Fundargerð - 09. apríl 2003

Miðvikudaginn 9. apríl 2003 kl. 20:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar að Melum.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson, ásamt Helgu A. Erlingsdóttur. Engir áheyrnarfulltrúa voru mættir.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Oddviti lagði til að eftirfarandi væri bætt á dagskrá undir 4. lið: c. Tilnefning úttektarmanna fyrir sveitarfélagið. d. Kjörstaður fyrir Alþingiskosningar. e. Uppsögn skólastjóra. Samþykkt að bæta við umræddum atriðum. Oddviti leitaði samþykkis fundarins um að fundargerð sveitarstjórnarfundar verði rituð beint inn í tölvu skv. 23. gr. sveitarstjórnarlaga. Erindið var samþykkt einróma.

 

Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir.

 

1. Fundargerðir

 

a. Fundargerð sveitarstjórnar frá 17. mars var staðfest með þeirri breytingu í 2. mgr. um íþróttahús að ÞMS greiði leigu fyrir afnot af íþróttahúsinu að gerðu samkomulagi aðila. Fundargerð frá 19. mars, þar var samþykkt breyting á 4. lið m, þ.e. að kosnir voru í stjórn Sparisjóðs Norðlendinga, til fjögurra ára, þeir Oddur Gunnarsson sem aðalmaður og Gunnar Haukur Gunnarsson sem varamaður. Einnig að oddviti eða sveitarstjóri fari með umboð sveitarfélagsins á aðalfundinum. Liður 9, Samtún, er breytt á þann veg að í stað fyrri bókunar kemur: lagt var fram til kynningar verðmat Ólafs Vagnssonar, frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, á jörðinni Mið-Samtún þ.e. allt land ofan markalínu ásamt öllum byggingum. Fundargerðin var síðan samþykkt. Fundargerð frá 27. mars var breytt þannig að Skagfirðingar gangi Seldalinn og rétti féð í Gilsrétt með Öxndælum og féð færi vestur fyrir heiði á föstudeginum fyrir aðalgöngur í Hörgárbyggð. Fundargerðin síðan samþykkt samhljóða.

 

b. Fundargerð húsnefndar frá 30. mars 2003. Samþykkt að Hörgárbyggð greiði fyrir ræstingu í félagsheimilunum sem félögin annast og greiði það sem styrk til félagsstarfsemi í Hörgárbyggð. Fundargerðin síðan afgreidd án athugasemda.

 

c. Fundargerðir skipulagsnefndar frá 27. mars og 2. apríl 2003

Undir liðnum 2 í fundargerð frá 2. apríl vék Klængur af fundi á meðan fjallað var um umsóknir um byggingarlóðirnar í Skógarhlíð. Samþykkt var með þremur atkvæðum að ræða fyrst við Byggingarfélagið Kötlu. Ef ekki tækjust samningar þá verði næst rætt við Harald Helgason og Hara ehf.

Sveitarstjóra og oddvita falið að vinna ásamt skipulagsnefnd að málefni frístundahúss í landi Tréstaða og vísa því til Skipulagsstofnunar hf., þ.e. hvort þurfi að framkvæma deiliskipulag eða ekki.

Undir lið 3. í fundargerð er 2. apríl var lagt til að sveitarstjórn samþykki eftirfarandi bókun:

Farið verði í formlegar viðræður við landeigendur Bitrugerðis um hvort jörðin, að hluta eða í heild sinni, fæst keypt. Samþykkt að fela oddvita og sveitarstjóra að ræða við landeigendur f.h. sveitarfélagsins. Bókunin var samþykkt samhljóða. Fundargerðirnar voru síðan samþykktar samhljóða.

 

d. Fundargerðir þjónustuhóps aldraðra frá 26. febrúar og 26. mars 2003, lagðar fram til kynningar.

e. Fundargerðir Minjasafnsins frá 24. febrúar og 3. mars, lagðar fram til kynningar.

f. Fundargerðir héraðsráðs frá 8. janúar og 19. mars 2003, lagðar fram til kynningar.

g. Fundargerð skólanefndar frá 8. apríl 2003, lögð fram til kynningar og vísað til næsta fundar til afgreiðslu.

