Fjárhagsáætlun 2012

Fjárhagsáætlun Hörgársveitar fyrir næsta ár var samþykkt á fundi sveitarstjórnar nýlega. Tekjur A-hluta eru áætlaðar 425 milljónir króna, þar af eru útsvarstekjur áætlaðar 180 milljónir króna, tekjur af fasteignaskatti 31 milljón króna og framlög Jöfnunarsjóðs 141 milljón króna. Tekjur í B-hluta eru áætlaðar 5 milljónir króna. 

Áætlað er að rekstrargjöld sveitarsjóðs og stofnana hans verði samtals 391 milljón króna. Þar af eru afskriftir áætlaðar um 16 milljónir króna. Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur eru áætluð um 12 milljónir króna. Þannig gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir að rekstrarafgangur samstæðunnar verði 22 milljónir króna. Áætlað er að veltufé frá rekstri á árinu verði alls 44 milljónir króna, sem yrði þá lítilsháttar aukning frá fyrra ári. Fyrirhuguð fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er 25 milljónir króna og fyrirhuguð fjárfesting í eignarhlutum í félögum er 1,6 milljónir króna. Áætlað er að handbært fé breytist ekki milli ára og verði 47 milljónir króna í árslok 2012.

Til fræðslu- og uppeldismála verður varið 209 milljónum króna sem er 53% af  heildarrekstrargjöldum sveitarfélagsins og til æskulýðs- og íþróttamála verður varið 54 milljónum króna. Samkvæmt áætluninni verða laun og launatengd gjöld um 48% af rekstrarútgjöldum sveitarfélagsins.

Fremur litlar gjaldskrárbreytingar verða hjá Hörgársveit á árinu 2012. Álagningarhlutföll útsvars og fasteignaskatts verða óbreytt milli ára. Dvalargjald í leikskóla breytist ekki, en fæðisgjaldið hækkar um 14%. Þessi gjöld hafa verið óbreytt síðan árið 2005. Eftir breytinguna kostar 8 klst. dvöl á leikskóla með fæði alls 29.880 kr. á mánuði. Mötuneytisgjald í grunnskóla verður óbreytt út skólaárið. Sorphirðugjald heimila verður 35.000 kr. á ári sem er 35% hækkun frá fyrra ári. Þá mun sorphirðugjald vegna búreksturs hækka verulega milli ára. Miklar breytingar á fyrirkomulagi förgunar úrgangs í héraðinu hafa staðið yfir undanfarin misseri, sem hafa leitt til mikils kostnaðarauka.  Í því sambandi ber að hafa í huga að sá kostnaður hefur um árabil verið tiltölulega lítill miðað við það sem almennt gerist.