Fífilbrekkuhátíð að Hrauni í Öxnadal

 

Fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum,
flóatetur, fífusund,
fífilbrekka, smáragrund,
yður hjá ég alla stund
uni best í sæld og þrautum.
Fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum.
Úr Dalvísu 1844
 
Sunnudaginn 13. júní n.k. verður haldin Fífilbrekkuhátíð að Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar [1807-1845], fyrsta nútímaskálds Íslendinga og fremsta náttúrufræðings Íslands á 19. öld. Að hátíðinni stendur félagið HRAUN Í ÖXNADAL EHF sem keypt hefur jörðina og hyggst koma þar á fót fræðasetri og minningarstofu um skáldið og náttúrufræð­inginn, kynna verk hans og störf og vinna með öðrum stofnunum og einstakl­ingum að því að efla lifandi og sögulega menningu lands og þjóðar. Einnig er stefnt að því að koma á fót fólkvangi í Öxnadal sem m.a. nái yfir land Hrauns í Öxnadal.
 
Fífilbrekkuhátíðin 2004 hefst á hádegi að staðartíma- kl. 13.30 - og stendur til sólarlags 24.00. Rakin verður saga jarðarinnar, en líkur benda til að Hraun sé landsnámsjörð og hafi upphaflega heitið Vatnsá, kennd við ána sem rennur úr Hraunsvatni og nú heitir Hraunsá. Sagt verður frá þjóðsögum og sögnum, sem tengjast jörðinni og dalnum, og rakin ævi Jónasar Hallgrímssonar. Sagt verður frá náttúrufari, blómgróðri og jarðmyndunum í Öxnadal og farið í gönguferðir. Einnig verður sagt frá framtíðaráætlunum HRAUNS Í ÖXNADAL EHF. Þá syngur Þórarinn Hjartarson ljóð Jónasar Hallgrímssonar.
 
Hátíðargestum verður boðið upp á miðdegiskaffi í boði Hörgárbyggðar og undir kvöld upp á glóðarsteiktan mat sem BAUTINN á Akureyri stendur að ásamt HRAUNI Í ÖXNADAL EHF. Allir velunnarar Jónasar, íslenskrar tungu, bókmennta og náttúru hvaðanæva að eru velkomnir á Fífilbrekkuhátíð 2004 sem eftirleiðis verður árlegur viðburður að Hrauni í Öxnadal.
 
Að Hrauni í Öxnadal er það bæjarstæði fagurt sem engu öðru er líkt. Mikil náttúrufegurð er í Öxnadal, “þar sem háir hólar/hálfan dalinn fylla”. Jörðin að Hrauni er 2330 ha að stærð með um 22 ha ræktuðu túni og nær land jarðarinnar frá Kiðlingshnjúkum og Þverbrekkufjalli í suðri, yfir Vatns­dalinn með Hraunsvatni og frá Hraunsá norður að Einbúa. Markast landið í vestri af Drangafjalli með Hraundranga og í austri af Öxnadalsá. Í Hrauns­vatn og í Öxnadalsá er góð bleikjuveiði. Á jörðinni er steinsteypt íbúðarhús frá árinu 1933, lítil rafstöð, auk útihúsa, sem sum hver verða gerð upp til ýmissa nota samkvæmt sérstakri áætlun þar um. 
 
Einkahlutafélagið Hraun í Öxnadal ehf var stofnað 26. maí 2003, á dánardegi Jónasar Hallgrímssonar. Í stjórn sitja Guðrún María Kristinsdóttir forn­leifa­fræð­ingur, Jón Kr. Sólnes lögmaður og Tryggvi Gíslason magister. Nokkrir einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki standa að félaginu. á grundvelli samþykkta þess verður sett á fót stofnun Jónasar Hallgrímssonar sem annast mun rekstur fræða­setursins og framkvæmdir á staðnum. Í ráði er að vinna að endurbótum og uppbyggingu á staðnum á næstu árum. Eitt fyrsta verkefni stofnunAR Jónasar Hallgrímssonar er að undirbúa 200 ára afmæli skáldsins og náttúrufræðingsins Jónasar Hallgrímssonar hinn 16. nóvember 2007. Í tilefni þess verður gefið út myndskreytt úrval af kvæðum með æviágripi, ásamt geisladiski með sönglögum við ljóð skáldsins. Einnig verður efnt til ráðstefnu um skáldið og náttúrufræðinginn Jónas Hallgrímsson með þátttöku bókmennta­fræðinga, náttúrufræðinga og almennings. Stofnunin verður rekin í samráði við ýmsar skyldar kennslu- og fræðastofnanir, en allt verkið er unnið í samvinnu við sveitarstjórn Hörgárbyggðar og heimamenn.
 

Fréttatilkynning frá HRAUNI Í ÖXNADAL EHF

7. júní 2004,

Tryggvi Gíslason GSM 8969638

tryggvi.gislason@simnet.is