 

2. Söfn og safnamál

 

Á fundinn mættu Valtýr Sigurbjarnarson framkvæmdastjóri Héraðsnefndar Eyjafjarðar, Guðrún Kristinsdóttir forstöðumaður Minjasafnsins og Gerður Jónsdóttir. Valtýr fór yfir forsögu málsins vegna skýrslu um söfn og sýningar í Eyjafirði og fl. Fram kom að kauptilboð hefur borist í Hraun í Öxnadal og sá aðili hefur hug á að þar yrði rekið fræðasetur og ferðamannastaður. Ármann spurði hvort slíkt stæði undir sér fjárhagslega og var það talið ólíklegt. Minjasafnið gæti komið að slíku fræðasetri með því að leggja til þekkingu og muni til sýninga. Fram kom að mikill styrkur væri að því að safna eða fræðasetur verði sett á stofn á Hrauni það yki á þá safnaflóru sem væri fyrir í Eyjafirði og væri jákvætt fyrir allt svæðið. Í sumar er fyrirhugað að vera með miðaldamessu á Gásum og sýna miðalda handbragð. Einnig er fyrirhuguð dags gönguferð í sumar um fornminjasvæðið á Gásum til Skipalóns.

 

3. Styrkbeiðnir og kynningar

 

a. Megin stoð, blað MS félags Íslands, hafnað

b. Skinfaxi, blað Ungmennafélags Íslands, hafnað

c. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, hafnað

d. Smellur, Ísland án eiturlyfja og Foreldrahúsið, hafnað.

e. Skólavarðan, blað KÍ, hafnað

f. Sumarbúðir RÍ. Kynning á sumarbúðum RÍ á Löngumýri í Skagafirði, lagt fram til kynningar.

 

4. Erindi

 

a. Alþingi, frumvörp. Landbúnaðarnefnd Alþingis hefur sent til umsagnar frumvörp til ábúðarlaga, 651. mál og til jarðalaga, 652. mál. Lagt var til að sveitarstjórnarmenn færu yfir málið og kæmu athugasemdum til sveitarstjóra fyrir 24. apríl ef þurfa þætti.

 

b. Endurgreiðsla VSK. Lagt var áfram til kynningar bréf frá Gunnlaugi Júlíussyni hjá Hagdeild Sambands íslenskra sveitarfélaga ásamt svari til Sambandsins frá ríkisskattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga vegna holræsahreinsunar. Sveitarstjóra falið að finna þær nótur sem málið varðar og fá endurgreiddan VSK.

 

c. Tilnefning úttektarmanna fyrir sveitarfélagið. Samþykkt að skipa Garðar Steinsson sem aðalmann og til vara þá Guðmund Víkingsson og Hermann Harðarson.

 

d. Kjörstaður fyrir Alþingiskosningar. Samþykkt að Hlíðarbær verði kjörstaður fyrir Alþingiskosningar.

 

e. Uppsögn skólastjóra. Helgi las upp uppsagnarbréf Karls Erlendssonar þar sem hann hefur verið ráðinn skólastjóri Brekkuskóla frá og með 1. ágúst 2003. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar óskar Karli alls hins besta í nýju starfi og þakkar honum gott og farsælt samstarf á liðnum árum.

 

5. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar – breytingar, Markaðsskrifstofa Norðurlands

Bréf frá Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar þar sem það óskar eftir afstöðu sveitarfélagsins til tillagna um breytingar á AFE. Jafnframt er lagt fram erindi um Markaðsskrifstofu Norðurlands. Hlutverk hennar er áætlað að samræma kynningar og markaðssetningu ferðaþjónustunnar á öllu Norðurlandi. Sveitarstjórn samþykkti að vera með að því gefnu að þorri sveitarfélaga á svæðinu taki þátt.

 

6. Umfjöllun um nefndir og nefndarstörf

Ákveðið að kalla saman jafnréttisnefnd og fara yfir jafnréttismál. Samþykkt var að senda öllum nefndum erindisbréf svo að þær viti hvert hlutverk þeirra er. Samþykkt að oddvitar sveitarfélaganna fundi með skólanefndinni vegna ráðningar á nýjum skólastjóra og í framhaldi af þeim fundi verði ákveðið hvort fulltrúar sveitarfélaganna verði viðstaddir þegar umsækjendur verði teknir í viðtal.

 

7. Fjármál (lokaðar umræður)

 . . . . . . .

 

 

Fleira ekki gert eða bókað. Fundi slitið kl. 01:15.