Fornleifarannsóknir

Undanfarin sumur hefur hópur fornleifafræðinga á vegum Fornleifastofnunar Íslands og CUNY háskólans í New York unnið að rannsóknum á “baklandi” Gása í Hörgárdal. Meðal annars hefur rannsókn hópsins beinst að víkingaaldarbyggingu sem er í landi Staðartungu, nánar tiltekið þar  sem fornbýlið Skuggi var. Byggingin kom í ljós við frumrannsókn sumarið 2009.

Hópurinn stefnir á að ljúka uppgreftri byggingarinnar nú í sumar og vonast til að rannsóknin varpi ljósi á hlutverk hennar og aldur. Að auki er stefnt að því að kanna betur svæðið í kringum bygginguna, en líklegt þykir að skriða/skriðuföll hafi verið þess valdandi að Skuggi lagðist í eyði, á 12. eða 13. öld.

Auk rannsókna á Skugga mun hópurinn gera uppgröft við bæjarstæði eyðibýlisins Oddstaða í landi Öxnhóls. Þar var gerður prufuskurður sumarið 2009 og kom þá í ljós ríkulegur öskuhaugur sem spannaði tímabil allt frá 10. öld til 14. aldar. Öskuhaugurinn er því að hluta samtíða kaupstaðnum á Gásum og getur því varpað ljósi á tengsl býlanna í Hörgárdal við kaupstaðinn.

Verkefnið er unnið undir stjórn þeirra Howell M. Roberts og Ramona Harrison, sem tók myndina. Frekari upplýsingar um verkefnið Gásir Hinterlands Project má finna hér: http://www.nabohome.org/cgi-bin/explore.pl?seq=9. Einnig er hægt að hafa samband við rannsóknarhópinn í gegnum netfangið: ramona.harrison@gmail.com