Fundargerð - 08. febrúar 2007

Fimmtudaginn 8. febrúar 2007 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

Á fundinum voru: Oddur Gunnarsson, formaður, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

 

1. Atvinnusvæði við vegamót Blómsturvallavegar

Lagt fram bréf, dags. 1. febrúar 2007, frá Skipulagsstofnun, sem er svar við bréfi Hörgárbyggðar þar sem spurst var fyrir um rétta málsmeðferð við skipulag atvinnusvæðisins við vegamót Blómstursvallavegar. Þar kemur fram að nauðsynlegt er að breyta svæðisskipulagi Eyjafjarðar 1998-2018 og að leita þarf álits hjá landbúnaðarráðuneytinu um hvort leysa þurfi svæði undan landbúnaðarnotkun vegna breytinga á afmörkun athafnasvæðisins í svæðisskipulaginu.

Benedikt Björnsson hefur tekið að sér að gera tillögu að breyttu svæðisskipulagi á þessu svæði. Lögð fram drög að skýringartexta tillögunnar. Nefndin samþykkti fyrir sitt skýringartextann og önnur framlögð gögn um breytinguna og vísar vinnslu henni til sveitarstjórnar.

Lögð fram hugmynd frá Yngva Þór Loftssyni, arkitekt, um deiliskipulag atvinnusvæðisins. Nefndinni leyst vel á hugmyndina og óskar eftir að áfram verði unnið að henni.

Rætt um heiti á þá götu sem hugmynd að deiliskipulagi gerir ráð fyrir á svæðinu. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að götuheitið hafi endinguna á –tún og gatan heiti þá t.d. Samtún eða Neðstatún.

 

2. Samstarf við Akureyrarbæ í skipulagsmálum

Lögð fram tvö bréf, dags. 31. janúar 2007, frá skipulagsdeild Akureyrarbæjar þar sem m.a er svarað tillögu sem sett var fram á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Hörgárbyggðar 8. nóvember 2006 um samstarfshóp Hörgárbyggðar og Akureyrarbæjar í skipulagsmálum.

Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar hefur samþykkt tillöguna og hefur tilnefnt þrjá fulltrúa í samstarfshópinn. Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar leggur til að fulltrúar Hörgárbyggðar í samstarfshópnum verði Oddur Gunnarsson, Aðalheiður Eiríksdóttir og Birna Jóhannesdóttir.

 

3. Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð

Á fundinn var komin Ragnhildur H. Jónsdóttir frá Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 á Íslandi. Farið var yfir stöðu Staðardagskrár 21 fyrir Hörgárbyggð, sem sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkti 10. maí 2006.

Ragnhildur tók að sér að gera tillögu að kynningu á Staðardagskránni og hvernig einstökum verkefnum, sem eru næst á dagskránni, verði komið í verk.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 22:10.