Fundargerð - 06. apríl 2011

Miðvikudaginn 6. apríl 2011 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Skútar/Moldhaugar, deiliskipulag

Tillaga að deiliskipulagi fyrir Skúta og spildu úr landi Moldhauga var auglýst 12. janúar 2011 skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 13. desember 2010 og ákvörðun sveitarstjórnar 15. desember 2010. Athugasemdafrestur rann út 23. febrúar 2011. Athugasemdir bárust frá eftirtöldum aðilum:

·  Sigríður Þ. Mahon o.fl., dags. 25. janúar 2011

·  Jón Björgvinsson, dags. 17. febrúar 2011

·  Vegagerðin, dags. 4. mars 2011 (óskað var eftir viðbótarfresti til að veita umsögnina og var orðið við því).

Meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir, að að gerðum eftirfarandi breytingum á henni:

·  Vestari aðkoma að deiliskipulagssvæðinu falli niður

·  Í skilmála deiliskipulagsins komi eftirfarandi setning: “Framkvæmdaaðili skal sjá um hönnun og lagfæringar á tengingu aðkomu við Hringveginn í samráði við Vegagerðina. Tengingin skal fela í sér að bifreiðar á leið norður og beygja til vinstri hindri ekki aðra umferð.”

·  Áréttað verði í skilmálum deiliskipulagsins að "Samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra" gildi í hvívetna á deiliskipulagssvæðinu.

·  Í skilmálum deiliskipulagsins verði kvaðir um að hefðbundin slepping búfjár verði heimil frá deiliskipulagssvæðinu og að búfé komist um svæðið frá afrétt að Þórustaðarétt

·  Deiliskipulagssvæðið stækki sem samsvarar núverandi svæði undir Þórustaðarétt, sem þannig fái þar skilgreinda lóð

·  Tilvísun í fornleifaskrá verði leiðrétt

·  Vegur meðfram girðingu á jarðamörkum sunnan og vestan námusvæðis, að undanskildum vegi að fyrirhuguðum byggingarreit á Skútatúni, falli niður af deiliskipulagsuppdrættinum.

Ennfremur samþykkti nefndin að leggja til við sveitarstjórn eftirfarandi afgreiðslu á framkomnum formlegum athugasemdum við deiliskipulagstillöguna:

Sigríður Þ. Mahon o.fl.

Gerð er almenn athugasemd við veglagningu á jarðamörkum Skúta og Grjótgarðs, auk þess sem lagst er gegn því að vegur fari yfir tilteknar fornminjar. Þá er bent á að í greinargerð er rangt númer á viðkomandi fornleifaskrá.

Vegur á jarðamörkum er tekinn af deiliskipulagstillögunni og í greinargerð verður leiðrétt númer á viðkomandi fornleifaskrá.

Jón Björgvinsson

Settar eru fram nokkrar ábendingar varðandi áhrif deiliskipulagstillögunnar á nýtingu Þórustaðaréttar.

Vegur frá norðri að Þórustaðarétt er ekki hluti af deiliskipulagstillögunni, deiliskipulagssvæðið verður stækkað sem svarar réttinni og næsta nágrenni, þannig að skilgeind verður lóð undir réttina. Þá verður sett í skilmála deiliskipulagsins að hefðbundin slepping búfjár verði heimil frá deiliskipulagssvæðinu og að búfé komist um deiliskipulagssvæðið frá afrétt að Þórustaðarétt.

Vegagerðin

Lagst er gegn vegtengingu frá norðri að deiliskipulagssvæðinu og sett eru skilyrði fyrir samþykki Vegagerðarinnar við tengingu við Hringveginn frá austri að svæðinu.

Nyrðri vegur að deiliskipulagssvæðinu er ekki hluti af tillögunni og í skilmálum deiliskipulagsins verða sett ákvæði um hönnun og lagfæringar á tengingu á aðkomu svæðisins við Hringveginn og samráð við Vegagerðina um það.

 

2. Skútar/Moldhaugar, efnistaka, umsögn um tillögu að matsáætlun

Lagt fram bréf, dags. 4. mars 2011, frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu að matsáætlun vegna efnistöku í landi Skúta/Moldhauga. Tillagan var lögð fram á fundinum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við matsáætlunina, eins og hún liggur fyrir, að undanskildu því að í kafla 4.2 fái “aðrar atvinnugreinar” vægið 3 og “hljóðvist og loftmengun/sandfok” fái vægið 4.

 

3. Dysnes, deiliskipulag

Lagt fram bréf, dags. 10. janúar 2011, frá Hafnasamlagi Norðurlands sem óskar eftir heimild til þess að vinna og leggja fram tillögu að deiliskipulagi athafna-, iðnaðar- og hafnarsvæðis á Dysnesi. Bréfið er samhljóða tölvubréfi frá Hafnasamlaginu, dags. 20. september 2010, og afgreitt var af skipulags- og umhverfisnefnd 22. september 2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að taka fyrir sitt leyti jákvætt undir framkomna fyrirætlun um gerð deiliskipulags á Dysnessvæðinu.

 

4. Hlíðarfjall, niðurfelling á deiliskipulagi svifbrautar

Lagt fram bréf, dags. 4. mars 2011, frá Akureyrarbæ þar sem óskað er eftir samþykki sveitarstjórnar á framkominni tillögu um niðurfellingu á deiliskipulagi svifbrautar í Hlíðarfjalli sem er frá 2001.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að samþykkt verði af hálfu Hörgársveitar að gildandi deiliskipulag svifbrautar í Hlíðarfjalli verði fellt úr gildi.

 

5. Hlíðarfjall, tillaga um deiliskipulag skíðasvæðis

Lagt fram bréf, dags. 8. febrúar 2011, frá Akureyrarbæ, með beiðni um umsögn um tillögu að deiliskipulagi skíðasvæðis í Hlíðarfjalli. Tillagan gerir ráð fyrir nýjum skíðalyftum, þjónustumiðstöð, gistiskálum og hótelum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að af hálfu Hörgársveitar verði ekki gerð athugasemd við framkomna deiliskipulagstillögu fyrir skíðasvæði í Hlíðarfjalli.

 

6. Eyrarvík, grenndarkynning

Lögð fram afstöðumynd vegna byggingar á íbúðarhúsi á lóð með landnúmer 187948 í Eyrarvík, dags. 16. febrúar 2011.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fram fari grenndarkynning vegna byggingar á íbúðarhúsi á lóð með landnúmer 187948 í Eyrarvík, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

7. Neðri-Rauðilækur, efnistaka

Lagt fram tölvubréf, dags. 1. apríl 2011, frá landeigendum á Neðri-Rauðalæk með ósk um framlengingu á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku, sem gefið var út 20. febrúar 2008 og rann út 19. febrúar 2011, þar aðeins hafi verið tekið um helmingur þess efnismagns sem leyfið gerir ráð fyrir.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfi efnistöku í landi Neðri-Rauðalækjar, sem gefið var út 20. febrúar 2008 gildi til 19. febrúar 2012, og að önnur ákvæði leyfisins verði óbreytt, jafnframt því að ekki verði um frekari framlengingu að ræða á framkvæmdaleyfinu.

 

8. Laugaland, gerð deiliskipulags

Lögð fram drög að lýsingu á fyrirhuguðu deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í landi Laugalands, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framlögð lýsing á fyrirhuguðu deiliskipulagi í landi Laugalands verði samþykkt með leiðréttingum á texta í samræmi umræður á fundinum.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:50.