gangnadagsverka í Hörgársveit er 467. Alls eru 7.088 kindur í sveitarfélaginu samkvæmt síðustu forðagæsluskýrslu. Fjárfjöldi sem dagsverkum er jafnað niður á í sveitarfélaginu eru 7.009 kindur, 79 kindur koma ekki til útreiknings fjallskila sem voru innan girðingar, samanber 2. lið fundargerðarinnar Að jafnaði eru flestar kindur í dagsverki í Glæsibæjardeild 25,1, í Öxnadalsdeild eru þær 19,1, í Arnarnesdeild 16,9 og fæstar eru þær í Skriðudeild 14,1 kind. Á einstökum gangnasvæðum eru flestar kindur í dagsverki á Ytri-Bægisárdal 28,7 en fæstar á Myrkárdal 11,5 kind. Hörgársveit mun kosta 39 dagsverk og Akrahreppur 21 á eyðilendum þar sem enginn sleppir. Fjallskilaboð verða send sauðfjáreigendum og þau munu líka verða aðgengileg á heimasíðu Hörgársveitar.

 

4.    Rætt var um flutning úrtínings á komandi hausti. Ákveðið að hafa hann með svipuðu sniði og verið hefur síðustu haust, það er að dregið skuli upp á hverri auka- og heimarétt í sveitarfélaginu og ber réttarstjórum að tilkynna um aðkomufé til eiganda innan Hörgársveitar, sem ber þá að sækja sitt fé. Sé um utansveitarfé að ræða skal tilkynna það til eiganda eða fjallskilastjóra viðkomandi fjallskiladeildar í Hörgársveit. Samið verði við ákveðna menn, um að sækja fé úr Hörgársveit, sem kemur fyrir í skilaréttum í nágranna sveitarfélögum. Kostnaður við það greiðist úr sveitarsjóði eins og verið hefur, nema í Arnarnesdeild þar sem úrtíningsflutningur er lagður á sem gangnadagsverk.

 

5.    Ákveðið að senda út með fjallskilaboði aðvörun er varðar búfjársjúkdóma, eins og undanfarin haust.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 23:12.