Frétt frá Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps

 

Aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps var haldinn á Staðarbakka þann 18. mars.

Um 20 manns mættu á fundinn. Ólafur G Vagnsson ráðunautur kynnti niðurstöður úr skýrsluhaldi félagsmanna fyrir síðasta ár. Meðal afurðir eftir á með lambi voru 31 kíló.

Á fundinum gáfu systkinin á Staðarbakka félaginu bikar til minningar um foreldra sína, þau Skúla Guðmundsson og Margrét Jósavinsdóttir en þau hefðu orðið níræð á þessu ári. Skúli var einn af stofnendum félagsins þann 17. mars 1964 og var þar virkur félagi allan sinn búskap og á 20 ára afmæli félagsins var honum veitt sérstök viðurkenning fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt.

Bikar þessi skal vera farandgripur, veittur árlega fyrir hæst stigaða lambhrút í félaginu og skal fylgja honum ágrafinn peningur til eignar.

Að þessu sinni hlutu bikarinn þau Guðmundur og Sigrún á Staðarbakka fyrir hrútinn Þrótt 02240, sem stigaðist  upp á 86,5 stig í haust sem leið.

Þróttur er undan sæðingahrútnum Spak 00909 og Féleg 00058.