Fundargerð - 09. ágúst 2004

Mánudagskvöldið 9. ágúst 2004 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka, mættir Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson og Stefán L Karlsson.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1.      Fundargerð síðasta fundar undirrituð.

 

2.      Eftir að haft hefur verið samráð við þá, sem sleppa fé vestan megin  í Öxnadal samþykkir fjallskilanefnd að 1. göngur á öllum vestur-kjálka Öxnadals verði á föstudegi í stað laugardags. Gildir þetta til reynslu í eitt ár.

 

3.      Ákveðið að 1. göngum verði flýtt í Glæsibæjardeild, á Syðri-Bægisárdal og neðri hluta Skriðudeildar fram í Sörlatungu, verða þær gengnar laugardaginn 11. september, nema í Sörlatungu verður gengið sunnudaginn 12. september. Önnur svæði verða gengin á réttum tíma í 22. viku sumars. Fremri hluti Skriðudeildar frá miðvikudegi 15. til sunnudagsins 19. september. Í Öxnadal verður gengið föstudaginn 17. og laugardaginn 18. og réttað í Þverárrétt sunnudaginn 19. september.

 

4.      Vegna breytingar sem gerð var haustið 2003 á mörkum gangnasvæða Vatnsdals- og Seldalsgangnasvæða til reynslu í eitt ár, hefur verið haft samband við þá sem málið varðar og telja þeir að þessi breyting hafi verið til bóta; þessi breyttu mörk gangnasvæðanna verða  því í gildi þar til annað verður ákveðið.

 

5.      Rætt var um flutning úrtínings á komandi hausti. Beiðni hefur komið frá Gunnari í Búðarnesi um að sveitarfélagið greiði fyrir flutning á úrtíningi úr Skjaldarstaðarétt að Þverárrétt. Samþykkt að greitt verði fyrir þetta eitt dagsverk, en í staðinn verði bara greitt eitt dagsverk á milli Staðarbakkaréttar og Þverárréttar í stað tveggja áður. Annar flutningur úrtínings verður með sama sniði og 2003. Fyrir skil um Hörgárdal verður greitt eitt dagsverk. Úr Reistarárrétt verður greitt eitt dagsverk. Úr Gilsrétt í Þverárrétt verður greitt eitt dagsverk. Um Þelamörk í Þórustaðarétt verður greitt eitt dagsverk. Úr Akureyrarrétt í Þórustaðarétt verða greidd tvö dagsverk.

 

6.      Varðandi lið 8 í fundargerð fjallskilanefndar frá 30. júlí 2004, vísar nefndin því til sveitarstjórnar, að hún taki um það ákvörðun hvort bann við lausagöngu hrossa, sem í gildi var í Glæsibæjarhreppi fyrir sameiningu hreppanna, sé í gildi enn eða hvort það skuli fellt úr gildi.

  

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 23:00.