Fífilbrekkuhátíðin

 
 

Sunnudaginn 13. júní s.l. stóð félagið Hraun í Öxnadal ehf. fyrir "Fífilbrekkuhátíð á Hrauni.  Hátíðin stóð frá hádegi og fram á kvöld.  Yfir hundrað manns sóttu hátíðina.

Tryggvi Gíslason fyrrum skólameistari Menntaskólans á Akureyri setti hátíðina.  Gerði Tryggvi grein fyrir framtíðaráformum félagsins, en það hyggst koma á fræðasetri og minningarstofu um skáldið og náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson á Hrauni og kynna verk hans og störf en Jónas var fæddur að Hrauni árið 1807.  Þá greindi hann einnig frá því að stefnt yrði að koma upp fólkvangi að Hrauni.

 

Bjarni Guðleifsson sagði frá staðnum, náttúrufari, gróðri og gönguleiðum.  Þá greindi hann frá sögnum sem tengjast Hrauni.

Þórarinn Hjartarson söng, þar á meðal; Fífilbrekka gróin grund.

Margir gestanna fóru lengri eða skemmri gönguferðir og skoðuð sig um á staðnum.

Kaffiveitingar voru í boði Hörgárbyggðar en Gistiheimilið á Engimýri annaðist þær.  Að endingu var grillmatur í boði Hrauns ehf og Bautans.

Veðrið var ágætt þrátt fyrir skúri öðru hvoru. 

Íbúðarhúsið var byggt árið 1937.  Því hefur verið haldið vel við og á að varðveita það eins og kostur er.

 

 Það er sveitarfélaginu mikils virði að verið sé að tryggja framtíð Hrauns.  Um jörð og hús verði annast þannig að áfram verði staðarlegt þangað heim að líta.  Framtak þeirra sem stóðu fyrir stofnun Hrauns í Öxnadal og þeirra góðu framtíðaráform styrkja byggðalagið og eykur mennt og menningu.