Fundargerð - 08. apríl 2008

Þriðjudaginn 8. apríl 2008 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

Á fundinum voru: Oddur Gunnarsson, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

 

1. Skútar/Moldhaugar, umsókn um námurannsóknaleyfi, leyfi fyrir afleggjara og vegi eftir girðingarstæði

Lagt fram tölvubréf frá Þór Konráðssyni, dags. 27. mars 2008, þar sem hann óskar eftir leyfi til að opna gamla grjótnámu í landi Moldhauga og leyfi til tilraunasprenginga og prufuborana þar. Einnig er óskað eftir leyfi til að leggja afleggjara frá Moldhaugahálsi vestur að Skútum. Loks er óskað eftir leyfi fyrir veg eftir girðingarstæði upp að Litla-Hnjúk. Á fundinum lá fyrir yfirlýsing landeiganda Moldhauga, dags. 19. mars 2008, um leyfi hans fyrir afleggjara og námuvinnslu á því svæði sem um ræðir.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að veitt verði umbeðið leyfi til tilraunasprenginga og prufuborana í gamalli grjótnámu í landi Moldhauga. Nefndin bendir á að leyfi Vegagerðarinnar er forsenda fyrir því að afstaða sé tekin til lagningar afleggjara af þjóðvegi. Nefndin samþykkir ekki veg að Litla-Hnjúk að svo stöddu, þar sem ekki liggur fyrir hvernig slíkur vegur á að vera og að samþykki náttúruverndarnefndar verður að liggja fyrir.

Nefndin telur að vanda þurfi skilmála fyrir umgengni á svæðinu og áréttar að sveitarfélagið setji alla viðeigandi skipulagsskilmála fyrir svæðið, ef til kemur. Þá bendir nefndin á að gæta þarf þess að fjallgirðing rofni ekki þannig að búfé komist á þjóðveginn og að huga þurfi að nýrri aðkomu að Þórustaðarétt eða að hún verði færð um set.

 

2. Umhverfisátak 2008

Rætt um fyrirkomulag á fyrirhuguðu umhverfisátaki sem sveitarstjórn hefur ákveðið á grundvelli samþykktar skipulags- og umhverfisnefndar frá 12. nóv. sl. um hreinsunarátak. Hluti átaksins verður veiting viðurkenninga fyrir góða umgengni og var ákveðið að  skipulags- og umhverfisnefnd hafi umsjón með þeim hluta átaksins, með liðsinni utanaðkomandi aðila. Óskað verður eftir tilnefningum vegna viðurkenninganna fyrir miðjan ágúst nk.

 

3. Ársfundur Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga 2008

Lagt fram bréf frá Umhverfisstofnun, dags. 31. mars 2008, um lögbundinn ársfund stofnunarinnar með náttúruverndarnefndum sveitarfélaga 2008, sem verður á Egilsstöðum 8. maí nk.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að sveitarstjóri sæki fundinn fyrir hönd Hörgárbyggðar.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 21:10.