Fundargerð - 06. febrúar 2003

Aukafundur haldinn á Melum með fulltrúum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, með þeim Hólmari Svanssyni og Jón Birgi Guðmundssyni, fimmtudagskvöldið 6. febrúar 2003 kl. 20:00. Allir sveitarstjórnarmenn voru mættir, ásamt sveitarstjóra.

 

Fram kom að þó nokkur breyting hefur orðið á starfsemi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar með tilkomu Nýsköpunarmiðstöðvar sem tók til starfa í desember 2002 og er áætlað að sú starfsemi verði til a.m.k. næstu þriggja ára.

Starfsmönnum hefur fækkað niður í tvo og helstu viðskiptavinir Atvinnuþróunarfélagsins verða fyrirtæki í sóknarhug og svo nærliggjandi sveitarfélög.

Þeir nefndu sem dæmi um þeirra starfsvettvang að undanfarna tvo daga hafi þeir verið að kynna Japönum þær verksmiðjulóðir sem í boði væru hér á svæðinu. Einnig að af þeirra frumkvæði kæmi Grænlandsflug til með að millilenda, á leið sinni til Danmerkur, tvisvar í viku á Akureyri frá og eð 28. apríl nk.

 

Starfshópur var skipaður, af bæjarstjórn Akureyrar, eftir síðustu kosningar til að vinna hugmyndir að atvinnuuppbyggingu á Eyjafjarðarsvæðinu og skilaði hópurinn af sér á Þorláksmessu. Bæjarstjórn tók síðan málið fyrir í bæjarstjórn 9. janúar 2003 og var bæjarstjóra falið að vinna að frekari útfærslu á þeim hugmyndum sem fram hafa komið. Jón Birgisson mun senda sveitarstjóra skýrslu þá sem starfshópurinn hefur unnið. 74 milljónum verður varið í verkefnasjóð til nýsköpunar í hin ýmsu verkefni.

Eftir kaffiveitingar og spjall yfirgáfu þeir félagar fundinn kl. 21:00.

 

Þá mættu þær stöllur Kristín Sóley Björnsdóttir frá Ferðamálasetri Íslands og Guðrún Kristinsdóttir safnstjóri hjá Minjasafninu á Akureyri til að kynna fyrir sveitarstjórnarmönnum þar sem er að gerast á Gásum.

Þar kom fram að Gásakaupstaður hefur algjöra sérstöðu frá fornminjalegu sjónarmiði og að hann sé óvenjulega heillegur. Líklega orðið til u.þ.b. árið 1000 og verið aðalkaupstaðurinn við Eyjafjörð fram yfir árið 1500 þegar Akureyri verður að þéttbýliskjarna. Þar sést að brennisteinn hefur verið unninn þar á miðöldum til útflutnings og er það eitthvað sem enginn vissi af fyrirfram. Fjárlaganefnd og Kristnihátíðarsjóður hafa fyrst og fremst fjármagnað verkefnið hingað til.

Haldið verður áfram að grafa upp fornminjar til a.m.k. ársins 2006. Ferðamenn hafa komið í þó nokkru mæli og hefur leiðsögn verið um svæðið á hverjum degi á 3 til 4 tungumálum, yfir sumarmánuðina. 860 ferðamenn komu sumarið 2002. Það sem þarf að gera er að stækka bílastæðin og setja upp þokkalegar snyrtingar fyrir ferðamenn. Vildu þær vita hvort Hörgárbyggð hefði ekki áhuga á að koma að frekari uppbyggingu að Gásum og efla ferðamennsku á svæðinu að teknu tilliti til sögulegra minja svo sem að Gásum, Skipalóni og Hlöðum. Einnig var rætt um aðkomu Hörgárbyggðar að gerð deiliskipulags á svæðinu og fer það mál í vinnslu.

Þær sjá ekki fyrir sér að ferðamennska og sorpurðun geti átt samleið þarna á Gásum. Sveitarstjórnarmenn tjáðu sig með það að þeir væru ánægðir með framtíðarplön fyrir Gásaverkefnið og eftir frekari umræður fóru þar stöllur á brott kl. 22:10.

 

Fundi var síðan framhaldið og var lagt fram til kynningar frá Eyþingi fundargerðir starfshóps um undirbúning á Vaðlaheiðargöngum.

 

Kvenfélag Hörgdæla og Leikfélag Hörgdæla ætla að hafa opið hús að Melum 1. mars nk. til að gefa íbúum sveitarfélagsins færi á að skoða endurbygginguna á Melum. Félögin ætla að bjóða upp á veitingar en Hörgárbyggð sér um að veita smá viðurkenningarvott til þeirra sem mesta hafa unnið að endurgerð Mela þ.e. umsjónarmaður framkvæmda, smiðirnir og rafvirkinn. Ákveðið var að sveitarsjóður greiði alfarið laun húsnefndarmannsins Borghildar Freysdóttur.

 

Ákveðið var að halda sveitarstjórnarfundina til skiptis að Melum og Hlíðarbæ eins og áður var fyrir framkvæmdirnar á Melum. Næsti sveitarstjórnarfundur verður haldinn á Melum 19. febrúar og vinnufundur verður í ÞMS 17. febrúar nk. kl. 20:00.

 

Ákveðið að sveitarstjórn Hörgárbyggðar bjóði sveitarstjóra ásamt maka á þorrablótið í Hlíðarbæ 8. febrúar nk.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 23:05.